mánudagur, nóvember 13, 2017

Formlegar stjórnarmyndunarviðræður hafnar við ránfuglinn

Katrín Jakobsdóttir skýrði afstöðu sína mjög vel í Kastljósi. Það var erfitt að verjast því að finnast það bara gott og blessað að andstæðir pólar stjórnmálanna ynnu saman og úr því yrði ný nálgun, breytt stjórnmál. (Ég umorða, man þetta ekki orðrétt.) Og það er kannski alveg satt. Og gott. En það virðist bara eitt hafa gleymst: að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki hvaða flokkur sem er. (Ég nenni ekki að telja upp öll spillingarmálin, útlendingaandúðardaðrið, lítt duldu kvenfyrirlitninguna. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Þessvegna eru kjósendur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í uppnámi.

En ég er ekki enn farin að örvænta (sagði hún og reitti hár sitt). Ég held enn í vonina um að ekkert verði úr fyrirhuguðu ríkisstjórnarsamstarfi. Það eru málefnin sem þetta mun stranda á. Fjármögnun annarsvegar og hvernig á að nota féð hinsvegar. Það er himinn og haf á milli félagshyggjuflokks og ránfuglsins. Eftir að þessum kafla lýkur getur Katrín sagt að það sé fullreynt að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og þá geta viðræður við Loga og félaga byrjað aftur. Þannig að öndum rólega, þetta er ekkert búið.

Þetta er samt súrrealískt og óþægilegt.


Efnisorð: ,