mánudagur, október 23, 2017

Kosningar 2017: Píratar

Mér hefur verið uppsigað við Pírata frá upphafi. Frjálshyggjuviðhorf, andfeminismi (eða bara einfaldlega karlremba) og aðrar óþolandi skoðanir einkenndu flesta helstu talsmenn þeirra og þingmenn. Á þingi hafa þeir ótal sinnum setið hjá vegna þess að þeir hafa ekki skoðun á málum eða segjast ekki haft tíma til að kynna sér þau.

Í heilsíðuúttekt Fréttablaðsins á húsnæðismálum höfuðborgarinnarkom fram að „Píratar hafa ekki gefið sér tíma til að móta heildstæða stefnu í málaflokknum“. 

Þetta er eitt helsta kosningamál allra hinna flokkanna, húsnæðisskorturinn, leigumarkaðurinn, á borgin að byggja og leigja út íbúðir eða láta verktaka um það, á að lækka lóðagjöld, þétta byggð og þá hvar og hvernig? Þetta eru mál sem skipta fjölmarga borgarbúa gríðarlega miklu máli.

En þetta er bara of erfitt umhugsunarefni. Og tímafrekt. 

Fyrir alþingiskosningarnar síðustu var kallað eftir jafnréttisstefnu Pírata, hana settu þeir ekki fram fyrr en eftir kosningar. Hún kom reyndar svo seint fram og fór svo hljótt að stuðningsmenn þeirra urðu hennar ekki varir fyrr en löngu síðar og ráku þá upp ramakvein. Þá hrukku Píratar í kút og buðust til að draga jafnréttisstefnuna til baka eða eins og það er kallað: „lýstu yfir einlægum vilja til stöðugrar endurskoðunar“. 
(29.maí 2014)
Jón Þór Ólafsson og Smári McCarthy leituðu í smiðju til Sigmundar Davíðs og villtu á sér heimildir, þaðeraðsegja sögðust hafa háskólagráður sem þeir höfðu ekki og ekki varð það til að hækka þá í áliti hjá mér (þeir Jón Þór og Smári hafa þessar upplýsingarnar þó réttar á alþingissíðum sínum núna, því þar segir að þeir hafi stúdentspróf og hafi stundað háskólanám á tilteknu árabili, en ekkert um háskólagráður). Það voru aðallega Helgi Hrafn og Jón Þór sem fóru í taugarnar á mér (sjá hér dæmi um andfeminisma Helga Hrafns og Jóns Þórs, en þegar Ásta Guðrún Helgadóttir bættist við í hópinn og reyndist líka vera hlynnt klámi þá féll mér allur ketill í eld. Sembetur fer er hún að hætta en á móti kemur að Helgi Hrafn er að öllum líkindum á leið á þing aftur, því hann er efsti maður á lista í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefur hinsvegar komið ánægjulega á óvart. Hún hefur t.a.m. verið afar skelegg í öllu þessu subbulega máli í kringum uppreista æru. En þegar nánar er að gáð reynist hún að hafa verið innanbúðar hjá Kvennablaðinu, sem er verulegur ljóður á ráði hennar. Það að hún tengist Snarrótinni (sem styður lögleiðingu kannabis) er heldur ekki nógu gott en þó ekki eins slæmt og að hafa unað sér meðal andfeministanna á Kvennablaðinu.

Talandi um þá.

Það gleður mig umtalsvert að Einar Steingrímsson sem bauð sig fram í prófkjöri hjá Pírötum, lenti í níunda sæti á sameinuðum lista fyrir framboðin í norður og suður Reykjavík. Það hefði átt að skila honum í fjórða eða fimmta sæti í öðru hvoru kjördæminu en nú bregður svo við að hann sést hvergi á framboðslista. Semsagt: Einar Steingrímsson verður hvorki þingmaður né varaþingmaður. Húrra fyrir því.

Ekki að ég vilji að neinn kjósi Pírata, með eða án flugnahöfðingja andfeministanna.

En nú skal hætta rausi. Hér koma tenglar á nokkra vel valda pistla sem ég hef skrifað um Pírata gegnum árin. Ég mæli með að lesendur elti alla tenglana í textunum og sjái heimildirnar með eigin augum.

12. apríl 2013: Píratar

15. apríl 2013: Stefnur og skuldir

29. maí 2014: Píratar settu ekki stefnumál í mikilvægum málum á vefsíðu sína fyrr en seint og um síðir.

19. október 2014: Þegar Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata mótmælti því að vefsíðu Íslamska ríkisins var lokað

19. mars 2015: Skrifað í tilefni þess að fylgi Pírata hafði aukist mjög í vinsældakönnunum.

26. október 2016: Kosningapistill sem skrifaður var fyrir síðustu kosningar.

Hér er svo tengill á viðtal Knúzzins við Helga Hrafn í apríl 2013 þar sem m.a. er rætt um kynjakvóta, fléttulista og klám,

Efnisorð: , , ,