laugardagur, október 07, 2017

Bláeygi Bjarni verður enn fyrir árásum fjölmiðla

Það var fyrir löngu vitað að Bjarni Benediktsson seldi snemma árs 2008 megnið af hlutabréfum sínum í Glitni (hér á blogginu hefur það t.d. verið rætt hér og hér). Stundin, Reykjavik Media og The Guardian hafa rannsakað fjármálagjörninga Bjarna Benediktssonar og fjölskyldu hans út frá nýjum gögnum. Í úttekt Stundarinnar (sem verður aðalheimild hér) kemur meðal annars fram að 19. febrúar, tveimur dögum áður en Bjarni, sem þá var þingmaður, seldi hlutabréfin, sat hann fund með bankastjóra Glitnis og vissi því um vanda bankans. Þær upplýsingar hafði almenningur ekki (enda bankinn á fullu við að segja að allt væri í lagi) og gat því ekki losað sig við sín hlutabréf. Bjarni hafði semsagt upplýsingar sem aðrir höfðu ekki og notaði þær til að forða fé sínu.
„Gögnin sem Stundin hefur undir höndum varpa frekara ljósi á þessi viðskipti því þar kemur fram að Bjarni hafi selt bréf sín í Glitni dagana 21. til 27 febrúar. Þá seldi Bjarni hlutabréf í Glitni fyrir rúmlega 119 milljónir króna í fimm viðskiptum og hélt eftir bréfum sem voru rúmlega 3 milljóna króna virði samkvæmt viðskiptayfirliti hans. Í lok janúarmánaðar voru hlutabréf Bjarna tæplega 152 milljóna króna virði.

Í gögnunum kemur fram að Bjarni hafi notað hluta söluhagnaðar hlutabréfanna í Glitni til að kaupa hlutdeildarskírteini í Sjóði 9 dagana 26. og 28. febrúar fyrir tæplega 90 milljónir króna. Í mars þetta ár átti Bjarni 165 milljónir króna í Sjóði 9 og var stofninn í eignasafni hans í bankanum en þá var hann með 213 milljónir króna í eignastýringu þar.“
(Þann 8. febrúar 2008, nokkru áður en Bjarni seldi og keypti öll þessi hlutabréf og hlutdeildarskírteini, var hann sendill í hinu margfræga Vafningsmáli, sem Stundin rekur einnig. Það var mikið að gera hjá Bjarna í febrúar!)

Fall Glitnis 29. september, Guð blessi Ísland 6. október
„Bjarni, sem á þessum tíma var meðal annars í efnahags- og skattanefnd sat fundi á þessum tíma þar sem erfið staða Glitnis var rædd.* Hann var einn þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem sat neyðarfund um framtíð Glitnis í höfuðstöðvum Stoða, stærsta hluthafa Glitnis, nóttina áður en íslenska ríkið fékk bankann í fangið þann 29. september 2008. Frá þessari aðkomu Bjarna var greint í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Á fundinum kom fram að staða Glitnis væri „gríðarlega alvarleg“ eins og haft var eftir einum fundarmanni í skýrslunni.“

Bjarni „seldi allar eignir sínar í Sjóði 9 hjá Glitni dagana 2. til 6. október árið 2008. Þann 6. október miðlaði hann upplýsingum um störf FME [fjármálaeftirlitið] til framkvæmdastjóra hjá Glitni.“

Engeyingar forða fé
Fleiri fjölskyldumeðlimir forðuðu peningunum sínum enda bjuggu þeir yfir sömu upplýsingum og Bjarni (og fengu þær líklega hjá honum).
„Faðir Bjarna, Benedikt Sveinsson, og föðurbróðir hans seldu líka eignir sínar í Sjóði 9 í aðdraganda bankahrunsins á Íslandi. Benedikt seldi eignir í Sjóði 9 fyrir tæplega 260 milljónir króna … Einar Sveinsson seldi í Sjóði 9 sama dag og Bjarni, þann 6. október fyrir rúmlega 1020 milljónir króna í tveimur færslum … Þá kom fram í Fréttablaðinu í desember í fyrra að Benedikt Sveinsson hefði innleyst eignir í Sjóði 9 og millifært 500 milljónir af reikningi sínum í Glitni til Flórída þann 26. september 2008.“
„Slitastjórn Glitnis tók tvö mál tengd Benedikt Sveinssyni til skoðunar eftir hrun“, segir í Stundinni (þar sem einnig er fjallað um peningamál Einars bróður hans). Slitastjórnin leitaði til lögmannstofunnar LEX, þar sem Bjarni Ben vann áður, til að skera úr um vafaatriði varðandi brask Benedikts Sveinssonar, og góðvinkona Bjarna af stofunni sá til þess að slitastjórnin lét málið niður falla. Að tillögu Bjarna fékk góðvinkonan síðar sæti í bankaráði Seðlabankans.

Viðhorf Engeyinga til peninga (aðallega samt mismunandi viðhorf til þeirra sem eiga peninga og þeirra sem eiga þá ekki)
„Bjarni Benediktsson, aðspurður um hvort hann sjálfur hefði átt í Sjóði 9 og selt eitthvað sjóðnum dagana fyrir bankahrunið: „Ekkert sem skiptir máli. Ég átti á sínum tíma eitthvað í Sjóði 9 en ég man ekki eftir því að það hafi verið eitthvað sem mig rekur minni til að hafi skipt einhverju máli.“

Bjarni svaraði spurningunni því hvorki játandi né neitandi. Ljóst er hins vegar að hann seldi fyrir umræddar 50 milljónir.“
Hinn frændinn í (starfandi) ríkisstjórn sagði hinsvegar að 20 þúsund kall sé mikill peningur. En þá er hann að tala um að lífeyrisþegum á að þykja hellings nóg að fá 20 þúsund krónur ofan á bæturnar, en fyrir Engeyingum eru skiptir ekki máli hvort það bætast 50 milljónir í vasann eða ekki. Smápeningar.

Að hitta á réttu stundina
Hugsanlega biðu rannsóknarblaðamenn Stundarinnar, Reykjavik Media og The Guardian með að birta niðurstöður sínar, varla þó eingöngu til að ná að pönkast á Bjarna í kosningabaráttu (gat einhver vitað með löngum fyrirvara að það yrði boðað til kosninga?) heldur til þess að birtingin hitti á sömu dagsetningu og hrun íslenska bankakerfisins fyrir níu árum: 6. október.

Bjarni heldur því hinsvegar fram að þetta sé eingöngu til að skemma fyrir sér í kosningunum. Og vonandi skemmir þetta fyrir honum. En aðallega skiptir þó máli að þessar upplýsingar liggi fyrir svo að kjósendur geti skoðað þennan hluta af sögunni af Engeyjarprinsinum. Í ævintýrum bjargar prinsinn prinsessunni, en þessi prins (nei enga IceHot1 brandara hér) bjargar eigin fjármálum og fjölskyldunnar, en skeytir engu um almenning sem ekki var í sömu aðstöðu til að vita hvað var að gerast, og átti upp til hópa ekki slíkar upphæðir í bönkunum, en tapaði þó mestu.

Viðbrögð Bjarna við umfjöllun Stundarinnar og The Guardian voru þessi:
„Ég er auðvitað orðinn nokkuð vanur því að menn sæki að mér í aðdraganda kosninga og einmitt með einhver svona mál, þar sem er reynt að vega að minni persónu og mínum trúverðugleika. Ég tek þessu sem merki um að menn hafa ekkert í mig málefnalega“.
Það er öðru nær. Nóg er hægt að ræða um stefnumál Sjálfstæðisflokksins og hvernig gengið hefur að efna kosningaloforð síðustu kosninga.

En persóna formanns flokksins skiptir samt máli, sérstaklega þegar nafn hans tengist aftur og aftur og endalaust hneykslismálum. Vafningur, innherjaupplýsingar notaðar til að forða fjármunum úr fallandi banka, skattaskjólsfélag framhjáhaldsvefur, óþægilegum skýrslum stungið undir stól framyfir kosningar, Borgun seld ættingjunum, þagað yfir hlutdeild föðurins í uppreistri æru barnaníðings. Hér hefur eflaust eitthvað gleymst í upptalningunni, en sannarlega verður að ræða þetta þegar kjósendur velta fyrir sér hverjum er treyst til að stýra þjóðarskútunni.

Eða öllu heldur: í þágu hvers skútan siglir.


___
* Mikilvæg viðbót: Efnahags-og skattanefnd fundaði EKKI um stöðu Glitnis. Það er einsgott að leiðrétta þetta áður en Reiði-Bjarni kemur og skammar mig.

Efnisorð: , ,