miðvikudagur, september 13, 2017

Stefnuræða spillingargosans og umræður um hana

Athugið að vegna mistaka vantaði úttekt á ræðu Steingríms Joð, henni hefur nú verið bætt við.

Stutt úttekt á nokkrum ræðum kvöldsins. Tengingar á ritaðar ræður á vef Alþingis eru í nöfnum ræðumanna.

Bjarnabófinn og spillingargosinn sem gegnir embætti forsætisráðherra ræddi í stefnuræðu sinni aðallega um kjaramál og að það mætti ekki hleypa pöplinum uppá dekk með kröfur sínar. Í ljósi fjárhagslegrar stöðu hans sjálfs og launanna sem hann þiggur er þetta helst til kaldranalegt, en þó auðvitað viðbúið.

Það er gömul saga og ný að Katrín Jakobsdóttir flytur frábærar ræður. Meginstef hennar var réttlæti. Mjög sterk nálgun. (Forsætisráðherra sjálfur var ekki með réttlæti í fyrirrúmi.)

Sigurður Ingi (sem ég heyrði nýlega kallaðan besta forsætisráðherra Framsóknarflokksins á síðasta kjörtímabili) var árásargjarn, taldi upp kjólamál Bjartar Ólafsdóttur og tíuþúsundkalla klúður Benedikts fjármálaráherra. (Sjónvarpsvélar súmmuðu ekki á ráðherrana þótt tilefni væri til - en því oftar á Brynjar Níelsson við öll tækifæri í ræðum ýmissa þingmanna og ráðherra.)

Óttar Proppé er í allt öðru leikriti og spilar rullu frá öðru kjörtímabili. Er enn bara glaður og finnst mikilvægt að fá að vera memm. Talaði um íslenskt samfélag í fremstu röð (eins og Bjarni Ben). Virðist alveg ónæmur á óvinsældir sínar, er bara í gleðigírnum og finnst eins og allt sé gott.

Logi Einarsson með ágæta ræðu. Talaði um bryggjuverkamenn sem gengu sér til húðar og einsog fiskvinnslukonur og sjúkraliðar gera nú. Vitnaði í Brekkukotsannál og talaði vel um flóttamenn. Sagði að samúð og samkennd er líklega það fallegasta sem mannkyninu er gefið.

Þetta er hin vel til fundna tilvitnun í Brekkukotsannál:
„Í það mund sem ég var að verða til, þá var þar í kotinu mikil örtröð af því fólki sem nú á dögum heitir flóttamenn; það er að flýa land; það leggur af stað með tárum úr heimkynnum sínum og ættbyggð af því svo illa er að því búið heimafyrir að börn þess ná ekki þroska heldur deya.“

Sigríður Á Andersen var í vörn allan tímann. Talaði um Landsdóm, svo uppreist æru. Einnig bullandi vörn vegna flóttamanna.

Steingrímur Joð byrjaði með látum, talaði um óvinsældir ríkisstjórnarinnar og lýðveldismet í leti. Vandi sauðfjárbænda sem er félags og kjaramál, sveitastjórnarmál, ein tekjulægsta stétt landsins, og hvar var landbúnaðarráðherra, byggðaráðherra, félagsmálaráðherra? Eina lausn ríkisstjórnarinnar er að bændur bregði búi. Fjármálafrumvarpið nákvæmlega jafn ömurlegt og fjármálaáætlun. Svo veifaði hann rannsóknarskýrslunni um aðdraganda og orsakir falls bankanna og las yfir Bjarna Ben. Þvílík eldmessa!

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir pírati var ágæt og baunaði hressilega á Brynjar Níelsson, Bjarna Ben og Sigríði Andersen.

Björt Ólafsdóttir sagði allt mjög skynsamlegt um náttúru og umhverfi, talaði gegn stóriðju. Minntist á innflytjendamál en engin önnur mál ríkisstjórnarinnar en þau sem snúa að hennar ráðuneyti, passaði sig greinilega á að taka enga ábyrgð á sveltistefnu ríkisstjórnarinnar (sama átti við um aðra þingmenn og ráðherra smáflokkanna í stjórnarliðinu).

Oddný Harðardóttir, ágæt ræða. Ræddi norræna módelið,en líka undirboð á vinnumarkaði og slæma framkomu við erlenda starfsmenn.

Silja Dögg Gunnarsdóttir framsóknarkona hafði mestar áhyggjur af hækkun eldsneytisverðs (virtist engar áhyggjur hafa af mengun og loftslagsbreytingum).

Theodóra S. Þorsteinsdóttir hélt mjög sjálfmiðaða ræðu um að hún væri að hætta á þingi.

Páll Magnússon talaði á eftir Oddnýju en fær hér sérstaka (en brotakennda) umfjöllun vegna ræðu sinnar. Hann emjaði undan gagnrýni um sveltistefnu, vill lækka skatta og fara betur með fé, vill halda uppá hrunlok einsog Vestmannaeyingar halda uppá goslok. Páll var reiður í ræðustól en reiðastur yfir því að Sjálfstæðismönnum sé brugðið um samúð með barnaníðingum og sagðir vera miskunnarlausir gagnvart börnum á flótta.

Ég hef samúð með Páli. Hann var laumusjalli öll sín ár í valdstöðum fjölmiðla en loksins þegar hann er kominn úr skápnum með stjórnmálaskoðanir sínar og kominn á þing þá eru allir að skamma Sjálfstæðismenn fyrir laumuskap og leyndarhyggju. Þvílík ósanngirni.

Efnisorð: , , ,