sunnudagur, ágúst 13, 2017

Iss, skiljum bara skynlausa skepnuna eftir eins og hvern annan úrgang

Heimsmeistaramóti í frjálsum íþróttum lauk í dag þar sem frægasta íþróttafólk heims vann glæstra sigra og þurfti að horfast í augu við óvænta ósigra. Íslenskum keppendum gekk ekki sérlega vel en það er sárabót að Fanney Hauksdóttir kraftlyftingarkona fékk silfurverðlaun á Evrópumeistaramótinu í klassískri bekkpressu í Finnlandi.

Öðru svokölluðu íþróttamóti var að ljúka í Hollandi og er það heimsmeistaramót íslenska hestsins (það er flokkað með íþróttum hjá fjölmiðlunum). Þar rigndi inn verðlaunum til íslenskra knapa. Hestunum stendur líklega á sama um verðlaunin en það eru þó þeir sem sjá um allt erfiðið: þeir eru íþróttagarparnir en ekki knaparnir. (Já ég veit að knaparnir sjá oft um alla þjálfun hestsins en það að knapinn fær verðlaun en ekki hesturinn er einsog þjálfarar frjálsíþróttamannanna fengju einir verðlaun.)

Það sem hestunum myndi hinsvegar varla lítast á — ef þeir vissu eitthvað um hvað biði þeirra — er að þeir eiga ekki afturkvæmt til heimahaganna að loknu meistaramótinu. Reglur um innflutning dýra banna að hestar sem hafa farið til annarra landa megi koma aftur til Íslands. (Ég er hlynnt þessum reglum og öllum ströngum innflutningsreglum bæði á lifandi dýrum og hráu kjöti — já og í ljósi eggjaskandalsins á meginlandi Evrópu megum við þakka fyrir að hrá egg eru ekki flutt inn.)

Hestur sem er búið að leggja á þrotlausar æfingar jafnvel árum saman og stendur sig svo vel að hann er talinn líklegur til að gera góða hluti á alþjóðlegu móti — honum er refsað með útlegð. Aldrei má hann aftur upplifa íslenska sumarið. Hestar sem hann hefur þekkt alla ævi eru honum að eilífu horfnir. Hestar eru félagsverur (rannsóknir hafa sýnt að að hestar velja sér vini í hrossahóp, og það er tekið fram í reglugerð að hrossahald skuli taka mið af félagslegum og líkamlegum þörfum hrossa) og þeir geta orðið þunglyndir, en til þess er ekki tekið tillit þegar þeir eru seldir burt. Á erlendri grund mega þeir búast við að smitast af sjúkdómum sem hér eru óþekktir (og þessvegna má ekki flytja þá heim aftur) og þjást því einnig líkamlega í nýjum heimkynnum; sumarexem er velþekkt vandamál sem hrjáir íslensk hross í útlöndum.

Varla er ég ein um að hafa fundið skömm og reiði þegar ég heyrði um sölu íslenskra hesta í kolanámur Bretlands á 19. öld. Hvernig gátu íslenskir bændur verið svona grimmir? Að láta hestana sem vanir voru að hlaupa frjálsir strita í kolanámum til dauðadags og sjá aldrei aftur dagsljósið.

Hversu miklu betri er sú hugsun íslenskra hestamanna sem eru svo kappsamir og metnaðargjarnir að þeir selja undan sér hestinn sem er forsenda þess að þeir geti yfirhöfuð keppt á fína mótinu í útlöndum? Og svo ota fjölmiðlar „árangri íslensku keppendanna“ að lesendum eins og þetta sé fagnaðarefni?

„Þetta er ólýsanleg tilfinning … ég hef unnið að þessu markvisst í tvö ár,“ sagði sigurvegarinn eftir verðlaunaafhendinguna.
Þú hefur unnið markvisst að því að upphefja sjálfan þig á kostnað lifandi tilfinningaveru. Það er ekkert til að hreykja sér af.

Mér liggur við að skæla þegar ég hugsa til veslings hestanna sem fá aldrei að koma heim aftur.

Efnisorð: ,