þriðjudagur, ágúst 08, 2017

Litli prinsinn

Tímaritsgreinar, aðallega í kvennatímíritum, hafa oft fjallað um hvort karlmenn geti hugsað sér að vera giftir konum sem hafa hærri laun en þeir. Viðhorfið virðist lengi vera í þá áttina að körlum þyki það óþægilegt, það sé hlutverk karlmannsins að brauðfæða fjölskylduna. Með tíð og tíma á þetta að hafa breyst, ungir karlar séu sáttari við að eiginkonan hafi hærri laun, aðalmálið sé að ráðstöfunartekjurnar séu nægilega háar til að geta lifað þægilegu lífi.

Þetta rifjast upp nú þegar franski greifinn sem giftist vinsælasta þjóðhöfðingja Norðurlanda er að ybba gogg. Hann hefur notið allra þeirra lífsins lystisemda sem hægt er að hugsa sér á fimmtíu ára ferli sínum sem eiginmaður Danadrottningar, og fær að vera kallaður prins að auki. En hann verkjar í karlrembuna. Hann vill ekki vera síðri en drottningin (sem erfði hlutverkið að fornum sið) og svo er það svo ægilega ósanngjarnt að hann sé bara drottningarmaður og fái ekki að heita kóngur. Til þess að undirstrika hvað honum finnst það ósanngjarnt vill hann vera andstyggilegur við fjölskyldu sína og heimtar að fá að vera grafinn annarstaðar en hjá eiginkonu sinni, semsagt neita afkomendum sínum um að geta vitjað grafa konungshjónanna saman.

Það er svosem ekkert nýtt að karlmenn sætti sig ekki við að vera bara makar ríkjandi drottninga. María Stúart Skotadrottning giftist Darnley lávarði sem sótti það fast að verða kóngur og geta erft ríkið ef hún félli frá. Ekki tókst honum það (og ekki varð hann langlífur; ekki frekar en María hefði líklega orðið hefði hann fengið ósk sína um að verða kóngur uppfyllta) en handan landamæranna hafði Elísabet Englandsdrottning hin fyrsta rænu á því að vera ekki að giftast einhverjum framagosanum sem ásældist ekki bara ágætan félagsskap hennar heldur ríkidæmi hennar og völd líka.

En Margrét Þórhildur hefur kannski haldið að greifinn franski væri nútímamaður þegar hún giftist honum. Og hann myndi eða hefði — þegar konur almennt tóku sér meira pláss í vestrænum samfélögum og konur á Norðurlöndum voru í fararbroddi kvenfrelsisbaráttu — gengist fús við því að kona sín væri sér fremri og æðri í stjórnskipan landsins og í augum umheimsins. En nei. Hann bara delerar. Og kannski er það bara málið, að hann sé orðinn elliær*, eða sé súrrandi alki sem er fullur í viðtölum.

En kannski er bara ekki mikill munur á viðhorfum franska greifans og konungsdæminu: bæði jafn mikil tímaskekkja.



___

* Viðbót, tæpum mánuði síðar. Læknisrannsókn hefur leitt í ljós að hann er með heilabilun af því tagi sem stundum er kölluð elliglöp. Er því það sem er sagt um hann hér fyrir ofan verulega ósmekklegt og er beðist velvirðingar á því.

Efnisorð: , , ,