miðvikudagur, ágúst 02, 2017

Bláeygur og hissa, að vanda

Afhverju í fjandanum hefur Bjarni Ben ekki gubbað því útúr sér fyrr að það hafi ekki verið hann sem starfandi innanríkisráðherra þegar gengið var frá plöggum um uppreista æru Róberts Árna/Roberts Downey í innanríkisráðuneytinu?* Var hann að hlífa mannorði þeirrar manneskju sem nú er látin og var ráðherra á þessum tíma? Og hversvegna veifar hann nafni hennar þá núna? Það fór varla framhjá honum að almenningur og fjölmiðlar hafa haft 'rangar upplýsingar' um hver stýrði ráðuneytinu þegar tillagan um uppreista æru barnaníðingsins var send til forseta til undirritunar.** Var það ekki rétta fólkið sem heimtaði svör af Bjarna, fannst honum ekki þess virði að svara fórnarlömbum níðingsins og foreldrum þeirra?

Leiðari Magnúsar Guðmundssonar í Fréttablaðinu virðist hafa verið dropinn sem fyllti mælinn, því kannski þurfti einmitt það til, að honum væri bent á að þetta mál væri ekkert að fara: „þetta er vandamál sem er ekki að fara að gufa upp, þvert á móti vex það með degi hverjum“. Afleiðingin er semsagt sú að Bjarni hrokaðist fram á sjónvarsviðið til að segja að það sæti furðu að kallað sé eftir því að hann svari fyrir þessa ákvörðun, og býsnast yfir að það sé undarlegt að hann sé sagður forðast umræðu um málið. Helvítis maðurinn hefði getað losað sig úr snörunni fyrir löngu.

Hann er svo vanur að svara engu sem hann er spurður og ljúga rest að hann áttar sig ekki á alvöru málsins. Hann áttar sig aldrei á alvöru neins máls.

Eru þeir sem kusu þetta manngerpi og leiddu hann til valda virkilega sáttir við þetta?



___

Viðbót daginn eftir:
*Agnar Kr. Þorsteinsson skrifaði fínan pistil þar sem hann kallar þetta útspil Bjarna „reykprengju“ og bendir á að opinbera þurfi öll gögn „um hina uppreistu æru“.

** Fréttastofa Ríkisútvarpsins spurði Bjarna 3. ágúst „um aðkomu hans að málinu í júní síðastliðnum. Þá sagðist hann ekki hafa haft aðkomu að ákvörðuninni, en hinsvegar tekið við niðurstöðunni þegar málið hafði fengið hefðbundna meðferð í ráðuneytinu. Mátti þá skilja hann sem svo að hann hafi verið starfandi innanríkisráðherra, enda hafði hann áður leyst Ólöfu Nordal af vegna veikinda hennar. Samkvæmt upplýsingum úr forsætisráðuneytinu átti Bjarni við í viðtalinu að hann hafi tekið við niðurstöðunni á ríkisstjórnarfundi eins og aðrir ráðherrar.“ Og æ síðan — í sjö vikur — hefur hann þagað þótt hann hafi vitað mætavel að allir skildu það sem svo að hann hefði verið starfandi ráðherra.

Efnisorð: ,