mánudagur, júlí 31, 2017

Skiptir máli hvar og í hvaða tilgangi ráðherra klæðist kjól?

Það er erfitt að fá aukið álit á Björt Ólafsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra í miðju þessu kjólamáli. Hún lætur taka af sér mynd í sal Alþingis og er klædd hönnunarflík. Vinkona hennar á hlut í hönnunarfyrirtækinu sem framleiðir kjólinn og myndin birtist á síðu hönnunarfyrirtækisins. Með myndinni fylgir nafn og titill ráðherrans. Nafnið á kjólnum fylgir líka með. Það er mjög erfitt að sjá annað en þarna hafi ráðherrann tekið þátt í að markaðssetja og selja vöru fyrir vinkonu sína. Slíkt er ekki í lagi og gengur reyndar í berhögg við fyrstu grein þriðju málsgreinar í siðareglur ráðherra. (Aðrir þingmenn og ráðherrar hafa verið gagnrýndir fyrir að auglýsa fyrirtæki vina sinna, og hjálpa þeim að koma á viðskiptasamböndum, sbr. Brynjar Níelsson, Kristján Þór Júlíusson og Illugi Gunnarsson.)
Eins og Illugi Jökulsson segir þá misnotaði hún aðstöðu sína í þágu einkafyrirtækis vinkonu sinnar.

Að myndin var tekin í þingsal gerir illt verra. Það bætir ekki virðingu fyrir Alþingi að ráðherra í ríkisstjórn að auglýsa kjól útá ímynd Alþingis. Það er dónaskapur við bæði þingið, samþingmenn Bjartar og kjósendur.

Viðbrögð Bjartar þegar hún er gagnrýnd fyrir þetta tiltæki bæta svo gráu ofan á svart, því dómgreindarleysi ráðherrans einskorðaðist þó ekki við þann dag sem hún leyfði af sér þessa myndatöku heldur hélt áfram fram eftir degi (þar til aðstoðarmenn hennar gripu í taumana?) því hún hæddist að gagnrýnininni sem hún fékk á sig. Sagði að auki engar reglur (um myndatökur í þinghúsinu) hafi verið brotnar (minntist ekki á siðareglur) og röflaði um að upphefja kvenleikann og eitthvað um feðraveldið sem bætti ekkert úr skák fyrir henni. En jújú, baðst afsökunar fyrir rest en í þeim tón að engum dettur í hug að henni sé iðrun í hug.

Endanlega fór þetta svo allt útum þúfur þegar vinkonan í kjólafyrirtækinu ákvað að taka upp hanskann fyrir Björt og sagði að aldrei hefði staðið til að nota myndina til að selja kjólinn:
„Hugmyndin var að sýna heiminum íslenska konu sem sameinar það að vera ung og falleg og glæsileg og sterk og gáfuð og kjarkmikil, sýna heiminum konu sem hefur sýnt langt nef þeim karlrembukúltúr sem ríður röftum í íslenskum stjórnmálum. Hugmyndin var sú að nota GalvanLondon til þess að þjóna íslenskum konum, ekki íslenska konu til þess að þjóna GalvanLondon, með því að sýna heiminum hvernig íslenskar konur geta risið til valda í okkar kyrkingslegu stjórnmálum þrátt fyrir æsku og fegurð.“
Þó blasir við að kjólinn og fyrirtækið fengu þarna auglýsingu og gekk hún útá störf Bjartar á Alþingi. Og nú þegar kjóllinn hefur fengið svona mikla athygli selst væntanlega meira af (forljótum) flíkum í kjölfarið. Tilgangnum náð.

Stutta svarið við spurningunni í fyrirsögninni er já.

Efnisorð: , ,