föstudagur, júní 30, 2017

Uppgjör júnímánaðar

Júnímánuður var furðulegur á margan hátt.

Innanmein virðast hrjá Stígamót, vonandi verður stjórnunarvandinn (ef það er vandamálið) leystur, en allra mikilvægast er þó að hinu góða starfi verði áframhaldið og Stígamót njóti eftir sem áður trausts þeirra sem á þurfa að halda.

Hjá skólum Hjallastefnunnar hefur starfsmaður (tveir starfsmenn?) orðið uppvís að því að beita börn ofbeldi.

Fjármálaráðherra kom með uppástungu um að hætta að nota fimmþúsundkróna og tíuþúsundkróna peningaseðla, dró það svo strax til baka.

Ekki er eins líklegt að menntamálaráðherra bakki með sínar áætlanir. Hann vill fækka nemendum á háskólastigi og þrengja inntökureglur í stað þess að auka fjárveitingar til háskóla. Ég man þá tíð að menntun var fyrir alla (og að fullorðinsfræðsla þótti sjálfsögð) en nú sér fyrir endann á því. Nám verður fyrir fáeina útvalda. Ætli þetta endi ekki á að skrefið afturábak verður tekið til fulls og aðeins synir embættismanna verða sendir til náms.

Kjararáð átti enn og aftur sterka innkomu og bætti hressilega í launaumslagið hjá þeim sem vel voru haldnir fyrir.

Ellert Schram, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, hafði þetta að segja um kjararáðsgjafagjörninginn:
„Því er ekki að neita að það rak marga í rogastans, þegar birtar voru ákvarðanir kjararáðs um hækkanir launa hjá alþingismönnum, ráðherrum, hæstaréttardómurum og öðrum vel launuðum starfsmönnum hins opinbera. Skýringarnar á þessum launahækkunum er rökstuddar á þeim forsendum að hrunið hafi dregið úr launum þessa fólks og nú sé verið að bæta þeim launatapið.

Gott og vel. Ef ég man rétt, þá neyddust stjórnvöld að draga úr greiðslum til eldri borgara, þegar hrunið skall á. En eldri borgarar og þeirra kjör heyra ekki undir kjararáð og tilraunir til að hækka grunnlífeyri og kjarabætur hafa hvorki fengið undirtektir né stuðning. Grunnlífeyrir meira segja felldur niður hjá fjölmörgum.

Kjör eldri borgara, sem búa við tryggingarbæturnar einar, hafa versnað ef eitthvað er og enn eru hámarksgreiðslur tvö hundruð áttatíu þúsund krónur á mánuði. Fyrir skatt. Á sama tíma er staðan núna sú, að þeir þjóðfélagsþegnar sem hafa hæstu launin og heyra undir kjararáð, fá hundruðir þúsund króna hækkanir á mánuði sem eru auk þess afturvirk um marga mánuði.“
Og Magnús Guðmundsson sagði í leiðara:
„En þrátt fyrir allt er það ekki stóra málið heldur sú siðferðislega afstaða sem þessar ítrekuðu afturvirku hækkanir fela í sér. Í þessum stóru afturvirku hækkunum er nefnilega fólgin lítilsvirðing við þá sem síst hafa kjörin á Íslandi og þá ekki síst fyrri kynslóðir sem byggðu upp þetta samfélag. Í þessu er aðeins fólgin staðfesting á því að á þessu landi búa tvær þjóðir, við gjörólíkar aðstæður og misjafnt jafnrétti til kjara og mannsæmandi lífs.“

Í beinu framhaldi af þessu liggur beint við að snúa sér að ofsaríku mönnunum sem eiga auð sinn að miklu leyti íslenskum almenningi að þakka, ekki síst lífeyrisþegum. Björgólfur Thor er á lista yfir ríkustu menn heims þriðja árið í röð og nú eru Bakkabræður orðnir meðal ríkustu manna Bretlands,
„Bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir eru á nýjum lista yfir ríkustu menn Bretlands. Viðskiptablokk bræðranna var sú sem olli íslenska lífeyriskerfinu mestu tjóni. Þeir áttu fjölmörg félög á aflandseyjum og komu með háar fjárhæðir til Íslands í gegnum fjárfestingarleiðina.
[…]
Þeir sem standa uppi sem sigurvegarar eru Ágúst og Lýður Guðmundssynir. Þeir hafa endurheimt fyrirtækið sem þeir stofnuðu á Suðurnesjunum á níunda áratug síðustu aldar endurskipulagt, endurfjármagnað og án þess að upprunalegir kröfuhafar þess hafi fengið nema brotabrot af þeim peningum sem þeir lánuðu eða fjárfestu í félaginu til baka."
Það er óþolandi að horfa uppá hvernig þessir menn auðgast aftur og aftur á kostnað annarra.

Hér á landi eru þrautpíndir neytendur ofsaglaðir yfir nýju kjörbúðinni í Garðabæ. Nú er allt gleymt um nauðsyn þess að endurreisa kaupmanninn á horninu, nota reiðhjól og stilla mengun í hóf. Þess í stað brunar nú hver sem betur getur á bensínfák í uppsveitir Garðabæjar til að versla því það er svo hagkvæmt og bensínið (sem notað er í ferðirnar fram og til baka) svo ódýrt. Hagræðingin í kaupsýslulífinu er alveg í stíl; andsvar 'markaðarins' við múgsefjuninni kringum Kostakjör er að bensínfélög og verslunarkeðjur hafa runnið saman (Hagar sem á Hagkaup og Lyfju keyptu Olís, en N1 keypti Krónuna, Elko, Nóatún og Kjarval; Skeljungur ku ætla að kaupa matvöruverslanirnar 10/11 og Iceland), og auka þannig samþjöppun á markaði. Og herða takið á neytendum sem best þeir geta.

Það er kannski ekkert skrítið að Íslendingar þyrpist í verslun sem býður vöru á áður óþekktu verði, og kaupi jafnvel meira en til stóð. En sá sem keypti gíraffa á ríflega 300 þúsund sló þó einhverskonar 2007-met í sóun fjármuna uppá grín. Það er svo ákveðið áhyggjuefni að gíraffaeigandinn — sem sagði aðspurður um kaupin: „Ég hugsaði þetta ekki alveg til enda“ — er fjármálaráðgjafi. Um 2007 stemninguna sagði hann nokkrum árum síðar: „Mörg okkar sjáum eftir því í dag að hafa hrifist með skriðþunga tíðarandans.“ Nú er hann sjálfur birtingarmynd góðærisbrjálæðis.

Mogginn ku hafa dylgjað um að Kjarninn hefði tengsl við kröfuhafa föllnu bankana. Kjarninn leitaði til siðanefndar blaðamanna vegna þessa en málinu var vísað frá. Ritstjóri Kjarnans var ósáttur við frávísunina og sagði að þetta þýddi að „hann geti fullyrt að ritstjóri Morgunblaðsins sé með hala og vísað í „þrálátan orðróm“ því til stuðnings“, svona úr því Mogginn mætti átölulaust halda fram þessari sögu um Kjarnann. Stuttu síðar — og það má hafa verið tilviljun — voru blaðamenn á öðrum fjölmiðlum duglegir að flytja fréttir af dularfullum manni sem mígur í ruslafötur í húsnæði Morgunblaðsins við Hádegismóa. Fyrstu fréttum af fötusprænaranum fylgdi mynd af Davíð Oddssyni.

Það eru fleiri vinnustaðir með innanhússmein. Tékkneskum konum sem vildu komast í starfsnám í kjarnorkuveri var gefinn kostur á að spóka sig í bikiníi svo hægt væri að dæma um hver þeirra ætti starfið skilið. Úff.

Og meira frá útlöndum.

Fyrirmyndarfaðirinn Bill Cosby slapp við dóm því kviðdómur komst ekki að niðurstöðu (hann var því hvorki sýknaður né sekur fundinn). Svo virðist sem honum finnist það bæta málstað sinn að ætla nú í fyrirlestraferð til að fræða ungmenni um hvernig eigi að varast að vera sakaður um kynferðisofbeldi. Væri hann saklaus myndi honum varla detta önnur eins fjarstæða í hug.

Hatur á flóttamönnum sem reyna að komast til Evrópu er slíkt að stækum rasistum hefur hugkvæmst að koma í veg fyrir að fólkið nái að landi með því að þvælast fyrir björgunarskipum á Miðjarðarhafinu. Þvílíkur óþverrahugsunarháttur. Vonandi tekst þeim þetta ekki.

Hér á landi var maður drepinn fyrir framan fjölskyldu sína á hræðilegan hátt.

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra nýtur þess að athyglin hefur beinst í allar áttir eftir að hún handvaldi rétta menn í Landsrétt. Sá umsækjandinn sem hún lagði allt kapp á að ryðja úr dómnum ætlar nú í mál, og hvern velur þá ekki Sigríður til að verja sig íslenska ríkið gegn málsókn hans — jú vini sína á LEX lögmannsstofu, hvar einn gullkálfurinn á eiginkonu sem er fyrrverandi yfirmaður Sigríðar (og reyndar var einn landsréttardómaranna upphaflegu líka frá þeirri stofu). — Þetta er allt í stíl. Það er von að Illugi Jökulsson segi svekktur: „Við börðumst fyrir Nýju Íslandi og fengum Sigríði Andersen“.

Ætli það hafi verið til að dreifa athyglinni frá LEXréttarmálinu sem Bjarni Ben litaði hætti að lita stökkbreyttist breytti um útlit? Það var allavega mjög heppileg tímasetning.

En svo er þetta kannski ekkert úthugsað. Eftilvill er forsætisráðherra að stökkbreytast og hann ræður ekkert við það — og hugsanlega er breytingarferlinu ekki lokið.


















Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,