laugardagur, júní 24, 2017

Innsýn í hugarfar Fjalls

Hrikalega frásögn barnsmóður Hafþórs Júlíusar Björnssonar (Fjallsins) um ofbeldi sem hún sætti ítrekað af hans hendi mátti lesa í dag í Fréttablaðinu og á Vísi. Vísir auðvitað með athugasemdakerfið opið en hreinsaði þó eitthvað af því versta út (eða eyddu helstu fávitarnir eigin athugasemdum?).

Undir kvöld kom svo tilkynning frá frægðarmenninu sjálfu og þar er hann auðvitað saklaus af öllu en vondar konur að ljúga uppá hann. En það var viðbúið. Verra var að hann birti bréf sem barnaverndarnefnd sendi barnsmóður hans, þar sem kom fram fullt heimilisfang konunnar: götuheiti, húsnúmer og staðsetning íbúðar í húsinu.

Enda þótt þetta sé danskt heimilisfang er fullt af Íslendingum sem býr í Danmörku (eða ferðast þangað) og hefur því einhver vitleysingurinn nægar upplýsingar til að hafa uppá konunni og áreita hana. Það má líta á birtingu heimilisfangsins sem hverja aðra árás á konuna, að minnsta kosti á friðhelgi heimilis hennar. Hver sá sem þykist ætla að sanna sakleysi sitt og illan hug barnsmóður sinnar gerir það ekki með því að birta þessar upplýsingar opinberlega.

Þetta er þó ekki allt. Í bréfi barnaverndarnefndar kemur fullt nafn dótturinnar fram, og mannhelvítið lætur vera að hylja nafn dóttur sinnar í bréfinu. Það hefði verið hægur vandinn að eyða því út, rétt eins og heimilisfangi þeirra mæðgna, en nú verður þetta plagg með nafni barnsins um aldur og ævi á netinu. Það er hrikalegt af föðurnum að draga nafn dóttur sinnar inní þessi voðalegu mál, og ekki ber það honum fagurt vitni sem ábyrgs föður, hafi hann ætlað í mannjöfnuð við barnsmóðurina um hvort þeirra væri verra foreldri.

Og hvað er blaðamaður Vísis að hugsa, að birta þetta bréf óbreytt og með öllum þessum upplýsingum. Skammastu þín!


Efnisorð: , , ,