miðvikudagur, júní 14, 2017

Vopnuð lögregla innanum almenning; eigum við bara að sætta okkur við það og venjast því?

Það er sérkennilegt að stofna þjóðaröryggisráð — en hafa það svo ekki með í ráðum þegar ákveðið er að hafa vopnaða lögreglu á fjöldasamkomum. Það er óþolandi ef mannfæð og fjárskortur hjá lögreglunni hefur orðið til þess að senda á færri lögreglumenn á fjöldaviðburði en hafa þá vopnaða í stað þess að senda fjölmennara lið. Það er undarlegt að eftir allt havaríið hér um árið þegar löggan átti að fá norsku byssurnar — þá skuli aftur eiga að vopna lögregluna í kyrrþey — án þess að ræða það á þingi, án þess að setja málið í dóm þjóðarinnar. Hingað til hefur þessi þjóð nefnilega (með undantekningum) verið býsna stolt af því að eiga ekki her og hér sé lögreglan óvopnuð.

Líkurnar á að hér verði framið hryðjuverk eru litlar. Jú, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson skráðu okkur (óspurð) á lista þeirra þjóða sem studdu innrásina í Írak, en við höfum ekki sent vopnað lið til landa fyrir botni Miðjarðarhafs, og hafa því þeir sem styðja íslamska ríkið og fremja hryðjuverk í nafni þess ekki mikið uppá okkur að klaga, að minnsta kosti í samanburði við þau lönd sem sí og æ hafa skipt sér af málum þar um slóðir. Sú sýndarmennska að þykjast þurfa að hafa vopnað lið sprangandi um hér á landi er bara uppfylling blautra drauma Björns Bjarna fyrrverandi dómsmálaráðherra og Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra.

Haraldur Johannessen segir að vegna þess að vopnaðir lögreglumenn hafi áður sést á höfuðborgarsvæðinu sé vopnaburður lögreglu „engin nýlunda, það er engin stefnubreyting hvað það varðar.“ Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur segir aftur á móti að það felist „ákveðin eðlisbreyting í því fyrir íslenskt samfélag, að almenn löggæsla beri sýnileg vopn“. Þarna er ég sammála síðasta ræðumanni, og fleiru sem hann segir í sama viðtali.

En ríkislögreglustjórinn segist hafa fullt vald til að taka upp á eigin spýtur þá ákvörðun að láta sérsveitarmenn ganga vopnaða. Sem skýringu lætur hann hafa þetta eftir sér:
„Við erum með samfélag sem er samsett af miklum fjölda erlendra borgara, bæði þeirra sem starfa hér og dvelja hér, ferðamenn, hælisleitendur og svo framvegis. Þannig að samsetningin hér á hverjum tíma af því fólki sem er í landinu hefur breyst mjög verulega undanfarin tíu, fimmtán ár.“ 
Þetta er ömurlegur málflutningur sem elur á útlendingahatri.

Hér ætti þjóðaröryggisráð að taka fram fyrir hendur Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra. Eða Sigríður Andersen, varla leiðist henni að beita valdi sínu á Harald, því ekki leiddist henni valdníðslan þegar hún hlutaðist til um skipan dómara í Landsrétt. Nema henni finnist líka í lagi að það verði arfleifð hennar að í hennar tíð hafi Íslendingar orðið að sætta sig við að umgangast vopnaða lögreglu þegar eitthvað er um að vera í miðbæ Reykjavíkur.

Annars vil ég taka undir það sem Gísli Garðars varaþingmaður VG sagði um þetta mál, hann færði fram mjög góð rök gegn þessari stefnubreytingu á íslensku þjóðlífi.
„Í umræðunni um vopnaburð lögreglu er auðvelt að tala um tilfinningar. Sumum finnst vopnuð lögregla vekja hjá þeim öryggiskennd. Og það er í sjálfu sér skiljanlegt. Sjálfur fell ég hins vegar í hinn flokkinn. Ég hef líklega sjaldan upplifað mig óöruggari en í kringum tyrknesku lögregluna og mér fannst mjög óþægilegt að sjá vígbúnaðinn sums staðar á götum Rómar þegar ég var þar í fyrrasumar. En í dag langar mig ekki að tala um tilfinningar. Mig langar að tala um staðreyndir. Og þetta eru staðreyndirnar:

Á Íslandi hefur lögreglan skotið einn mann til bana. Ever. Enginn hefur látið lífið í hryðjuverkaárás. Nokkurn tímann.

Frá 2000 til 2015 dóu 90 manns í Bretlandi af völdum hryðjuverkaárása. Það eru um 6 manns á ári. Það er aðeins einum fleiri en dóu af völdum bresku lögreglunnar í fyrra.

Meðalfjöldi látinna á ári í hryðjuverkaárásum í Frakklandi frá 2010 til 2014 var 2 á ári. Árið 2012 dóu 4 af völdum lögreglu þarlendis.

Og í fyrra dóu 1092 Bandaríkjamenn í skotárásum lögreglu. Meðalfjöldi látinna í hryðjuverkaárásum erlendra aðila í sama landi frá 1975 til 2015 á ári var 74. Og það er með 11. september 2001. Síðan þá hafa hryðjuverkamenn, erlendir og innlendir, drepið um 6 manns á ári. 0.5% af fjölda þeirra sem dóu af völdum vopnaðrar lögreglu.

Nú er ég ef til vill bara einfeldningur, en ég held að ótrúlegur árangur okkar í að lögreglan drepi ekki fólk gæti mögulega ráðist af því að lögreglan gengur allajafna ekki um með morðvopn. Og ég er ekki til í að fórna þeim árangri til að koma í veg fyrir eitthvað sem hefur aldrei komið fyrir hérlendis og reynsla annarra landa sýnir að er síst meiri ógn en vopnuð löggæsla. Mér finnst að við eigum að byggja samfélagið okkar á staðreyndum, ekki tilfinningum.

Ekki síst af því að mér finnst ekkert skárra að lögreglumaður skjóti mig til bana en hryðjuverkamaður.“

___
[Viðbót] Það eru ekki bara afturhaldskommatittir sem agnúast útí vopnaburð lögreglu; Þórlindur Kjartansson skrifar hreint ágætan pistil gegn þessu fyrirkomulagi.

Efnisorð: