sunnudagur, júní 11, 2017

Skrafað og skrifað um sjóferðir og sjósókn

Sjómannadagur og í tilefni hans var viðtal í Fréttablaðinu sem Gunnþóra Gunnarsdóttir tók við tvær fyrrverandi þernur á hinum sögufræga Gullfossi, þær Rannveigu Ásgeirsdóttur og Svövu Gestsdóttur.

„Hvernig var vinnudagurinn hjá þernum?

Rannveig: Vinnudagurinn var langur. Við byrjuðum klukkan sjö og unnum til átta annað kvöldið og hálf tólf hitt en fengum tveggja tíma frí að deginum, milli tvö og fjögur eða fjögur til sex. Þær sem fengu fríið klukkan tvö tóku kvöldvaktina. Við vorum yfirleitt sjö í einu um borð og höfðum nóg að gera.

Svava: Við vöknuðum tímanlega því við þurftum að laga okkur til og greiða okkur svo við litum vel út. Það var krafa. Byrjuðum á að fara yfir gangana og taka til á bakka handa þeim sem vildu fá kaffið í klefana. Það varð að vera tilbúið klukkan átta, sumir voru duglegir á bjöllunum.

Rannveig: Ég hugsa að slík afgreiðsla væri ekki leyfð í dag. Það var í raun stórhættulegt að vera í alls konar sjólagi með sjóðheitt kaffi og te í þungum silfurkönnum á bökkum og bera þá frá kjallara upp á efsta dekk, svipað og að hlaupa upp á fjórðu hæð í blokk með hvern og einn bakka.

Svava: Já, þegar skipið hjó gat þrýstingurinn verið mikill ýmist upp eða niður. Það þurfti krafta og lagni til að missa ekki allt saman. En veitingarnar voru fínar. Það var bakað um borð, alltaf nýtt bakkelsi með kaffinu.“

Hér á eftir fer svo samtal farþega með öðru skipi, strandferðaskipinu Esju. Nema hvað samtal þetta er úr skáldsögunni Í sama klefa eftir Jakobínu Sigurðardóttur sem kom út 1981.

„Ég spurði: — Ert þú aldrei sjóveik?
— Nei, sjóveik er ég ekki, en ég er stundum sjóhrædd, ekki á vona skipi, en þessum litlu bátum hérna, sem maður hefur stundum flækzt með í kaupstað. Ekki það, mínar kaupstaðarferðir hafa ekki verið margar. Ég var aldrei hrædd á árabátnum, en trillunni og þessum mótorbátum, það er einhvernveginn allt öðruvísi. Nema maður getur hallað sér niðri í lúkar á mótorbátunum“ (bls. 30).

„Umhverfis Esjuna var haf og himinn, land hvergi sjáanlegt þessa stundina. Enginn á ferli, nema þá áhöfnin við sín störf, ósýnileg, dularfull, en vitneskjan um tilvist hennar áreiðanlegri til öryggis en handleiðsla guðs. Örlítið, svalandi kul í mildu vorloftinu“ (bls. 92-93).


Og þá nokkur bókarbrot um sjósókn úr Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson sem kom út 2007.

„Þeir vinna í þögn.

Bera það sem þarf að bera ofan í bátinn, seglbúnað, línurnar með beitunni, skinnstakkana, of milt veður til að klæðast þeim strax, skinnbuxurnar ná þeim undir hendur, ullin í peysunni svellþæfð og framundan stífur róður eða fjóra tíma. Hver maður með sitt ákveðna hlutverk í nóttinni, bara ef tilveran væri alltaf svona blátt áfram og auðlesanleg, bara ef við kæmumst undan óvissunni sem nær út yfir gröf og dauða“ (bls. 33).

„Menn Guðmundar eru fljótir að koma sér út. Velta bátnum sem er næstum heilum metra lengri en bátur Péturs, ferma hann, gleyma ekki að signa hvert handtak. Þeir hafa róið saman í tuttugustu ár, byrjuðu ungir á hákarlaveiðum á þeim árum þegar engin lög náðu yfir sjósjókn og þeir gátu farið á sjóinn þegar þeim hentaði, oft í svartasta skammdeginu, þegar myrkrið var svo þétt að það mátti bregða hnífa og rissa fangamark sitt í það, og sú nótt bar þá nafn þitt inn í morguninn“ (bls. 49-50).

„Þeir hafa róið lengi og það er farið að birta. Þeir hafa róið út úr nóttinni og inn í brothættan morgun. Búnir að losa sig við sjóhattana. Misstu smám saman sjónar á hinum bátunum sem dreifðust um víðáttur Djúpsins, sjórinn öldóttur og þeir róa dýpra en hinir og stefna á einhver djúpmið sem Pétur þekkir en hefur ekki sótt á í nokkur ár, þeir treysta honum, hann veit meira en þeir til samans þegar þorskur er annars vegar, hann hugsar eins og þorskur, sagði Bárður einu sinni og vont að vita hvort það var lof eða last, getur verið erfitt að reikna Bárð út en Pétur ákvað að líta á það sem hrós. Þeir leggjast á árarnar og fjarlægast landið. Það getur verið sárt að fjarlægjast land, það er eins og maður rói í átt að einsemdinni. Strákurinn horfir á fjöllin minnka, þau virðast sökkva í hafið. Fjöllin ógna okkur þegar við erum í landi, safna í sér illviðrum, drepa manneskjur með grjótkasti, þurrka út bæi með snjóflóðum og aurskriðum, en fjöllin eru líka verndandi lófi, þau fóstra okkur og halda utanum bátana sem róa inni á fjörðunum, en ekkert verndar sjómenn sem róa langt, nema bænin og hugvitið“ (bls. 51).

„Báturinn hefst og hnígur. Sjóveikin sem hefur lítið plagað strákinn í ferðinni, og hann blessað kínalífselixírinn margoft í huganum, snýr nú aftur, þó væg ennþá, flökurleiki sem hann ætti að geta unnið af sér þegar þeir byrja að draga lóðirnar, ef þeir byrja þá einhverntíma, ef tíminn hefur ekki yfirgefið þá, skilið þá eftir á Íshafinu. Pétur hristir sig, hann hristir sig eins og dýr, rífur sig undan doðanum, uppgjöfinni, óttanum, og segir: róum að duflinu“ (bls. 68).

Til hamingju með daginn, sjómenn.


Efnisorð: