sunnudagur, maí 21, 2017

Vonlausar aðferðir til að verjast nauðgurum og vonin um að geta varist nauðgurum

Sif Sigmarsdóttir skrifaði í dag um varnarlausar konur og hvað konur gera — eða mega gera — til að reyna að forðast að vera nauðgað. Tilefnið er límmiðar sem stóð eða stendur til að setja á glös á skemmtistöðum og eiga að varna því að nauðgunarlyf séu sett í glasið.

Ég er hjartanlega sammála afstöðu Sifjar enda var ég hálfhissa þegar þessi límmiðahugmynd var skotin í kaf, og sérstaklega þegar höfundur tillögunar var úthrópaður fyrir að koma sök yfir á fórnarlömb nauðgana (með því að ef límmiðinn væri ekki notaður og konu væri nauðgað í lyfjamóki, væri hægt að nudda konunni uppúr því að þetta hefði ekki komið fyrir ef hún hefði bara notað límmiðann, og afhverju hefði hún ekki notað límmiðann...). Það hafa verið búnar til glasamottur, muni ég rétt, sem eiga að geta (sé þeim dýft í glasið eða látið leka úr glasinu á þær, ég veit ekki hvort) ljóstrað upp hvort nauðgunarlyf séu í glasinu. Ég man ekki hvort það varð allt svona brjálað yfir glasamottunum, en ég man að mér fannst þetta ekkert galin hugmynd, ekki frekar en límmiðarnir nú. Mér finnst raunar hver sú aðferð sem konur nota til að verjast lyfjanauðgunum vera þess virði að nota hana. Bjargi hún einhverri konu frá nauðgun þá er það ekkert minna en frábært.

Hinsvegar er það nú svo að flestum konum er nauðgað án þess að byrlað sé fyrir þeim á skemmtistað, þessi byrlunarfaraldur er tiltölulega nýtilkominn í mannkynssögunni. Konum er oftast nauðgað af einhverjum sem þær þekkja, stundum eru þær undir áhrifum áfengis en ekki endilega, stundum hafa þær verið á skemmtistað en það er ekki skilyrði. Eiginmaðurinn (fyrrverandi), kærastinn (fyrrverandi) eða kunningi til margra ára þarf ekkert að lauma neinu í glas til að vera í góðri aðstöðu til að nauðga. Hvorki límmiði né glasamotta getur komið konunum til bjargar í slíkum tilfellum, heldur ekki að ganga með lykil milli fingranna eða að 'vinkonurnar haldi hópinn'. Samt er mikilvægt — og kannski bara fyrir eigin öryggistilfinningu — að halda hópinn, passa glösin og ganga með lykil milli fingranna við vissar aðstæður. Mér finnst furðulegt að gera lítið úr því sem falskri öryggistilfinningu. Öryggistilfinning er sennilega oftast fölsk hvorteðer.

Og nei. Ég er ekki að segja að konur eigi ekki að fara út á kvöldin, eða vera einar á ferð eða neitt slíkt. Það er stór munur að hafa varann á við vissar aðstæður eða læsa sig inni og fara aldrei út á meðal fólks.

En aftur að pistli Sifjar.
„Við erum komin í hring ef við sendum út þau skilaboð að kynferðisofbeldi gegn konum sé einhvern veginn „öðruvísi“ glæpur og reyni konur að verja sig gegn honum með „hefðbundnum“ hætti séu þær að taka á sig einhverja sök. Við erum að stunda þolendaskömmun. Við erum að segja að konur eigi hlutdeild í sektinni vegna þess að þær viðurkenndu að hætta gæti verið á ferðum. Við erum að segja að vilji kona reyna að verja sig þurfi hún að skammast sín. Skömmin er komin á fórnarlambið, umræðan er aftur orðin tabú og við erum komin á byrjunarreit.

Í stað þess að úthrópa þá sem vekja máls á glæp sem þrífst á þögn og hírist í skuggum, væri ekki nær að taka saman höndum og opna umræðuna enn frekar? Þeir sem settu sig upp á móti átaki Þórunnar sögðu að réttara væri að segja nauðgurum að hætta að nauðga en að segja fólki að verja sig gegn nauðgurum. Annað útilokar ekki hitt.“
Einnig sagði Sif frá nýlegu bresku dómsmáli þar sem dómari hlífði krikketleikara (magnað hvað íþróttamenn njóta alltaf velvildar dómskerfisins) við fangelsisvist þrátt fyrir að hafa beitt konu hræðilegu ofbeldi. Tengingin við límmiðafárið er sú að breska dómaranum fannst að konan hefði átt að geta varast ofbeldið.

Við eigum að berjast gegn nauðgunum — meðal annars með því að kenna fólki frá unga aldri að nauðga ekki. Við eigum ekki og aldrei að saka fórnarlömb kynferðisofbeldis um að hafa kallað ofbeldið yfir sig eða ekki gripið til einhverra ráðstafana sem okkur (sem vorum ekki í þessum aðstæðum) finnst að hefði átt að viðhafa. Við eigum að fagna því að til er fólk sem vill finna nýjar leiðir (hversu óskynsamlegar sem okkur finnst þær) til að draga úr nauðgunum.

Að lokum tek ég undir með Sif.

„Eftirfarandi skilaboð mætti til dæmis setja fram á límmiða: Ekki vera nauðgari.“

Efnisorð: , ,