laugardagur, apríl 22, 2017

Iss, þessi ríkisstjórn!

Ríkisstjórnin á voða bágt. Almenningur lýsir frati á hana í skoðanakönnunum, hver höndin er uppá móti annarri í ríkisstjórnarflokkunum, og stjórnarþingmenn hafa ekki bara lýst því yfir að þeir styðji ekki meginstefnumál einstakra ríkisstjórnarflokka (jafnlaunavottunarfrumvarp Viðreisnar) heldur lýsa fjórir af sex nefndarformönnum Sjálfstæðisflokks frati á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, þar af formaður fjárlaganefndar.

Þórður Snær Júlíusson tekur saman nokkur helstu málin sem valda óánægju:
„Sú endurreisn heilbrigðiskerfisins sem var lofað er ekki sýnileg með neinum hætti, neyðarköll berast frá háskólum landsins vegna undirfjármögnunar og megn óánægja er með skort á fjármagni í samgöngumál. Eini maðurinn sem virðist virkilega ánægður með nýframlagða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er Benedikt Jóhannesson, sem lagði hana fram.“
Torfi H. Tulinius skrifaði mjög fínan pistil um það sem hann kallar „ríkisstjórn Bjartrar framtíðar og ríku frændanna“, og sagði þá meðal annars þetta:
„Mikill hagvöxtur sem nú setur svip á þjóðlífið fer því mest í að efla sjóði auðmanna fremur en hlúa að ungu kynslóðinni, öldruðum og öryrkjum um leið og búið er í haginn fyrir framtíðina með menntun, rannsóknum og nýsköpun. Ríka fólkið skapaði ekki þennan auð en hirðir stærstan hluta hans.

Úrelt hagfræði og hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar réttlæta ránið. Svo er talað um aðhald gegn þenslu. Gegn ofhitnun hagkerfisins væri nær að beita skattkerfinu fremur en að skera niður til velferðar-, heilbrigðis- og menntamála.

Fjármálaáætlun ríku frændanna er fyrirætlun um arðrán og misskiptingu. Auðmenn geta vel við unað, því þeir eiga sér trygga framtíð í þjóðarauðnum sem þeir hafa sölsað undir sig; og ef hann bregst, í leynireikningum erlendis.“ 
Það er von að almenningur sé ósáttur. Samgönguáætlun bregst vonum fólks um allt land. Eftir mótmæli í Berufirði verður meira gert fyrir veginn þar (hefði aldrei gerst ef engin hefðu verið mótmælin og fjölmiðlar ekki sýnt frá þeim). Jón Gunnarsson samgönguráðherra segir að verið sé að kanna „hvort hægt sé að fjármagna nokkrar stórar og fjárfrekar framkvæmdir með sérfjármögnun“; einkavæðing vegakerfisins er semsagt á dagskrá hjá Sjálfstæðisflokknum. Þessu fagnar Teitur Björn Einarsson samflokksmaður Jóns og ræðir fjálglega um allskyns einkavæðingarhugmyndir, allt frá uppbyggingu vegakerfis til sölu ÁTVR.

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fær jafnvel enn verri undirtektir utan þings en innan.

Lífeyrissjóður bænda hefur varað við því að lífeyrisréttindi á þriðja þúsund kvenna eru í hættu því Benedikt hyggst fella úr gildi sérlög um sjóðinn.

Hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu fer sérstaklega illa í þá þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem stunda sjálfir ferðaþjónustu (Bjarni Ben virðist þarna vera að reyna að sýna fram á að hann hygli ekki lengur ættingjum sínum sem eiga ferðaþjónustufyrirtæki; fólksflutningar voru allt til 2016 undanþegnir virðisaukaskatti en því breytti Bj.Ben semsagt) en á móti þessari löngu tímabæru skattahækkun á ferðaþjónustuna kemur sú ráðstöfun Bjarna að lækka efra þrep virðisaukaskatts úr 24% í 22,5 %. Öðrum þykir það fáránlegt að ætla að lækka virðisaukaskattinn, sérstaklega núna í „góðærinu“. En skattalækkanir eru auðvitað sérstakt áhugamál þeirra sem yst eru til hægri: þannig hefur Trump boðað miklar og víðtækar skattalækkanir í Bandaríkjunum. Ekki leiðum að líkjast?
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans segir að í ríkisfjármálaáætlun sé gert ráð fyrir of litlu fé til reksturs spítalans og það komi of seint. Við blasi milljarða gat í rekstri Landspítalans og að óbreyttu verði 2018 mjög erfitt ár hjá spítalanum.“
Segir í frétt á RÚV, og einnig að 36 milljarðar af upphæðinni fari til uppbyggingar nýs Landspítala við Hringbraut og að „nær allt það umtalsvert mikla nýja fjármagn sem ætlað sé í heilbrigðisþjónustu á tímabilinu muni koma til á seinni hluta þess“; semsé rétt fyrir kosningar. Snjallt að hugsa svo langt fram í tímann, verst að hvað sjúklingunum á eftir að finnast það löng bið.

Þegar febrúarsamantekt bloggsins var skrifuð virtist sem Óttarr heilbrigðisráðherra Proppé væri annaðhvort ekki búinn að ákveða hvað hann ætlaði að gera varðandi Klíníkina eða ætlaði að synja henni leyfis um „að leyfa Klíníkinni að reka heilbrigðisstofnun á reikning skattborgara með hagnað eigenda að leiðarljósi“. Landlæknir hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að í raun sé Óttarr með aðgerðarleysi sínu að láta allt eftir Klínikinni. Það verður semsé tvöfalt heilbrigðiskerfi í boði: skattgreiðendur borga fyrir bæði kerfin en annað mun bera eigendum sínum arð. Óttarr hafnar viðtölum við fjölmiðlaog fást því engin svör frá honum um ásakanir landlæknis. (Það mætti reyndar ræða meira um stefnu Sjúkratrygginga í máli Klíníkurinnar; það virðist sem hún sé sérstakt óskabarn forstjóra Sjúkratrygginga. Hefur svona stofnun yfirhöfuð rétt á að reka sérstaka stefnu?)

Það er svo auðvitað algjör tilviljun að Klíníkin er í eigu þekktra Sjálfstæðismanna á borð við Ásdísi Höllu — og jafnframt Hrólfs Einarssonar náfrænda Bjarna Ben, en þeir eru nágrannar og bræðrasynir.* Hrólfur á einnig hlut í Kynnisferðum með pabba sínum og pabba Bjarna (en eins og kunnugt er dró Bjarni sig að nafninu til úr öllum viðskiptum og fylgist bara með ættarauðnum vaxa af hliðarlínunni).

„Eignarhald fjölskyldunnar í þeirri klíník í Ármúla sem langar til þess að verða sjúkrahús er líka óheppilegt þegar menn velta fyrir sér tregðu ríkisins til þess að fjármagna almennilega Landspítalann og aðra þætti hins ríkisrekna heilbrigðiskerfis,“ sagði Kári Stefánsson í fyrra bréfi sínu til Benedikts Sveinssonar bróður Hrólfs.

Eflaust finnst einhverjum ósanngjarnt að ræða sífellt Engeyjarættina þegar ríkisstjórnina ber á góma, en með Bjarna Benediktsson þar í forsæti og Benedikt frænda hans í hlutverki fjármálaráðherra (sem Bjarni gegndi áður) þá hreinlega verður að ræða þau tengsl, enda eru náskyldir ættingjar Bjarna sífellt að stunda viðskipti langt innan lögsögu Bjarna. Eftir að hann varð fjármálaráðherra var föðurbróðir hans einn þeirra sem keypti Borgun útúr Landsbankanum. (Það er þó við hæfi úr því verið er að ræða þessa fjölskyldu að minna enn einu sinni á Vafningsmálið þar sem Bjarni, faðir hans og föðurbróðir koma allir við sögu.)

Nú eru þeir — þar á meðal Benedikt Sveinsson faðir forsætisráðherrans — að kaupa ræstingafyrirtækið (Iss!**) sem ræstir heilbrigðisstofnanir og ráðuneyti, en samningurinn um ráðuneytisskúringarnar var gerður í tíð Bjarna í fjármálaráðuneytinu; og eiga því hér viðskipti við hinn frændann í ríkisstjórninni. Á þetta ríkisskúringamál benti Kári Stefánsson í síðara svarbréfi sínu til Benedikts Einarssonar sem eins og bróðir hans Klíníkureigandinn er sonur Einars Sveinssonar sem er að kaupa Iss** með Benedikt bróður sínum, föður Bjarna, og Kári spyr í leiðinni:
„Haldið þið virkilega að þegar Bjarni þurfi að gera hreint fyrir sínum pólitísku dyrum sé aðferðin sú að fjölskyldan kaupi ræstingarfyrirtæki?“
Þórður Snær segir, í pistlinum sem vísað var til hér að ofan, að þótt mörgum Sjálfstæðismönnum þyki greinar Kára Stefánssonar, um viðskiptaumsvif fjölskyldu Bjarna „ekki svaraverðar þá vekja þær verulega athygli og skapa umræðu í samfélaginu. Sú umræða verður ekki stöðvuð með þögninni.“

Það skiptir nefnilega máli að fjölskylda forsætisráðherra er með krumlurnar á kafi í kökukrúsinni. En hitt skiptir ekki síður máli að ríkisstjórnin skuli almennt og yfirleitt ætla að svelta heilbrigðis- og menntastofnanir enn meir en orðið er. Svik flokkanna sem eru í ríkisstjórninni við kjósendur sína eru mikil. Lofað var styrkingu innviða. Látið var í veðri vaka að kröfu ríflega 86 þúsund Íslendinga um að framlög til heilbrigðismála verði 11% af vergri landsframleiðslu (undirskriftarsöfnun Kára Stefáns) yrði mætt en í raun verður hlutur heilbrigðiskerfisins minni og inni í tölunni er uppbygging Landspítalans. Háskólarnir svelta, Háskóli Íslands þarf að hætta við að halda 50 námskeið. Það eru svik við nemendur og skaðar samfélagið þegar fram líða stundir. Auk alls annars sem menntun nýtist einstaklingum og samfélaginu þá þurfum við „vel menntað fólk til að byggja hús og vegi“. Það vantar hjúkrunarheimili fyrir aldraða.

Eftirfarandi er úr pistli eftir Halldór Gunnarsson varaformann Flokks fólksins.
„Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði rétt fyrir kosningar þann 19.10. 2016 í myndbandsupptöku Sjálfstæðisflokksins: „Ég er mjög hreykinn af þeim árangri sem Sjálfsstæðisflokkurinn hefur náð á þessu kjörtímabili. Það sem ég er þó einna stoltastur af, eru mestu kjarabætur fyrir aldraða í áratugi. Við höfum tryggt öldruðum og öryrkjum 300 þúsund króna lágmarksframfærslu, og með frítekjumarkið, óháð því hvaðan tekjurnar koma, þá verður kerfið réttlátara, betra í alla staði og skiljanlegra. Við höfum náð mjög miklum árangri, við viljum gera enn betur fyrir alla Íslendinga. Það verða nefnilega allir að vera með.“

Þessi lágmarksframfærsla finnst hvergi og frítekjumarkið sem áður var 109 þúsund kr. á mánuði var lækkað af sömu ríkisstjórn eftir kosningar, fyrst í lagafrumvarpi í 0 kr og síðan hækkað í 25 þúsund kr. á mánuði frá og með 1. janúar sl.!“
Stjórn Flokks fólksins vinnur að hópmálsókn á hendur ríkinu vegna brota Tryggingastofnunar á lögum um almannatryggingar.

Það standa í stuttu máli öll spjót á ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Og skyldi engan undra.

___
* [Viðbót, síðar] Kári Stefánsson segir í grein í Fréttablaðinu 9. maí 2017: „Hverjir standa svo að þessari klíník í Ármúlanum? Svar við þeirri spurningu færir okkur aftur að hagsmunaárekstrunum sem ég drap á í byrjun. Yfirlæknir og stærsti eigandi er Hrólfur Einarsson Sveinssonar. Forsætisráðherra og hann eru bræðrasynir. Stjórnarformaður er eiginkona Gunnars Viðar sem er besti vinur Jóns Benediktssonar, bróður forsætisráðherra. Hugmyndasmiður og stofnandi er dugnaðarforkurinn og eldhuginn Ásdís Halla sem ólst upp við fótskör Engeyinganna. Er nema von að samfélagið spyrji hvort þarna sé komin ástæða þess að Bjarna finnist eðlilegt að eigendur einkafyrirtækja á heilbrigðissviði geti tekið út arð og þess að hann fyrst sem fjármálaráðherra og nú sem forsætisráðherra vill ekki fjármagna Landspítalann að þörfum?“

** Árið 2018 fékk ræstingafyrirtækið Iss nýtt nafn og heitir nú Dagar.

Efnisorð: , , , , , , , , , ,