fimmtudagur, apríl 20, 2017

Frosti síðvetrar, Frosti sumarsins og Frosti allra árstíða

Sumardagurinn fyrsti og honum fylgir sú trú að sumarið verði gott ef frýs saman vetur og sumar. Ekki veit ég um frostið en mér sýnist vera sami éljagangurinn og í gær.

Frosti Logason skrifar bakþankapistil í Fréttablað dagsins og hefur sumardaginn fyrsta í fyrirsögn. Hann viðrar þar gamalkunnug viðhorf sín en fyrir þá sem ekki þekkja til þá hefur Frosti um árabil stundað að pönkast á öllum þeim sem honum finnst rétt að líta niður á; ekki síst fólk í hverskonar mannréttindabaráttu og þá sérstaklega feministar. Pistill Frosta er í dag í hefðbundnum stíl þar sem hann talar niðrandi fólk sem berjst í ræðu og riti fyrir réttindum annarra. Þessi setning var sérstaklega áhugaverð: „Fólk hneykslast fyrir hönd annarra og talar um réttindi hinna jaðarsettu.“

Fyrir mánuði skrifaði Frosti nefnilega til tilbreytingar ágæta hugvekju um framkomu í garð fólks með Downs heilkenni. Vinur hans á fjögurra ára gamlan son með Downs og faðirinn hafði í enn eitt skiptið orðið vitni að fordómum samfélagsins.

„Þetta kvöld þurfti hann í enn eitt skiptið að heyra, í sömu vikunni, orðin mongó og mongólíti þegar starfsmenn veitingastaðarins voru að fíflast sín á milli hinum megin við afgreiðsluborðið. ... En ég veit að fordómar okkar hinna gera þeim ekki auðvelt fyrir. Hugsum áður en við tölum.“ 
Þegar ég las þessa hugvekju Frosta fannst mér ég sjá glitta í nýjan mann. Mann sem gerði sér grein fyrir að fordómar bitna á fólki, og að fólk sem berst gegn fordómum og niðrandi orðalagi hafi rétt fyrir sér. Hugsanlega sæi hann það sem samfélagslega ábyrgð sína að skrúfa niður fordómafullt orðalag sitt (Frosti er frjálshyggjumaður og þeir trúa ekki að til sé samfélag, svo sú von var veik). Ég bjóst jafnvel við að í kjölfarið birtust fleiri pistlar þar sem Frosti lýsti viðhorfsbreytingu sinni. En nei.

Því í dag heldur hann áfram eins og hann hafi aldrei skrifað pistil um að hann hafi ekki gert sér grein fyrir sárindum sem fylgja því að tala niðrandi um aðra, og sagt ábyrgðarfullur: „Hugsum áður en við tölum“. Í dag segir hann:
„Í hverri viku springur réttlætiskór upp í heilagri reiði á samskiptamiðlum. Fólk hneykslast fyrir hönd annarra og talar um réttindi hinna jaðarsettu. Hinir kúguðu gegn kúgaranum ... Málfrelsið er úrelt afsprengi feðraveldis. Við afnemum það fyrir fólk sem við höfum ákveðið að þarfnist sérstakrar verndar.“
Hvaða fólk þarfnast sérstakrar verndar, Frosti? Finnst þér sú vernd eigi bara að ná yfir vin þinn og son hans, enga aðra? Eða eru hinir jaðarsettu bara 'hinir'?

___
* [Viðbót, síðar] Tengli á pistil Frosta var bætt við eftirá. Blogghöfundur mun reyna að stilla sig um að tengja á allt það sem frá Frosta hefur komið í þessa veruna. Þessi hrútskýringapistill hans er þó eftirtektarverður fyrir það hve mjög honum svipar til skrifa Óttars Guðmundssonar geðlæknis.

Efnisorð: ,