laugardagur, apríl 15, 2017

Hefðu betur varað við Þröstum

Ekki er ég hissa á að fjaðrafok verði yfir því að Þrestir hafi verið sýndir í Ríkissjónvarpinu án þess að gefa neina viðvörun um að myndin innihaldi atriði sem ekki eru við hæfi barna. Reyndar finnst mér að hún hefði átt að vera bönnuð innan sextán og fá rauða merkingu. Eftir að hafa séð myndina í bíó á sínum tíma skrifaði ég einmitt um að það hefði algjörlega vantað að fólk væri varað við þessari mynd. Og var ég þó eingöngu að tala um fullorðna áhorfendur.

En sínum augum lítur hver á silfrið. Í athugasemdahala við frétt Vísis um klúður Ríkissjónvarpsins tjáðu sig m.a. foreldrar barna sem sáu myndina.
Foreldri A:
„Ég horfi lítið á sjónvarp en skyldi 11 ára barn eftir í stofunni að horfa á myndina, enda hvorki gul né rauð merking. Þegar ég kom úr geymslunni hélt stúlkan fýrir augun enda ljótt nauðgunaratriði í gangi. Ég slökkti auðvitað á sjónvarpinu strax þótt það væri of seint. Framvegis treysti ég ekki dagskrármerkingum RUV.“
Foreldri B:
„Ég er alveg miður mín að hafa treyst RUV og leyft börnunum mínum að horfa á Þresti þar sem þau sáu hópnauðgun og misnotkun, yngsta barnið 11 ára og leið mjög illa eftir myndina. Ég hefði viljað fá viðvörun. Mér er ekki skemmt.“
Meðan foreldrar voru miður sín hæddust nokkrir karlar að uppnáminu – svo vel maríneraðir í nauðgunarmenningu að þeir litu á nauðgunaratriðið sem hverja aðra kynlífs- eða nektarsenu.
Hallgeir Ellýjarson
„Ó nei nakið fólk í kynlífsstellingum.“

Jón Már
„Þetta eru frekar dramatísk viðbrögð. Þetta er mjög falleg mynd sem á erindi við alla sem eru vakandi á þessum tíma. Umrætt atriði gerist í lok myndar sem er þá væntanlega um kl 23.“

Víðir Már Hermannsson
„Sé að það er nóg að gera hjá vælubílnum,,,, miklu betra að horfa á sveltandi börn deyja í fréttunum en "LEIKIÐ" nektaratriði í bíomynd...“

Axel Jóhann Hallgrímsson „Þessi manía er farin að minna á USA. Þar má ekki sjást bert brjóst í sjónvarpi eða nakinn líkami. En þessi sami líkami má sjást sundurskotinn eða sundursprengdur. Er lífið ekki dásamlegt.“

Hallgeir Ellýjarson
„Svona án djóks, trúir fólk því virkilegt að nekt geti skaðað börn? Í versta falli fara þau aðeins hjá sér en þetta er ekki eitthvað sem fer að skaða þau.“
Þegar maður sér nauðgunaratriði — þegar maður sér nauðgunaratriði í fyrsta sinn á ævinni og er bara barn að aldri — þá fer maður auðvitað bara aðeins hjá sér. Enginn skaði skeður. Heimsmyndin kannski örlítið hrunin.

En hey, nekt skaðar engan, alveg sama hvert samhengið er. Sú er skoðun karla.

Efnisorð: , ,