laugardagur, apríl 01, 2017

Vikan með vinum Gísla Marteins

Það olli mér miklum vonbrigðum að Vikan með Gísla Marteini var ekki á dagskrá í síðustu viku (útaf einhverjum boltaleik). Ég beið nefnilega spennt eftir að sjá hverjir yrðu gestir þáttarins. Miðað við fyrri þætti átti ég allt eins von á að Nichole Mosty og Pawel Bartoszek myndu mæta.

Í vikunni á undan var nefnilega Illugi Gunnarsson í sófanum hjá Gísla Marteini, þið munið Illuga, þennan sem hrökklaðist úr stjórnmálum eftir að upp komst að meðan hann var ráðherra tók hann leigusalann sinn (sem hafði svo heppilega keypt húsnæðið af Illuga þegar hann var illa staddur fjárhagslega) með sér til Kína til að liðka fyrir viðskiptum hans. Hann sagði auðvitað ekkert af sér en lagði greinilega ekki í að bjóða sig fram aftur. En þarna var hann kominn og fékk ekki eina gagnrýna spurningu heldur fékk að vera léttur og kátur og koma sér í mjúkinn hjá þjóðinni aftur.

Fyrir ekki alllöngu síðan var Ásdís Halla Bragadóttir sparigestur hjá Gísla Marteini, mætt til að kynna bók sem hún gaf út fyrir jólin. Enda þótt Ásdís Halla reki Klíníkina sem er vægast sagt afar umdeildur rekstur sem Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra er látinn sverja af sér í pontu (og er þó enn grunaður um að ætla að hleypa Klíníkur-arðgreiðslufólki að ríkisjötunni) þá var hún þarna komin í köflóttri vinnuskyrtu eins og almúginn að kynna fjölskyldusögubókina sína. (Bókin kom líka alveg óvart út þegar öll spjót voru farin að standa á Ásdísi Höllu en allsekki til að sýna fram á hvað hún væri ein af okkur og ætlaði allsekki að græða á sjúklingum og auka misskiptingu í samfélaginu á kostnað skattgreiðenda.)

Bjarni Benediktsson mætti líka í þáttinn meðan stjórnarmyndunarviðræður stóðu yfir (fékk engar vesenisspurningar), og Svanhildur Hólm aðstoðarkona hans og Logi Bergmann hafa einnig verið gestir þáttarins í sitthvort skiptið. Vera Svanhildar í þættinum bar þess merki að hún væri komin til að milda andrúmsloftið gagnvart Bjarna, og sama átti við þegar eiginmaður hennar mætti, en Logi hafði einmitt haft Bjarna hjá sér í sínum þætti og farið einstaklega mildum höndum um hið viðkvæma Ashley Madison mál.

Vitaskuld hafa ekki allir gestir þáttarins verið einkavinir og samherjar Gísla Marteins í pólitík. Það er samt spurning hvort það er sérstakt markmið þáttarins að vera hvítþvottastöð fyrir betri borgara sem hafa fallið í ónáð hjá almenningi. Því þessi tilhneiging að bjóða þeim sem þurfa á vettvangi að halda til að sýna á sér sparihliðina, á meðan eða eftir að öll spjót hafa staðið á þeim vegna ýmiskonar svindlibrasks og andstyggilegra tilrauna til að frjálshyggjuvæða þjóðfélagið enn meir, er virkilega ósmekkleg.

Þessvegna átti ég allt eins von á því að Ólafur Ólafsson birtist á skjánum í gær, og þyrfti ekki einu sinni að segja bara sorry. En honum eða eiginkonunni staðföstu verður kannski boðið síðar.


Efnisorð: , , ,