miðvikudagur, mars 15, 2017

Að leggja velferð barna lið

Ætlar enginn að hugsa um börnin, er stundum sagt háðslega þegar einhver hefur vogað sér að ræða velferð barna. Það þykir nefnilega í sumum hópum afar hallærislegt að hugsa um annað en eigið skinn, eigin langanir og knýjandi þörf fyrir að vera laus við vesen.

Á blogginu er það hinsvegar fagnaðarefni að lesa ekki einn heldur tvo pistla á sömu opnu Fréttablaðsins þar sem rætt er um velferð barna. Eins og oftast þegar velferð barna ber á góma er jafnframt hjartaskerandi að heyra um aðstæður þeirra, og svo er einnig nú.

Magnús Guðmundsson skrifar leiðara um börn í Sýrlandi og hvetur fólk til að leggja UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, lið. Það er t.d. hægt að gera með því að millifæra upphæð að eigin vali eða senda sms-ið STOPP í númerið 1900 (1.900 kr.).
„Á síðasta ári voru fleiri börn drepin, særð og þvinguð til þess að taka þátt í borgarastríði þar í landi en nokkru sinni áður frá því skráning hófst á slíkum ósköpum árið 2014. Neyð þessara barna og áþján er ólýsanleg. Sorg þessa fólks óbærileg [...]

Þrátt fyrir fjarlægðina má það því heita döpur mannssál sem telur börnin í Sýrlandi ekki koma sér við. Og skömm er þeim sem segja að við skulum fyrst og síðast huga að okkar eigin vandamálum fremur en að leggjast á árar með börnunum í Sýrlandi. Misskipting auðs í ríki velsældar og friðar á ekki að standa í vegi fyrir því að rétta hjálparhönd í slíkri neyð [...]

En hvað getum við þá gert sem hér búum í landi heilags hagvaxtar? Jú, hver sá sem er aflögufær getur lagt UNICEF lið, það er einfalt og hver og einn getur gefið af sinni getu. Ríkisvaldið og fjöldi fyrirtækja sem vel ganga ættu líka að hafa til þess raunverulega getu og gætu látið að sér kveða með rausnarlegum hætti.

Kjörnir fulltrúar okkar allra gætu líka séð sóma sinn í því að taka við mun fleiri stríðshrjáðum flóttamönnum og veitt þeim hér öruggt skjól. Séð til þess að fleiri börn geti gengið í skóla og farið út að leika sér án þess að eiga það á hættu að vera skotin á færi, sprengd í loft upp eða tekin af stríðandi fylkingum til brúks við sjálfsmorðsárásir.“

Margrét Júlía Rafnsdóttir hjá Barnaheillum (Save the Children á Íslandi) skrifar grein um gjaldfrjálsa grunnmenntun. Í 31. grein grunnskólalaga segir að „opinberum aðilum [er] ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír“ sem þýðir að heimilt er að krefja foreldra um greiðslu á námsgögnum.
„Í landi sem hefur lögfest barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem kveðið er á um gjaldfrjálsa grunnmenntun senda flestir skólar árlega út innkaupalista til foreldra.

Í nýútkominni skýrslu Evrópuhóps Barnaheilla kemur fram að sterk tengsl eru á milli efnislegrar fátæktar og skorts á menntun og tækifærum. Því sé menntun og jöfnun tækifæra ein öflugasta leiðin til að uppræta fátækt. Fram kemur að með stuðningi skólakerfisins hafi börn sem búa við fátækt alla burði til að standa sig vel og brjótast úr fátæktinni. Eitt lítið lóð á þær vogarskálar er að gera grunnskólann gjaldfrjálsan í raun.“

Margrét Júlía bendir á að „allt að 11.000 börn eða 14% barna á Íslandi á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun,“ og segir einnig:
„Skólinn getur ekki breytt efnahagslegri stöðu foreldra, en hann getur með starfi sínu og aðgerðum minnkað aðstöðumun barna. Kaup á námsgögnum eru baggi á mörgum barnafjölskyldum. Vafalaust myndu margar þeirra kjósa að nota það fjármagn til annarra hluta, svo sem í tómstundir fyrir börn sín, eða annars sem göfgar líf og eykur samveru og samkennd fjölskyldna.

Barnaheill hafa ítrekað sent áskorun á stjórnvöld um að breyta grunnskólalögum svo óheimilt verði að krefja foreldra um greiðslu á námsgögnum.

Barnaheill stendur fyrir undirskriftasöfnun og „í næstu viku afhendum við nýjum menntamálaráðherra listann og þrýstum á hann og þingheim að breyta lögunum. Stuðlum að samfélagi þar sem öll börn búa við jöfn tækifæri og er ekki mismunað vegna efnahags foreldra.“

Við skulum leggja þessum þörfu málefnum lið.

Efnisorð: ,