miðvikudagur, febrúar 22, 2017

Náttúrulega Óttar

Óttar Guðmundsson geðlæknir hefur gert í því undanfarin ár að rausa um það sem honum finnst vera aumingjavæðing, aumingjaskapur, sjálfsvorkunn og fórnarlambahugsun. „Allir sem eru ekki hressir eru kúkar“ virðist vera hans mottó. Furðulegur starfsvettvangur að vera geðlæknir miðað við skoðanir hans á fólki sem hefur af ýmsum ástæðum átt um sárt að binda. En kannski er hann ekkert að lækna lengur heldur bara skemmta sér við að skrifa níðgreinar undir rós um fyrrverandi sjúklinga sem fóru í taugarnar á honum.

Enda þótt þessi hrelliklámsfávitaummæli hans séu ömurleg, eru þau alveg í stíl við annað sem frá honum kemur. Hann er bara enn einu sinni að níða fólk (konur) fyrir að vera þolendur illvirkja varmenna, fávita og glæpamanna.

Óttar virðist að auki halda að stelpur/konur taki alltaf upp á því hjá sér sjálfar að taka af sér nektarmyndir en ekki fyrir þrábeiðni viðtakanda/kærasta. „Treystirðu mér ekki?“ er setning sem er auðvitað notuð til að veikja varnir stelpunnar sem vill hafa varann á og tregðast við að senda mynd. Og hver á svosem að vita að sæti kærastinn sé á bandi Óttars og finnist það „náttúrulega“ sjálfsagt að dreifa myndinni síðar meir?

Annars er áhugavert að lesa athugasemdahalann við umfjöllun Vísis um Óttarsþvæluna. Þar standa Stefán Birgir Stefáns (sem einnig skrifar sem „Leikmaður les Biblíuna“) og Hildur Guðjónsdóttir sig eins og hetjur við að svara aðdáendum Óttars og viðhorfa hans.


Efnisorð: ,