þriðjudagur, janúar 31, 2017

Janúarmánuður 2017

Það hefur sitthvað fleira gerst en Trump.

1.
Fyrsti veðurfréttatími ársins gagnrýndi innflutning frá Kína. Óvænt útspil og gott framtak hjá Einari Sveinbjörnssyni veðurfræðingi.

2. (nei þetta eru ekki dagsetningar)
Skýrsla um aflandsfélög var loksins afhjúpuð og jafnframt lygar Bjarna Ben um hana. Önnur skýrsla var líka gerð, nú um hvernig til hefði tekist með stærstu leiðréttingu sögunnar. Henni var einnig leynt. Hún var líka óvenjusmá að vöxtum, aðeins 8 blaðsíður. Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans lýsir algjöru frati á skýrsluna en les þó úr henni eftirfarandi niðurstöðu:
„Leiðréttingin er þjóðarskömm. Sú afstaða byggir ekki á ólund, öfund eða almennu stuðleysi. Hún snýst ekkert um vinstri eða hægri, heldur hróplegt óréttlæti.
72,2 milljarðar króna voru teknir úr ríkissjóði og millifærðir til hluta þjóðarinnar – að stærstum hluta þeirra sem áttu eða þénuðu mest – í stað þess að notast í samneysluna. Tvennt gerðist við þetta: ríkir urðu ríkari og aðstæður yngri landsmanna, eignalítilla eða tekjulágra til að koma þaki yfir höfuðið versnuðu til muna. Leiðréttingin var ömurleg millifærsla á fé til að borga fyrir kosningasigur Framsóknarflokksins vorið 2013, með vitund og ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sem kvittaði upp á óréttlætið gegn því að komast í ríkisstjórn, og gegn betri vitund.

Fullyrðingar ábyrgðarmanna um að þetta fé hafi ekki runnið úr ríkissjóði eru rangar. Bankaskattar voru hækkaðir og peningar teknir úr slitabúum og af bönkum inn í ríkissjóð. Þetta eru peningar sem hefðu hvort eð er ratað til ríkissjóðs í ljósi þess að greiðslujöfnuður hefði ekki heimilað erlendum kröfuhöfum að fara með þá úr landi þegar samið var við þá um útgöngu.“
Magnús Guðmundsson er sammála Þórði en segir mjög pent í leiðara
„Engar haldbærar skýringar hafa verið gefnar á þessum töfum [á að birta skýrslurnar um leiðréttinguna og aflandseignir Íslendinga og tap þjóðarinnar af þeim] og því erfitt annað en að horfa til þess að Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, hafi síður viljað fá málin til umfjöllunar í aðdraganda kosninga. Slíkt getur auðvitað ekki talist eðlilegir starfshættir í samfélagi þar sem kjósendur treysta á upplýsingar ákvörðunum sínum til grundvallar.“

3.
Í fyrradag var framið hryðjuverk í Kanada þegar skotárás var gerð í mosku. Sex manns á aldrinum 35 til 70 ára létu lífið og sautján til viðbótar særðust. Hryðjuverkamaðurinn er þjóðernissinnaður aðdáandi Marie Le Pen og Trump. Á sama tíma er Trump handan landamæranna að ærast yfir hryðjuverkaógn sem stafi af múslimum, en allsendis ómúslímskir innfæddir bandarískir karlmenn hafa séð um flestar skotárásir og sprengjuárásir sem drepið hafa og slasað flesta í Bandaríkjunum hingað til (Timothy McVeigh einn og sér drap 168 og særði rúmlega 600 manns). Þeir sem stóðu að baki hryðjuverkaárásinni á Tvíburaturnana árið 2001 voru hreint ekki íslamskir flóttamenn frá Sýrlandi, Íran, Írak, Líbíu, Sómalíu, Súdan eða Jemen, heldur Sádi Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Egyptalandi og Líbanon.

En þetta átti ekki að snúast um Trump. Samt snýst allt um hann þessa dagana, skiljanlega.

4.
Undarleg sending barst til landsins þegar bandarísku dýraverndarsamtökin PETA (e. People for the Ethical Treatment of Animals) sendu 200 pelsa sem ætlaðir voru fátækum. Fyrir það fyrsta er furðulegt að PETA skuli yfirleitt vilja að einhver gangi í loðfeld (ein kenningin er sú að gera eigi pelsa óæskilegri í hugum ríka fólksins, því hver vill vera klæddur eins og fátæklingur?) og svo sú staðreynd að búið var að mála á pelsana (til að ekki væri hægt að selja þá) og þannig hefði verið hægt að sjá á færi að þar væri fátæk manneskja á ferð. Sem væri niðurlægjandi, enda er ekki vaninn að sérmerkja fólk sem er illa statt fjárhagslega. Það er ekki síst truflandi við þessar loðfeldahugmyndir að gyðingar þurftu að ganga með gula stjörnu á sér svo hægt væri að þekkja þá úr. Það endaði á því að örfáir pelsar voru gefnir þeim sem upphaflega áttu að fá þá. Meiri hallærisuppákoman.

5.
Ný ríkisstjórn var mynduð og þessir pistlahöfundar höfðu sitthvað við það að athuga, hver á sinn hátt.

Þórður Snær Júlíusson listar upp verkefni ríkisstjórnarinnar eins og þau koma fyrir í stefnuyfirlýsingu hennar. Skásta fyrirheitið að mínu mati er: „að fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn þurfi að taka upp árlega jafnlaunavottun til að sporna við launamisrétti af völdum kynferðis“.

Agnar Kr. Þorsteinsson er hreint ekki ánægður með þátttöku Bjartrar framtíðar í nýju stjórninni.

Þorvaldur Gylfason skrifar pistil sem heitir „Vitstola stjórnmál “þar sem hann minnir m.a. á að
„Ný ríkisstjórn Íslands er ekki bara skipuð fólki sem hljóp frá skuldum við föllnu bankana í milljarðavís, heldur er hún í þokkabót skipuð ekki færri en þrem eða fjórum ráðherrum af 11 úr röðum Samtaka atvinnulífsins.“

Þess má geta að Torfi H. Tulinius skrifaði um stjórnarmyndunarviðræðurnar flóknu seint í desember og sagði þá einmitt þetta um Viðreisn: „Fréttir herma að stjórnarmyndun hafi siglt í strand vegna þess að ekki var samkomulag um tekjuhlið ríkisfjármála, m.ö.o. um að skattleggja þá efnameiri. Einn af flokkunum sem komu að umræddum viðræðum, Viðreisn, á rætur hjá stóreignafólki og þeim sem starfa fyrir það. Það er því ekki von að hann vilji efla tekjuöflun ríkisins með þessum hætti.“

Illugi Jökulsson skrifaði pistil rétt áður en ríkisstjórnin var mynduð og segist þar vonast til þess að orð Bjarna Benediktssonar um „geðveiki“ verði pólitísk graftskrift hans.

Svo var það hann Páll Magnússon, fyrrverandi fjölmiðlamaður og nýorðinn þingmaður, sem var hrikalega ósáttur við að fá ekki ráðherrastól. Hann hafði reyndar í október 2015 leyft sér að gagnrýna Illuga Gunnarsson sem þá var menntamálaráðherra fyrir spillingu og lygar, og hefði mátt vita að slíkt gerir maður ekki ef maður ætlar sér feit embætti hjá flokknum sem hélt hlífiskildi yfir Illuga. (Ég get því miður ekki vísað í hver rifjaði upp gagnrýni Páls á Illuga og tengdi það við að Páll var svikinn um ráðherrastól, því ég man ekki hver það var.) Svo er bara spurningin hvort Páll verði flokksforystunni óþægur ljár í þúfu í hefndarskyni; þá er óheppilegt fyrir stjórnarflokkana að hafa bara eins manns meirihluta á þingi.

6.
Í dálknum Frá degi til dags í Fréttablaðinu mátti lesa að „meirihluti borgarstjórnar hafi fellt tillögu Mörtu Guðjónsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að í Ráðhúsinu yrði boðið dagsdaglega upp á sama mat og leik- og grunnskólabörnum er boðið … En það er vissulega ekki sannfærandi vitnisburður um umhyggju borgarfulltrúanna fyrir börnum okkar, ef þeir bjóða börnunum mat sem þeir sjálfir geta ekki lagt sér til munns.“ Góður punktur.

7.
Þeirri spurningu var varpað fram í pistli eftir landlækni og læknismenntaðan umsjónarmann líffæraígræðsluteymis Landspítala, hvort franska leiðin um ætlað samþykki til líffæragjafar sé skynsamleg fyrir Íslendinga. Þetta er umhugsunarefni.
Hægt er að skrá vilja sinn til líffæragjafar (hver sem hann er) hér og á Heilsuveru.

8.
Látið var til skarar skríða í Öskjuhlíðinni gegn trjám sem höfðu það til saka unnið að teygja sig of hátt upp í himininn. Allt fyrir flugvöllinn – þennan sem á að fara.
(Fjórir pistlar um Öskjuhlíð hafa áður birst á þessu bloggi: 1, 2, 3, 4.)

9.
Mig rak í rogastans þegar ég las frétt um að gyðingahatur fari vaxandi í Póllandi. Í alvöru? Hvað er að ykkur, Pólverjar? Er engin sögukennsla í skólanum hjá ykkur?

En auðvitað eru Pólverjar ekki einir um skort á sögulegri vitund. Og rasismi þekkir engin landamæri. Þetta eru samt alveg stingandi vondar fréttir.

10.
Í ljósi sögunnar hefði getað verið yfirskrift síðustu efnisgreinar en að þessu sinni er verið að vekja athygli á þætti Veru Illugadóttur með þessu nafni. Efni þáttar sem var fyrst fluttur í nóvember síðastliðnum minnir líka á afstöðu Pólverja, svona í ljósi sögunnar.
„Fyrsta þjóðarmorð tuttugustu aldar var framið á árunum 1904 til 1907 af Þjóðverjum í því sem nú er ríkið Namibía í Suðvestur-Afríku, en var þá þýsk nýlenda. Hirðingjaþjóð nokkurri var þá miskunnarlaust slátrað af þýskum hermönnum, þeir látnir veslast upp í brennheitri eyðimörk eða þrælað til dauða í fangabúðum …

Stór hluti hererósku þjóðarinnar hafi safnast saman á sléttunni — þúsundir stríðsmanna með fjölskyldur sínar, konur, börn og gamalmenni — þar sem þeir stóðu í þeirri trú að Þjóðverjar ætluðu að rétta þeim sáttahönd. 

Þess í stað fengu þeir að kenna á mætti þýska hersins og nýjustu evrópsku hernaðartækni. Eftir mikið mannfall úr röðum Hereróa ráku Þjóðverjar svo þá sem eftir lifðu á flótta út í skraufþurra eyðimörkina sem þekur stóran hluta Namibíu. 

Trotha gaf svo skipun um að eyðileggja skyldi eða eitra alla brunna og vatnsból sem gætu orðið á vegi flóttafólksins. Umhverfis eyðimörkina voru reistir varðturna, og hver sá sem reyndi að flýja vatnslausa auðnina var skotinn. Næstu vikur vesluðust þúsundir flóttamanna upp úr hungri og þorsta. Þeir sem lifðu af dauðagönguna í gegnum eyðimörkina og voru teknir til fanga af Þjóðverjum — og voru af einhverjum ástæðum ekki skotnir til bana um leið — voru svo færðir í fangabúðir.“ 

11.
Árleg umræða um listamannalaun fór að mestu framhjá mér enda fátt nýtt sem kemur fram í þessu margþvælda deilumáli. Þó komst ég að því, eftir að hafa pistil Stefáns Snævarr, að fyrrverandi formaður framkvæmdaráðs Pírata, frjálshyggjukonan Erna Ýr Öldudóttir, viðrar fúslega fávitalegar skoðanir sínar á listamannalaunum í Pressunni. Pistill hennar er skemmtileg lesning — í merkingunni hlægileg.

12.
Matvælastofnun hefur tekið upp ný vinnubrögð. Á kúabúi nokkru er illa farið með dýr og bændurnir hafa fengið þá meðferð sem brúneggjaskúnkarnir hefðu átt að fá. Vörslusvipting, fjölmiðlar látnir vita, neytendur vita um hvaða bæ er að ræða. Fyrirtaks vinnubrögð — en auðvitað ekki hjá bóndunum sem afsaka sig út og suður og finnst þeir ekkert hafa farið illa með dýr. Sömu afstöðu höfðu brúneggjamenn, og lýsir í báðum tilfellum algjöru skeytingarleysi um velferð dýra. MAST er þó greinilega að standa sig betur í þessu máli. Sko til.

13.
Lítt er ég gefin fyrir keppnir en þó hugnast mér vel landsleikur í lestri. Lestrarátakið Allir lesa stendur fyrir frá 27. janúar til 19. febrúar og hér er hægt að skrá sig. Ég verð með í anda.

14.
Veganúar og vegan lífstíll hafa fengið góða kynningu í fjölmiðlum (a.m.k. þeim sem ég les) og hér má tildæmis lesa heilt sérblað, grein í Fréttatímanum (reyndar frá í nóvember) o.fl. Þetta er gott lesefni fyrir þau sem eru forvitin um grænkerafæði. Illugi Jökuls er t.d. að spá í að verða grænkeri seinna.

Á móti kom viðtal í Fréttatímanum við þjóðmenningarbónda sem ræðir ítarlega kosti kjötáts. Spes að birta það í veganúar. En kannski bara jákvætt að hafa mótvægi og fleiri hliðar máls.

15.
Talandi um mataræði. Þorbjörn Þórðarson, af öllum mönnum, skrifar leiðara gegn gosdrykkjaframleiðendum sem sífellt rísa upp á afturfæturna þegar bent er á skaðsemi sykurs. Sko hann!

Síðast en ekki síst:

Nú höfum við loksins komist að því að Meryl Street er ofmetin leikkona.

Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,