fimmtudagur, janúar 26, 2017

Örlög fjölmiðlahatara

Trump er búið að vera uppsigað við fjölmiðla allt frá því í kosningabaráttunni og hefur greinilega ekkert náð að slaka á síðan. Fyrstu dagana í embætti eru bæði hann og hinn nýi upplýsingafulltrúi Hvíta hússins (það er nú meira gerpið) búnir að vera með stæla og hótanir við fjölmiðla.

Forsetum Bandaríkjanna (og líklega ráðamönnum hvar sem er í heiminum) er ekkert alltaf vel við fjölmiðla, ágengar spurningar og afhjúpanir á því sem leynt átti að fara. Hann Obama minn lagði reyndar á síðasta blaðamannafundi sínum í Hvíta húsinu áherslu á mikilvægi þess að fjölmiðlar veiti forsetaembættinu aðhald og sagðist vera ánægður með þá, þótt hann hafi ekki alltaf verið sáttur við það sem þeir sögðu um sig. Hann fer enda úr embætti með sóma og sann. Það sama má ekki segja um Nixon, en fáir hafa lagt jafn mikla fæð á fjölmiðla og hann.

Löngu áður en Nixon varð forseti var hann orðinn svarinn óvinur fjölmiðla og það skánaði sannarlega ekki þegar hann varð forseti. Hann lét hlera síma fréttamanna og hótaði að svipta fjölmiðla útsendingarleyfi; sagt er að menn á hans vegum hafi haft í hyggju að myrða dálkahöfund nokkurn. Sömu menn lögðu á ráðin og létu brjótast inn í Watergate. Enda þótt Nixon reyndi að ljúga því framan í bandarísku þjóðina að hann væri ekki skúrkur endaði hann á að segja af sér, en þó ekki fyrr en harðskeyttir blaðamenn Washington Post höfðu flett ofan af honum.

Nýjasti forsætisráðherra Íslands hefur oftlega byrst sig við fjölmiðla (auk þess að neita þeim um að sjá skýrslur og ljúga að þeim) en það er þó ekkert á við þarsíðasta forsætisráðherra. Sjálfan Sigmund Davíð. Hann var búinn að vera einhverjar þrjár vikur í forsætisráðuneytinu þegar hann skrifaði í blöðin og kvartaði undan loftárásum fjölmiðla á sig. Og það var allt niður á við eftir það. Undir lok forsætisráðherratíðar sinnar (og upphafið að endalokunum) var dæmalaust sjónvarpsviðtal þar sem hann bæði laug og rauk út, og hefur æ síðan litið á viðtalið — sem flestum þótti afar upplýsandi — sem skærustu birtingarmynd samsæris gegn sér. Og hefur ekkert bakkað með þá skoðun sína.

Ljósið í myrkrinu er því þetta.

Nixon hataði fjölmiðla og varð að segja af sér.

Sigmundur Davíð hatar fjölmiðla og varð að segja af sér.

Trump hatar fjölmiðla. Hann er skúrkur eins og hinir. Það er bara tímaspursmál hvenær fjölmiðlar afhjúpa hann með einhverjum hætti — og hann mun verða að segja af sér.


Efnisorð: , ,