miðvikudagur, janúar 04, 2017

Barnsleg heimsmynd

Þegar ég var krakki las ég stundum bækur þar sem minnst var á þræla, svona eins og voru til í gamla daga. Stundum var líka minnst á hvíta þrælasölu, en það vissi ég að var bara bull, því allir vissu að þrælar voru svartir. Þeir voru nefnilega frá Afríku en þræluðu í Ameríku þar sem ríkt fólk átti þá. En öfugt við það sem ég hélt þegar ég var krakki þá lagðist þrælahald ekki af og verslun með fólk, og sú iðja að þvinga það til að vinna kauplaust eða svo gott sem (kannski uppá mat og húsnæði) við allra verstu verkin, jafnvel til að selja líkama sinn, blómstrar sem aldrei fyrr.

Ég hef gengið með fleiri barnslegar ranghugmyndir í kollinum, komst ég að nú áðan. Því kolabrennsla tíðkast enn á Íslandi.

Árið 2015 voru notuð 139 þúsund tonn af kolum á Íslandi. Samkvæmt eldsneytisspá Orkustofnunar var áætlað að notkunin ykist í 161 þúsund tonn 2016 og í 181 þúsund tonn 2017. Árið 2018 yrði hún orðin 224 þúsund tonn, sem er rúmlega 60% aukning á fjórum árum.

Það er langt síðan ég hef orðið jafn gapandi hissa.


Efnisorð: , ,