sunnudagur, desember 25, 2016

Ráðleggingar fyrir jólaboð

Hér á eftir fara ráðleggingar um hverjum skal bjóða í jólaboð og hverjum ekki. Því miður kemur þetta kannski of seint fyrir suma, ég biðst velvirðingar á að tímaplanið mitt virðist eitthvað hafa skekkst, en það eru einhver jólaboð eftir hjá mörgum svo það er þá hægt að grípa í taumana áður en þau hefjast.

En ráðleggingarnar eru semsagt úr viðtali við bandarískan kardinála að nafni Raymond Burke. Hann var gerður að kardinála í tíð Benedikts páfa sextánda (sem áður hét Ratzinger) svo seint sem 2010. Hann hefur afturámóti verið í talsverðri uppreisn gegn Frans páfa því hann er ósáttur við linkind páfans í ýmsum efnum þar sem kaþólska kirkjan hefur verið með harða afstöðu hingaðtil. Viðtalið við Burke kardinála birtist árið 2014 á Life Site News, sem státar sig af því að vera mest lesna vefritið sem berst gegn fóstureyðingum (ég fann umfjöllun um viðtalið á þessari síðu, en man afturámóti ekki hver vísaði mér þangað). Life Site News er semsagt síða öfgasinnaðra hægri trúaðra. Og þar má finna þessar líka fínu ráðleggingar kardinálans.

Viðtalsbúturinn byrjar á því að Burke kardináli er spurður að því hvernig hann myndi svara spurningu hjóna sem spurðu kaþólska kirkjuþingið (e. Synod) hvernig þau ættu að bregðast við því að samkynhneigður sonur þeirra ætlaði að koma með kærasta sinn í jólamatarboðið.

Og í framhaldi af því er kardinálinn spurður hvernig kirkjusöfnuðir eigi að sama skapi bregðast við ef opinberlega samkynhneigð pör vilja taka sakramenti eða sækjast eftir leiðtogahlutverki innan safnaðarins.
„Þetta er mjög viðkvæm spurning, og verður enn viðkvæmari vegna árásargirni þeirra sem stunda áróður fyrir samkynhneigð. En maður verður að nálgast málefnið mjög yfirvegað og með fullur af trú, æðruleysi og sanngirni. Ef samkynhneigð sambönd eru sem slík brengluð, sem þau eru — skynsemi okkar og trú kennir það — hvað þýðir það þá fyrir barnabörn okkar ef ættingi okkar sem er í brengluðu sambandi mætir í fjölskylduboð? Við mundum ekki, ef það væri annarskonar alvarlega skaðlegt og brenglað samband, bjóða börnum okkar upp á það, að láta þau beinlínis verða vitni að því. Við ættum heldur ekki að gera það þegar um er að ræða fjölskyldumeðlim, sem þjáist ekki eingöngu af hneigð til eigin kyns heldur hefur kosið að uppfylla hana, að stunda hana, og framkvæma athafnir sem eru alltaf og allstaðar rangar, illar.

Og því eiga fjölskyldur að finna leið til þess að halda nánu sambandi við fjölskyldumeðliminn í svona tilvikum, son eða barnabarn eða hver það er —í því skyni að draga hann út úr þessu brenglaða sambandi.

Við vitum að þessháttar samband gerir einstaklinginn afar óhamingjusaman með tímanum. Og því er mikilvægt að halda eins nánu sambandi við hann og hægt er. En þessu tiltekna sambandsformi ætti ekki að vera þröngvað upp á aðra fjölskyldumeðlimi, og sérstaklega ekki áhrifagjörn börn. Og ég hvet foreldra, afa og ömmur — eða hvern sem er — að vera mjög klók í þessu máli og ekki hneyksla börn sín eða barnabörn.

Því er sífellt komið á framfæri í samfélagi okkar nútildags að hverskonar kynferðissambönd, hvað sem þér hentar — eða þú laðast að því — sé í lagi, sé rétt. En við viljum ekki að börnin okkar komist á þá skoðun, sem við gerum ef svo virðist sem við látum afar syndugar athafnir fjölskyldumeðlims óátaldar.

Þetta er sannarlega uppspretta mikilla þjáninga, en það felur alltaf í sér þjáningu að leitast við að gera hið góða og rétta. Og í svona tilfelli verður það örugglega þannig. En sú þjáning leiðir reyndar til frelsunar á endanum.

Þegar kemur að kirkjusöfnuðum er staðan mjög áþekk því söfnuðurinn er — ég held að það hafi verið heilagur Jóhannes Páll páfi annar, sem sagði eitt sinn, að söfnuðurinn er „fjölskylda sem samanstendur af fjölskyldum“. Þannig að ef meðlimur safnaðarins er opinberlega í samkynhneigðri og þar með syndugri sambúð, já þá ætti presturinn að reyna að halda góðu sambandi við þann aðila — eða þá báða ef þeir eru kaþólikkar — og reyna að hjálpa þeim til að yfirgefa þetta synduga samband og byrja að lifa skírlífi. Presturinn ætti einnig að hvetja þá til að mæta í messu á sunnudögum, biðja og gera aðra hluti við hæfi, í því skyni að reyna að vinna bug á þessari alvarlegu synd.

Þetta fólk sem lifir svona lífi getur vitaskuld ekki verið í neinskonar leiðtogahlutverki í söfnuðinum, því slíkt mundi gefa öðrum sóknarbörnum til kynna að samband þeirra sé sjálfsagt og eðlilegt. Því þegar við erum safnaðarleiðtogar, erum við á vissan hátt að bera því vitni hvernig hegðun samræmist því að vera kaþólikki. Og fólk sem lifir ekki í samræmi við kaþólska trú sína fær ekki leiðtogahlutverk. Það er til dæmis ekki beðið um að lesa úr ritningunni við messu — eða að takast á hendur annað leiðtogahlutverk — fyrr en það hefur leiðrétt stöðu sína og tekið sinnaskiptum, og er þá tilbúið í slíkt leiðtogahlutverk.

Það hneykslar safnaðarmeðlimi okkar annars vegar vegna þess hvað það þýðir fyrir grundvallarþátt í lífi okkar, kynverund okkar, og hvað hún er. Hins vegar er það ekki hollt fyrir þessar tvær manneskjur sem eru í brengluðu sambandi vegna þess að þær fara að halda að kirkjan samþykki á einhvern hátt það sem þær gera.“

Það verður að segja Frans páfa til hróss að hann hefur smám saman svipt Burke kardinála flestum embættum. En svona í alvöru, er ekki eitthvað galið við stofnun sem hampar svona manni upp í sess biskups og síðan kardinála?

Burke er því miður ekki eini kaþólikkinn með þessar skoðanir á hvernig lífi samkynhneigðu fólki lifir, og skoðanir hans eiga einnig hljómgrunn í fjölmörgum öðrum trúarbrögðum.

Vonandi eru þær þó á undanhaldi, og vonandi stimpast Frans páfi gegn þeim (allavega svona skítaáróðri) en eins og árið 2016 hefur verið má svosem vera að barátta forheimskunnar gegn samkynhneigðum eflist á næstu árum.

Efnisorð: , ,