miðvikudagur, desember 21, 2016

Það er ekki sama hvers kyns er

Það eru víst fleiri en ég sem eru hlessa yfir dómnum sem var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur yfir nafngreindum manni sem fékk skilorðsbundinn dóm (merkilegt annars að skilorðsbundinn 2ja mánaða dómur skuli verða til þess að hann er nafngreindur) fyrir að áreita tvo 17 ára unglingspilta kynferðislega í heitum potti í Laugardalslaug. Hann hafði uppi kynferðislegt tal við þá báða og hann togaði í sundbuxur annars piltsins. Þeim pilti voru gerðar 600 þúsund í miskabætur, hinn sem slapp við það en varð þó fyrir kynferðislega talinu voru gerðar 400 þúsund í miskabætur.

Nú hef ég svosem engar sannanir heldur heyrði bara orðróm (og get eingöngu vísað í tvær stuttar frásagnir á netinu), en árum saman vissu allar stelpur sem stunduðu Sundhöllina að þær þyrftu að vara sig á einum kallinum þar. Ég get auðvitað ekki fullyrt að sundlaugarverðir hafi vitað um hann, en það var allavega ekkert gert. Það voru auðvitað aðrir tímar og allt það, en það vill bara svo til að enn í dag geta karlmenn komist upp með að káfa og áreita kvenfólk á öllum aldri án þess að lenda í verulegum vandræðum. Þeir eru allavega ekki dregnir fyrir dómstóla nema í undantekingatilvikum, því kerfið (löggan) stoppar kærur af þegar þær berast. Og ég sæi einhverja stelpu fá 400 þúsund í miskabætur fyrir að þurfa að hlusta á einhvern kall segjast vilja gera við hana kynferðislega hluti. Eða að stelpa fái 600 þúsund fyrir að einhver kippi til fötunum hennar, sama hversu fáklædd hún er. Stelpur sem færu með slíkt til löggunnar væru eflaust gerðar afturrækar. Já svona eins og þær sem reyndu að bera sig upp við lögguna eftir að hafa orðið fyrir áreiti af einhverju ógeði, eins og segir frá í rúmlega ársgamalli frétt.
„Hann eltir þær heim, káfar á þeim, situr fyrir þeim, sleikir sumar á kinnina. Minnst á fjórða tug íslenskra kvenna á öllum aldri hefur þurft að þola síendurtekið kynferðislegt áreiti af hálfu karlmanns á fertugsaldri á undanförnum árum. Áreitið hefur líka átt sér stað á Facebook, í síma og með smáskilaboðum. Í sumum tilfellum hefur það staðið yfir í nokkur ár. “
Á fjórða tug kvenna, og að minnsta kosti tvær tilkynningar borist til lögreglu, og hvað er gert?
„Hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fengust þær upplýsingar að tvær tilkynningar hefðu borist á þessu ári vegna mannsins. Þung sönnunarbyrði gerir kærendum þó erfitt fyrir vilji þeir tilkynna mál af þessu tagi og má af samtali blaðamanns við lögreglu draga þá ályktun að brot mannsins þurfi að vera grófari áður en gripið er í taumana.“
Aha.

En hann er ekki hommi. Og hann er ekki að áreita unglingspilta. Það er auðvitað allt öðru vísi með gangkynhneigða karla sem áreita konur. Það er bara eitthvað sem gerist, því þær eru sætar og hann graður eða hömlulaus vegna þess að það er eitthvað að honum. En vei þeim sem segir eitthvað kynferðislegt í eitt sinn við tvo stráka og kemur við annan þeirra. Það er lögreglumál. Dómsmál. Blaðamál. Skaðabætur. Nafnbirting í blöðum. Því það verður jú að vara stráka við honum, annars gætu fleiri lent í honum.

Ég vil auðvitað ekkert að fleiri lendi í honum, eða neinum öðrum köllum. Eða að strákar séu áreittir í sundi eða hvar sem er. Ekkert frekar en ég vil að stelpur séu áreittar. En það er tryllingslega áberandi munur á því hvernig er tekið á málum eftir því af hvaða kyni brotaþoli er og af hvaða kyni — og þá sérstaklega kynhneigð kynferðisbrotamaðurinn er.

Mættum við þessar af kvenkyninu biðja auðmjúklega um að fá sömu meðferð og strákar fá þegar þeir kæra samkynhneigða karla?

Efnisorð: , , , ,