laugardagur, nóvember 26, 2016

Ágengni fjölmiðla

Um daginn þegar rjúpnaskyttan, sem fannst eftir tveggja nátta leit, gerði athugasemd við ágengni fjölmiðla þegar þyrla Landhelgisgæslunnarlenti með hann við Borgarspítalann þar sem nánustu aðstandendur hans biðu, varð mér hugsað til nýútgefins bæklings sem ber heitið Ef fjölmiðlar hafa samband: Leiðbeiningar fyrir brotaþola og aðstandendur. Bæklingurinn er gefinn út af Rótinni, félagi um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda, og er ætlaður til að styðja fólk í að taka afstöðu til þess hvort og hvenær eigi að tala við fjölmiðla sem vilja fá viðtal um atburði sem hafa haft mikil og erfið áhrif á viðkomandi. Fjölmiðlarnir vilja ekki bíða heldur upplýsa lesendur/áhorfendur sína strax um það sem gerist hverju sinni, svo að manneskjan sem um ræðir er undir nokkrum þrýstingi um að koma í viðtal enda þótt hún sé enn í áfalli. Um þetta hugsaði ég þegar rjúpnaskyttan Friðrik Rúnar Garðarsson gekk spölinn frá þyrlunni að spítalanum og varð fyrir spurningaflóði fréttamanna á milli þess sem hann faðmaði ástvini sína sem voru að heimta hann úr helju.

Sjálfur segir hann þetta:
„Annað sem stendur upp úr sem ekki er jafn jákvætt er aðgangsharka fjölmiðla við og eftir komu mína á Landspítalann. Ég verð að viðurkenna að ég leiddi hugann ekki að því fyrr en eftir á hvað það var í raun óviðeigandi að stilla sér upp við þyrlupallinn og taka nærmyndir af því þegar tilfinningaþrungnir endurfundir áttu sér stað hvort sem ég var að knúsa mömmu mína og systur eða kyssa kærustuna,“ skrifar Friðrik og heldur áfram.

„Í aðstæðunum reyndi ég auðvitað að bera mig vel og svara spurningum þeirra eftir bestu vitund en mér finnast mörk fjölmiðla hljóta að eiga liggja utan við formlega læknismeðferð eftir svona hrakningar og að fjölskyldur megi sameinast á ný án þess að það sé myndefni frétta.“

Nú í morgunsárið les ég svo leiðara Kristínar Þorsteinsdóttur í Fréttablaðinu, undir yfirskriftinni „Munum flugeldana“ og þar er hún að hnýta í Friðrik fyrir að þessa gagnrýni á fjölmiðla.

„Því skaut skökku við þegar rjúpnaskyttan sem heimt var úr helju ásakaði fjölmiðla um ónærgætni. Slíkri ásökun er hvergi hægt að finna stað. Þegar þyrla Gæslunnar lenti og hann steig út á þyrlupallinn við sjúkrahúsið í Reykjavík var sjálfsagt og eðlilegt að taka myndir. Þær sýndu ekkert niðurlægjandi og ekkert ósiðlegt heldur gleðistund, sem deilt var með þjóðinni. Enginn var neyddur í viðtal. Þvert á móti fékk maðurinn sem bjargað var tækifæri til að þakka fyrir sig, sem hann gerði kurteislega. Sýndur var endir sigurgöngu, sem að vísu kostaði tugi milljóna og mikla fyrirhöfn. En enginn sá eftir peningunum. Enginn taldi eftir sér fyrirhöfnina.“

Mér finnst það ansi lélegt af Kristínu að blanda fjáröflun björgunarsveita inn í gagnrýni sína á aðfinnslur Friðriks. Sannarlega má ræða endalaust um samhengið milli þess að fara vanbúinn til fjalla og mannaflsfrekra leita sjálfboðaliða sem selja flugelda til að fjármagna rekstur björgunarsveitanna, en þetta er ekki rétta tilefnið til að ræða það. Kristín er að verja myndatökur af ástvinum að sameinast og að tekin séu viðtöl við mann sem er rétt nýsloppinn úr lífsháska. Hún segir að hann hafi ekki verið neyddur í viðtal, það er eflaust rétt. En fólk í geðshræringu á erfiðara með að verjast beiðni um viðtal, hvað þá þegar þeim gefst „tækifæri til að þakka fyrir sig“, sem Friðriki hefur eflaust verið mjög ofarlega í huga á þessari stundu. Það er þó ekki fyrr en eftirá sem hann hefur náð að átta sig á að þessa stund átti hann að fá að eiga í friði, og að hann hefði kannski heldur viljað eiga samtal við fjölmiðla síðar — eða ekki.

Kristín gagnrýnir Landspítalinn einnig í þessu sambandi.
„Sérkennilegt var, að Landspítalinn skyldi taka undir gagnrýni rjúpnaskyttunnar. Fáir kunna betur að nýta sér fjölmiðla til að vekja athygli á bágri aðstöðu sinni en einmitt Landspítalinn. Fjölmiðlar bregðast við þeirra góða málstað.“
Hér er reyndar ekki ráðist á einstakling heldur stofnun. En jafn ósmekklegt fyrir því. Það að vakin sé athygli á bágri aðstöðu Landspítalans þýðir ekki að þarmeð eigi spítalinn að samþykkja að sjúklingar sínir (eða starfsmenn) fái ekki frið fyrir fjölmiðlum þegar þeir renna í hlað eða lenda á þyrlupallinum. Það má jafnvel líta á þessi orð Kristínar sem hótun um að hér eftir skuli Landspítalinn ekki búast við að 365 miðlar fjalli um vanda spítalans.

Það sem stakk mig þó mest af öllu í leiðara Kristínar var orðalagið „sýndur var endir sigurgöngu“. Það er engin sigurganga að ráfa um villtur á fjöllum. Kannski hugsar hún um gönguna frá þyrlupalli að spítalanum sem sigurgöngu. En fyrir mér minnti þetta orðalag „endir sigurgöngu“ á orðið sem notað er yfir hápunkt klámmynda (afsakið samlíkinguna). Því fyrir fjölmiðlum snýst jú allt um „moneyshot“ í máli eða myndum: að kreista fram eftirminnileg augnablik sem svo standa áhorfendum eða lesendum fyrir hugsskotssjónum — og auka aðsókn að fjölmiðlinum. Útgefandi og aðalritstjóri 365 miðla skrifar þennan leiðara eins og varnarræðu sölustjóra sem þolir ekki gagnrýni á söluaðferðirnar. Það væri henni hollt, og öllum ritstjórum og blaðamönnum, að lesa ofangreindan bækling, og reyna að skilja aðstæður þeirra sem eiga í vök í verjast gegn ásókn fjölmiðla á erfiðum og tilfinningaþrungnum stundum lífs síns.

Efnisorð: