þriðjudagur, nóvember 01, 2016

Hugmyndafræðilegt stolt og stöðugleiki

Undanfarið hafa (hægri) menn verið óðir og uppvægir að fá Vinstrihreyfinguna - grænt framboð í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Leiðari Fréttablaðsins í dag snerist t.a.m. um þá hugmynd, og endaði á orðunum:
„Vera kann að lausnin á vandanum [að mynda ríkisstjórn] felist í samtölum VG og Sjálfstæðisflokksins. Menn þurfa stundum að kyngja hugmyndafræðilegu stolti til að tryggja frið, stöðugleika og sátt í samfélaginu.“

Við þetta er margt að athuga.

1) Sjálfstæðisflokknum þykir það eflaust heppilegt að nýta sér persónulegar vinsældir Katrínar til að vekja traust á sér og ríkisstjórn undir stjórn Bjarna Benediktssonar.

2) Það er ekki átt við hugmyndafræðilegt stolt Sjálfstæðismanna, heldur Vinstri grænna. Sjálfstæðismenn ætla ekki í neitt vinstra-bandalag við einn eða neinn eða gera neitt sem stríðir gegn þeirra hagsmunum/sannfæringu til að koma til móts við VG. Heldur ætlast þeir til að VG „kyngi stoltinu“ eins og það sé það eina sem kemur í veg fyrir að vinstrimenn fari í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.

3) Það er himinn og haf milli hugmyndafræði VG og Sjálfstæðisflokksins. Félagshyggja og frjálshyggja eru tveir andstæðir pólar, sem kristallast í muninum á hvernig á að reka innviði samfélagsins. Annar flokkurinn vill að opinberan rekstur á t.d. mennta- og heilbrigðiskerfinu og að allir eigi jafnan aðgang með litlum tilkostnaði, meðan hinn vill einkavæða og forgangsraða í þágu þeirra efnameiri.

4) Stöðugleikinn. Hinn meinti stöðugleiki — og þá efnahagslegur — sem Sjálfstæðisflokkurinn hrósaði sér af í kosningabaráttunni var stöðug uppsveifla fyrir þá efnameiri og algjör ládeyða fyrir þá lægst launuðu og bótaþega. Með splúnkunýjum launahækkunum sem Kjararáð var að útdeila (og er það rétt að Bjarni hafi látið þegja yfir þessu framyfir kjördag?) er útséð með þennan meinta stöðugleika. Samningar eru lausir fljótlega og það verður ekkert elsku mamma í samningum við ríkisvald sem skammtar þingmönnum og ráðherrum af svo miklu örlæti. Aðrar launþegahreyfingar munu einnig leitast við að taka mið af þessum gríðarlegu launahækkunum sem útvaldir fengu. Og nei, það verður engin sátt í samfélaginu meðan svona tryllingslegt óréttlæti blasir við.

Til að bæta gráu ofan á svart lætur Brynjar Níelsson, sem hlýtur að vera einstaklega mikið fífl, hafa það eftir sér að honum þyki þessi launahækkun eðlileg og „hið besta mál“. Fyrir það fyrsta þá hlýtur hann að hafa vitað að almenningur allur brást mjög reiður við þessum Kjararáðs-hækkunum. Í öðru lagi þá ætti það ekki að hafa farið framhjá honum að yfir standa stjórnarmyndunarviðræður og að Sjálfstæðisflokkurinn á í basli með að fá aðra flokka til að vinna með sér, hvað þá Vinstri græn. Eða eru þetta útpæld ummæli? Er hann viljandi að reyna að fæla burtu alla þá sem standa með hinum almenna launamanni þessa lands? Því varla verður þetta til þess að VG kasti frá sér „hugmyndafræðilega stoltinu“ og komi þjótandi í samstarf með flokki sem hefur Brynjar Níelsson og hans viðhorf innanborðs.

Ekki vil ég líkja Brynjari við eina af mínum uppáhalds persónum í Íslendingasögunum. En mér varð nú samt hugsað til Skarphéðins Njálssonar sem átti allt sitt undir því að sætt tækist í máli hans og bræðra hans, en í hvert sinn sem virtist sem menn væru að snúast á þeirra band sneri Skarphéðinn uppá sig og var með stæla, var orðljótur og meinyrtur og talaði um rassgarnarendann merarinnar. Gerði hann menn vægast sagt afhuga því að leggja málstað hans lið. Nema þeim ríkasta sem líkaði vel að Skarphéðinn hafði niðurlægt höfuðóvin sinn og bauðst til að veita Njálssonum lið.

Brynjar er enginn Skarphéðinn (hann var töffari og harmræn hetja), en hitt er víst, að eingöngu þeir sem meta auðsöfnun umfram annað hafa nokkurn áhuga á að leggja lag sitt við annan eins þingmann eða flokkinn hans.

Það eina sem er gott við blaðrið í bjánanum er að nú hlýtur hann endanlega að hafa gert útaf við allar spekúleringar um að Sjálfstæðisflokkurinn fái Vinstrihreyfinguna - grænt framboð til liðs við sig.

Efnisorð: , , ,