þriðjudagur, október 25, 2016

Smáflokkar III

Í bjartsýni minni ætlaði ég að skrifa ítarlega um alla þá tólf flokka sem bjóða fram til Alþingis, vera dugleg og birta nýjan pistil daglega. Dugnaðurinn er slíkur að ég er búin að ræða Bjarta framtíð, Viðreisn*, Flokk fólksins og Þjóðfylkinguna, og hafa raunar flest fengið mjög litla umfjöllun. Þá eru bara átta eftir. Er ekki annars nægur tími til kosninga?

Þetta var formálinn að því að nú verður farið á hundavaði yfir það helsta sem ég hef að segja um nokkur af framboðunum sem mælast ekki vel í skoðanakönnunum og teljast því til smáframboða.

xH
Húmanistaflokkurinn, sem eitt sinn hét Flokkur mannsins, hefur mér alltaf fundist dáldið krúttlegur. Fyrir þessar kosningar finnst mér hann þó hafa breytt um áherslur (kannski tók ég ekki nógu vel eftir áður) því nú eru efnahagsmál það sem brennur mest á þeim, og eru húmanistar nú meira eins og aðrir flokkar að því leyti. Húmanistaflokkurinn vill vaxtalaust bankakerfi, þjóðpeningakerfi og óskilyrta grunnframfærslu (borgaralaun). Fyrstu tvö atriðin finnst mér vera endurómur úr einhverju sem ég las skömmu eftir hrun, og er kannski alveg málið, en nær ekki að sannfæra mig. Kannski vil ég bara hafa húmanistana krúttlega.

xT
Dögun stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði bjóða fram í sex kjördæmum. Ég nenni eiginlega ekki að kafa ofan í stefnu Dögunar og ræða kosti og galla hennar, því mér þykir svo augljóst að framboð sem býður fram í sex kjördæmum og teflir þar fram fimm körlum í efstu sæti — og þar af Sturlu Jónssyni í efsta sæti (Suðurkjördæmi) er ekkert til að púkka uppá.**

Það er magnað að halda að það sé eftirspurn eftir Sturlu Jónssyni — ítrekaðar kosningar hafa sýnt að það er engin eftirspurn eftir honum. Eflaust er eitthvað varið í eitthvað af því sem Dögun hefur fram að færa, en ekkert af því hefur höfðað til mín hingað til — frekar en kjósenda almennt.***

xR
Fyrir síðustu kosningar gerði ég einnig úttekt á flokkunum og sagði þá um Alþýðufylkinguna að ég gæti tekið undir margt af stefnumálum hennar, en jafnframt að það væri galli að það væru „karlmenn í efstu sætum í báðum þeim kjördæmum (Reykjavík norður og suður) þar sem flokkurinn býður fram.“ Þessi staða hefur gjörbreyst enda býður Alþýðufylkingin nú fram í fimm kjördæmum — og hefur karlmenn efsta á lista í þeim öllum. Jújú, það eru alveg konur á listunum, en þær fá ekki að vera efstar, það er frátekið fyrir karlmenn enda eru þeir aðal. Þetta er kommúnismi upp á gamla mátann, þar sem konur eru mikilvægar en karlmennirnir mikilvægari. Mér líkar það ekki sérlega vel, það verð ég að segja.

En burtséð frá þessari stæku kvenrembu minni kemst ég að sömu niðurstöðu og í apríl 2013, að það sé sóun á atkvæði að kjósa flokka sem mælast eins lágir í skoðanakönnunum og raun ber vitni.


___
* Verð að láta þessa aumu úttekt á Viðreisn duga; hún kemur reyndar við sögu í fleiri pistlum.

** Að auki er Axel Pétur Axelsson FrelsisTV-stjórnandi á framboðslista Dögunar (og þau þurftu ekkert að gúggla hann, það er ekki hægt að þverfóta fyrir honum í athugasemdakerfum fjölmiðla). Enda þótt Axel sé í sjöunda sæti (Reykjavík norður) og kæmist ekki inn á þing jafnvel þótt Dögun fengi gríðarlega góða kosningu, þá hljóta að vera einhver takmörk. Eða eru allir aðrir en þeir kallar sem eru efstir á lista bara þar til að uppfylla formsatriði?

*** Kosningabandalagið sem Píratar stungu uppá virðist ekki vera það eina sem er eða hefur verið í deiglunni. Dögun hefur stungið uppá kosningabandalagi með Sjálfstæðisflokknum og Framsókn, en líklega vilja þau bara fíflast í stjórnarflokkunum úr því þetta er svona vonlaust framboð hjá þeim hvorteðer. Sögur af því að Þjóðfylkingin og Flokkur fólksins hafi ætlað í samstarf eru misjafnar; Inga Sædal þvertekur fyrir það en Þjóðfylkingar-Helgi heldur því fram að flokkarnir hafi ætlað að bjóða saman fram til þess að hirða ríkisstyrkinn en sundra svo aftur samstarfinu eftir að hafa skipt fengnum. Þetta er nú meira ródeóið.

Efnisorð: