þriðjudagur, október 11, 2016

Nú er úti veður vott

Alveg þykist ég viss um að morgundagurinn verður almennur veikindadagur. Veðrið er og verður þvílíkt að eina viturlega planið er að fara ekki útúr húsi en hringja þess í stað með hásum rómi í vinnuna og tilkynna bráðaveikindi. Vera svo undir sæng eða teppi þar til helstu lægðir hafa farið hjá. Þá er nú gott að hafa eitthvað að lesa, og það vill svo heppilega til að ég lúri á nokkrum vel völdum greinum um margvísleg málefni, sem gætu hafa farið framhjá einhverjum.

Leiðari Stundarinnar 22. september var skrifaður að Jóni Trausta Reynissyni og hann fjallaði um „Þjóðapláguna Ísland“, og þá spurningu hvort við eigum skilið að vera dæmd fyrir allt það sem samlandar okkar hafa gert.

Í pistlinum „Stundum er Ísland bara herbergi“ skrifar Hallgrímur Helgason um meðvirkni og hvernig návígið gerir okkur öll að vinum.

Í pistli Hallgríms ber Loga Bergmann á góma, en sá hinn sami er orðinn pistlahöfundur hjá Fréttablaðinu. Sjaldan kinka ég kolli samþykkjandi yfir pistlum Loga (ég gæti ekki verið meira ósammála pistli hans frá 1. október, en 17. september skrifaði hann um ferðamannastrauminn og þá bara var ég svona hæstánægð. Einhverntímann á ég samt kannski eftir að ræða hvað endalaus jákvæðni fer í taugarnar á mér. En til þess þarf ég að endurlesa fullt af jákvæðum greinum og ég veit ekki hvenær eða hvort ég treysti mér til þess.

Meira tengt ferðamönnum. Dagur Eggertsson arkitekt skrifaði þrjár greinar um Arkitektúr og túrisma. Það er fróðleg og umhugsunarverð lesning. Hér eru fyrsti, annar og þriðji hluti.

Hér er því við að bæta að ef fólk sem ekki ætlar í vinnu vegna veðurs er á annaðborð í stuði fyrir margar greinar um svipað efni, þá er óhætt að mæla með nýútgefinni bók eftir Björgvin Guðmundsson, en lesendur bloggsins ættu að kannast við hann. Bókin heitir Bætum lífi við árin: Baráttan fyrir bættum kjörum aldraðra og öryrkja, og er safn greina sem hann hefur um árabil skrifað í blöð um þessi verðugu baráttumál.

En fleiri pistlar. Hin endalaust frábæra Þórdís Elva Þorvaldsdóttir skrifar svo í Stundina um blóð, bros og hælaskó, með sérstakri áherslu á hið síðastnefnda sem dæmi um kúgun kvenna.

Í framhaldi af því er fróðlegt að lesa úttekt Ingibjargar Daggar Kjartansdóttur á reglum sem flugfreyjur hjá Icelandair verða að fylgja, sem eru t.d. þær að vera á hælaskóm. Karlkyns áhafnarmeðlimir þurfa ekki að hlíta sambærilegum reglum sem reyna jafn mikið á fæturna. (Þetta er ein af þeim greinum Stundarinnar sem eru í prentuðu útgáfunni en eru ekki nema að litlu leyti á netinu, a.m.k. ennþá, nema fyrir áskrifendur.)

Svo skrifaði Snæbjörn Ragnarsson skemmtilegan pistil um vanda þann sem fylgir því að deila strætó með öðrum.

Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans leggur fram staðreyndir um misskiptingu gæða á Íslandi. „Samandregið þá liggur fyrir svart á hvítu að það er staðreynd að lítill hópur eignafólks hagnast á samfélagsgerð okkar langt umfram það sem þorri þjóðarinnar gerir. Það er auðvitað matsatriði hvort að þessi staða sé í lagi eða ekki. Sumir eru sannarlega á þeirri skoðun að svona eigi það að vera. Frelsi til að græða gríðarlega fjármuni sé forsenda þess að samfélagið þróist áfram. Aðrir eru ósammála þessari leið og telja að samþjöppun auðs á fárra hendur sé ein helsta samfélagslega meinsemdin sem við stöndum frammi fyrir.“

Hér eru fleiri staðreyndir: við vitum ekki um langtímaáhrif rafretta á heilsu fólks. Um það skrifaði Lára G. Sigurðardóttir læknir undir titlinum „Má bjóða þér eiturefni með jarðarberjabragði?

Að lokum einn pistill frá í sumar, og enn einn eftir karlmann (meira kalladekrið alltaf á þessu bloggi). Bergur Ebbi Benediktsson skrifaði skemmtilegar pælingar um Ólympíuleikana meðan á þeim stóð og ræddi sérstaklega um Michael Phelps. Það er viðeigandi að lesa um sundkappa í þessu vatnsveðri.

Efnisorð: , , , , , , , , ,