mánudagur, október 03, 2016

Fóstureyðingalögum í Póllandi mótmælt á svörtum mánudegi

Konur þyrptust út á götur og torg í Póllandi í dag til að mótmæla lögum sem gera fóstureyðingar ólöglegar og refsiverðar nema líf konunnar sé í hættu. Ef lagafrumvarpið verður samþykkt þá munu læknar sem framkvæma aðgerðina og konur sem gangast undir hana eiga yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsisvist. Gildandi lög kveða á um að allar fóstureyðingar eru ólöglegar nema lífi móðurinnar sé ógnað vegna meðgöngunnar, meðgangan sé orsök nauðgunar eða sifjaspells, eða fóstrið sé alvarlega vanskapað. En nú ætlar pólska þingið semsagt að taka þó þessa möguleika frá konum. Þessu mótmæltu pólskar konur í dag, lögðu niður vinnu að fyrirmynd íslenskra kvenna, og kröfðust þess að sjálfsákvörðunarréttur þeirra væri virtur. Pólskar konur hér á landi lögðu fram sömu kröfu á Austurvelli og nutu stuðnings íslenskra kynsystra sinna. Einnig hefur tæpur helmingur þingmanna (þegar þetta er skrifað)* skrifað undir áskorun til pólska þingsins þar sem þess er farið á leit að endurskoða þessa (ómannúðlegu) lagasetningu.

Í viðtali við Pressuna sagði  Donata H. Bukowska einn skipuleggjandi mótmælanna á Austurvelli:
„Í grófum dráttum þá snýst þessi tillaga um breytingu á núverandi fóstureyðingarlögum að banna fóstureyðingar alveg nema að lífi móðurinnar sé í hættu. En læknar þurfa þá að bíða þangað til að konan sé í lífshættu svo þeir geti gert eitthvað. Enginn getur sagt að það verði ekki of seint. Þetta mun einnig leiða til þess að það verður ekki skoðað hvort að einstaklingur sé undir lögaldri.

Margir átta sig ekki á öllu því sem tillagan stendur fyrir, til dæmis ef kona missir fóstur þá getur hún þurft að sæta lögreglurannsókn. Þá verður rannsakað hvort að hún hafi gert eitthvað sem stefndi lífi fóstursins í hættu og gæti átt yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsisvist.

Lögin hafa ekki einungis áhrif á þá staðreynd að konur verða neyddar til að ganga með t.d. barn nauðgarans síns eða verulega vanskapað fóstur sem hefur litlar sem engar lífslíkur eftir fæðingu. Þetta hefur áhrif á svo margt annað eins og fósturgreiningar og glasafrjóvgun. Það er mikil andstaða í kaþólsku kirkjunni í Póllandi að glasafrjóvganir séu framkvæmdar og ef lögin vera samþykkt þá eru þessar aðgerðir úr sögunni. Þó að það standi ekki með skýrum stöfum þá vitum við að þetta leiðir til þess.“
Auk þess sem það er sjálfsagt mál fyrir okkur að sýna pólskum konum stuðning (hvað þá þegar þær sem hér eru búsettar fara fram á það) þá er alltaf ástæða til að vera á varðbergi gagnvart þeim sem vilja draga úr réttindum kvenna, á hvaða sviði sem er. Réttur kvenna til að ráða sjálfar hvort og hvenær þær eignast börn er sértakur þyrnir í augum kaþólsku kirkjunnar og ýmissa annarra bókstafstrúarmanna. Einnig er það er fylgifiskur þjóðernisstefnu að ætlast til þess að konur sjái um að fjölga þjóð sinni, og þá er nærtækt að grípa til þeirrar lausnar að banna þeim að stjórna barneignum sínum sjálfar. Og svo eru auðvitað karlremburnar (sem sannarlega er einnig að finna hjá trúuðum og þjóðernissinnum) en þeirra ær og kýr er að ráðskast með konur og takmarka réttindi þeirra og völd.

Gegn öllu þessu þarf að berjast, hér heima jafnt og í löndum þar sem réttindi kvenna eru fótum troðin eða í hættu. Okkur kemur það við. Okkar líkami okkar val.


___
* Athygli vekur að þingmenn stjórnarandstöðu skrifa undir í stórum stíl en afar fáir þingmenn stjórnarflokkanna, og þá helst konur. Einu stjórnarflokkakarlarnir sem hafa skrifað undir eru framsóknarþingmaðurinn Karl Garðarsson og sjálfstæðismaðurinn Birgir Ármannsson. Sá síðarnefndi er reyndar sagður framsóknarmaður í fréttum Vísis og Kjarnans (og sjálfsagt víðar) en Birgir er semsagt eini sjálfstæðiskarlinn sem sýnir þessu máli stuðning.

Efnisorð: , , , ,