mánudagur, september 19, 2016

Drepið sér til skemmtunar og tekið í vörina, þvílíkar framfarir

Elsa Blöndal Sigfúsdóttir, María Anna Clausen, Bára Einarsdóttir, Guðrún Hafberg og Harpa Hlín Þórðardóttir drepa dýr sér til skemmtunar. Þeim er hampað í Fréttablaðinu og á Vísi og myndaðar í skotveiðiklæðnaði með byssur í tilefni þess að þær eru á leið til útlanda að skjóta elgi.* Ekki mega þær koma með kjötið heim (ef þá elgur er étinn) þannig að þær ætla eingöngu að fá útrás fyrir ógeðið í sér á kostnað dýranna sem þær drepa.
„Við finnum fyrir miklum áhuga kvenna á að fara í veiðiferðir og margar sem hafa lengi hugsað um að taka skotvopnaleyfið eru að gera það um þessar mundir.“ segir Harpa Hlín Þórðardóttir, ein af fimmmenningunum.
Það var nú aldeilis hressandi. Ég fyllist barasta kvenlegu stolti þegar ég heyri að konur hafi í auknum mæli gaman af að drepa dýr sér til skemmtunar.

Einhverntímann skrifaði ég pistil þar sem ég velti vöngum um hvar mörkin séu milli þess að konur sæki inn á svið karla og þess að þær séu farnar að apa upp ósiðina eftir karlmönnum. Mér varð reyndar hugsað til þess pistils nokkrum dögum áður en ég las um morðvargana. Þá var fréttaflutningur um munntóbaksnotkun nemenda Kvennaskólans, og hafði skólastjórinn haft á orði að hann tryði því varla að stelpur væru farnar að nota munntóbak, en var nú samt svona almennt að biðja nemendur um að neyta ekki tóbaks eða nota rafsígarettur í ferðum eða samkomum á vegum skólans og á skólalóðinni.

Af einhverjum furðulegum ástæðum fannst nemendum hans það ámælisvert að hann tók það fram að hann hefði ekki átt von á því að stelpur væru í hópi ógeðslegra munntóbaksnotenda. Viðhorf skólastjórans virðist bæði hafa vera túlkað sem niðrandi fyrir stelpur og stráka.

Ég hef reyndar enn sloppið við að sjá kvenmann með bólgna efrivör en hef séð allmarga unga stráka – meira segja við afgreiðslu og öðrum þjónustustörfum – og ég sé fátt viðbjóðslegra (og dauðlangar að kvarta við yfirmenn þeirra).

En ef stelpur vilja vera jafn ógeðslegar um kjaftinn og strákarnir þá geta þær svosem gert það. Og vilji konur vera jafn miskunnarlausir morðingjar og karlar þá er ekkert hægt að banna þeim það. En manni getur blöskrað.


___
* Viðbót, síðar: Morðleiðangrinum var gerð skil í Vísi þar sem má sjá þær stilla sér upp með dýrunum sem þeim finnst svo gaman að drepa. Jakob Bjarnar skemmtir sér svo við að spyrja þær hvort „þetta sé hápunktur kvenfrelsisbaráttunnar?“.

Efnisorð: , , ,