miðvikudagur, september 14, 2016

Sjaldan hafa svo fáir kosið um svo stórt mál með svo lítilli andstöðu, og önnur andstyggilegheit

Búvörusamningur, búnaðarsamningur, búvörulög, búnaðarlagasamningur eða hvað þetta nú heitir. Það er allavega orðið að lögum. Og með þessari líka fjöldaþátttökunni!

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa ekki gefið fullnægjandi skýringar á því hversvegna þeir ýmist sátu hjá eða voru fjarverandi þegar búvörusamningarnir voru samþykktir á þingi. Þó sögðu allir þingmenn Bjartrar framtíðar nei. „Sjö sögðu nei en aðrir sátu hjá eða voru ekki viðstaddir þessa gríðarlega mikilvægu og bindandi atkvæðagreiðslu sem mun móta eitt af lykilkerfum íslensks samfélags, hið ríkisstyrkta landbúnaðarkerfi, næsta áratuginn,“ eins og sagði í frétt Stundarinnar. Kjarninn benti líka á fjarveru þingmanna í frétt undir yfirskriftinni 30 prósent þingmanna samþykktu 132 milljarða króna búvörusamninga: „19 þingmenn greiddu atkvæði með þeim en sjö sögðu nei. Alls sátu 16 þingmenn hjá, sjö voru með skráða fjarvist og 14 voru fjarverandi án skýringar.“

Það voru semsagt aðeins 19 þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem kusu með því, og hefði því stjórnarandstöðunni átt að vera í lófa lagið að fella frumvarpið. Verði stjórnarskránni breytt þá má í leiðinni bæta við ákvæði um lágmarksfjölda þingmanna sem taki þátt í atkvæðagreiðslu til að hún teljist gild, hvað þá þegar um er að ræða stórkostlega kostnaðarsama samninga sem eiga að gilda til tíu ára.

Það má þó stjórnarandstaðan eiga, að þau sátu ekki hjá þegar kosið var um tillögu Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um að heimilt verði að fella niður greiðslur til þeirra sem brotið hafa gróflega eða ítrekað gegn ákvæðum laga um velferð dýra. Þessi sögðu já við tillögu Lilju:

Árni Páll Árnason, Ásta Guðrún Helgadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Katrín Jakobsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Róbert Marshall, Steinunn Þóra Árnadóttir, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Össur Skarphéðinsson. (Alls 11 konur og 8 kallar.)

En þessir þingmenn skeyta ekkert um velferð dýra (eins og áður hefur verið fjallað um hér á síðunni) og finnst algjör óþarfi að það bitni neitt á buddunni þótt menn misþyrmi dýrum, og kusu því nei við tillögunni:

Ásmundur Einar Daðason, Ásmundur Friðriksson, Bjarni Benediktsson, Brynjar Níelsson, Einar K. Guðfinnsson, Frosti Sigurjónsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Haraldur Benediktsson, Haraldur Einarsson, Illugi Gunnarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Karl Garðarsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Sigrún Magnúsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Vilhjálmur Bjarnason, Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þórunn Egilsdóttir. (Þetta eru 16 kallar og 4 konur.)

Flest þeirra höfðu áður verið á móti tillögunni (Bjarni Ben bættist við, Frosti, Illugi og Jóhanna María) en nú voru allmörg fjarverandi sem þá kusu með vondum bændum: Elsa Lára, Eygló Harðar, Jón Gunnars, Kristján Þór, Ragnheiður Elín, Sigurður Ingi, Silja Dögg, Valgerður Gunnars, og Vigdís Hauks.*

Breytingartillagan var semsagt felld með aðeins einu atkvæði en fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokks sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Þessir: Birgir Ármannsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigríður Á. Andersen.

Fyrir utan viðleitni Bjartrar framtíðar til að fella búvörusamninginn í heild, og stjórnarandstöðunnar almennt til að reyna að bæta inn skikkanlegu ákvæði sem sneri sérstaklega að velferð dýra, þá er atkvæðagreiðslan um málið í heild algjört hneyksli.

___

* Konur sem komu illa úr prófkjörum virðast hafa sleppt því að mæta í vinnuna þennan dag.

Efnisorð: ,