mánudagur, ágúst 22, 2016

Hundadagakonungurinn

Nú er er hundadögum að ljúka, en svo er tímabilið frá 13. júlí til 23. ágúst kallað. Viðurnefni sitt fékk Jörundur hundadagakonungur vegna þess að árið 1809 ríkti hann meður sóma og sann sem kóngur á landinu bláa frá 25. júní til 22. ágúst.

Jörgen Jörgensen sem við köllum Jörund hefur orðið skáldum uppspretta; nú síðast skrifaði Einar Már Guðmundsson bók um hann. Það er ágæt bók (sem ég hef nýlokið við, enda hárréttur árstími), en ég er samt hrifnari af útvarpsþáttunum Drottning hundadaganna sem Pétur Gunnarsson gerði 1998 og voru endurfluttir í Ríkisútvarpinu og settir í hlaðvarpsform á tvö hundruð ára afmæli byltingarinnar á Íslandi.

Pétur ræðir um Napóleon og Jörund í þáttum sínum en einnig mikið um Guðrúnu Johnsen (fædd Einarsdóttir) heitkonu hans, og af talsverðri samúð um þau bæði. Hún verður eftir á Íslandi þegar Jörundur er sviptur völdum og fluttur með valdi til Englands. Hún fer að leggja lag sitt við Savignac fulltrúa Phelps sápukaupmanns sem hafði sent þá Jörund til að kaupa og selja vörur á Íslandi. Jörundur situr í Fleet fangelsinu í Lundúnum þegar Savignac er einnig stungið þar inn og þeir deila klefa saman. Fljótlega dúkkar Guðrún einnig upp í fangelsinu til að heimsækja Savignac en hann hafði narrað hana til Englands með sér án þess að gera henni grein fyrir að hann væri kvæntur maður. Hún er nú allslaus í ókunnugu landi og á í engin hús að venda.

Utan fangelsisveggjana er Guðrún ásótt af Parke, sem kom til Íslands 1811 til þess að verða „ræðismaður hans Hátignar Bretakonungs á eyjunni Íslandi“ en fór aftur til Englands haustið 1812 . Hann reynir með bolabrögðum að fá Guðrúnu til fylgilags við sig, og ber bæði á hana fé og sendir tvo Dani á hennar fund til að hóta henni.

Jörundur grípur í taumana og biður gamlan Íslandsvin um að aðstoða Guðrúnu við að komast aftur til Íslands. Viðtakandi bréfanna er Sir Joseph Banks sem komið hafði til Íslands 1772, og er lesið úr þeim í síðasta þætti af Drottningu hundadaganna.

Úr bréfi Jörundar í Fleet fangelsinu 24. ágúst 1813:
„Hún heldur til í lítilli kompu í grennd við fangelsið og lifir við nauman kost … Það er af þessum sökum sem ég hef vogað að kynna fyrir yður aðstæður ólánssamrar konu. Þótt henni hafi hingað til tekist að standa vörð um dyggð sína, þá er erfitt að segja hve lengi varnarlaus kona getur forðast þær snörur sem kunna að verða lagðar fyrir hana, og hve ítrasta fátækt getur komið miklu illu til leiðar.“

Fleet fangelsinu, 28. ágúst 1813:
„Ég efa ekki að herra Parke sé mesti heiðursmaður, en karlmönnum hættir stundum til að leyfa sér hluti við konur, sem myndu ekki hvarfla að þeim á öðrum sviðum mannlífsins.“

Mér finnst svo athyglisvert að þetta hafi verið skrifað fyrir tvöhundruð árum. Að Jörundur hafi áttað sig á að vændi er ekki fyrsta, annað eða þriðja val kvenna heldur ill afleiðing af ítrustu fátækt. Hann er einnig búinn að horfast í augu við að karlmenn koma öðruvísi fram við konur en kynbræður sína, að þeir leyfa sér annarskonar og verri hegðun.

Svo er líka merkilegt að horfast í augu við hvað karlmönnum hefur farið lítið fram á þessum tvö hundruð árum síðan Jörundur festi þessi orð á blað.



Efnisorð: , , , ,