fimmtudagur, júlí 21, 2016

Fjárhagslegir hagsmunir rétthærri en almannahagsmunir

Elliði Vignisson bæjarstjóri Heimaeyjar vill gerast þingmaður. Sérlegur stuðningsmaður hans er lögreglustjórinn í plássinu, Páley Borgþórsdóttir. Hún er mjög innmúruð í þjóðhátíðarstemninguna og hefur tekið þá stefnu, ásamt þjóðhátíðarnefnd og bæjarstjóranum að þagga niður alla neikvæða umræðu um þjóðhátíð. Neikvæða umræðan er þessi þarna um árlegu nauðganirnar. Í fyrra voru nauðganir framdar í Eyjum um Verslunarmannahelgina (eins og venjulega) en Páley lagði blátt bann við að frá þeim væri sagt fyrr en allir þjóðhátíðargestir væru farnir heim (þarmeð nauðgararnir) svo auðveldara væri að slíta samhengið milli gróðamyllunnar ‘þjóðhátíð í Eyjum’ og tilkynntra nauðgana. Sama er uppi á teningnum hjá Páleyju í ár.

Tvennt er jákvætt við þöggunartilburði lögreglustjórans í Eyjum. Annarsvegar það að svo virðist sem enginn nema Vestmanneyingar verji ákvörðun hennar um að fresta því annað árið í röð að segja opinberlega frá fjölda kynferðisbrota (sem hugsanlega verða framin) á Þjóðhátíð. Allir aðrir eru sammála um að það sé ótækt að þagga niður svo alvarlegar fréttir: ríkislögreglustjóri (sem tekur reyndar ekki svo djúpt í árinni heldur talar um stílbrot), neyðarmóttaka Landspítalans, Stígamót, yfirlýstir feministar og aðgerðarsinnar; einnig þau sem skrifa athugasemdir við hinar fjölmörgu fréttir um málið, eru á einu máli um að lögreglu beri að veita upplýsingar um kynferðisbrot sem framin eru, rétt eins og aðra ofbeldisglæpi eða fíkniefnabrot. Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri gefur afturámóti endalaust frá sér yfirlýsingar og kemur fram í viðtölum og segist vera misskilin; segir svo aftur og aftur það sama.

Allar skýringar lögreglustjórans vestmanneyska og bæjarstjórans vestmanneyska um að þöggunin sé til að vernda nauðgunarfórnarlömb og rannsóknarhagsmuni hljóma eins og fyrirsláttur – enda er það fyrirsláttur. Það blasir við öllum (sem ekki hefur hagsmuna að gæta í Eyjum eða á þar rætur) að tilgangur þöggunarinnar er sá að vernda orðspor Þjóðhátíðar. Að leyfa engum slæmum fréttum að varpa skugga á þessa miklu gróðalind íþróttafélaganna og þjónustuaðila í Eyjum. Allt annað mál að skjóta einni fréttatilkynningu á fjölmiðlana í október (eins var gert í fyrra), þá er búið að rjúfa tenginguna við „brjálað stuð og stemning og allir skemmta sér vel“ fréttirnar sem fjölmiðlar flytja þægir um verslunarmannahelgina. Slíkar fréttir tryggja tildæmis að fólk kemur ofan af fastalandinu síðustu daga hátíðarinnar með væntingar (og fulla vasa fjár) en væru fréttirnar þær frá að tilkynnt hafi verið um fjölda kynferðisbrota allt frá fyrsta degi, myndi eflaust minnka áhuga einhverra á að gera sér ferð til Eyja og eyða þar peningum. Hver einasta Þjóðhátíð sem er beintengd í hugum fólks við ofbeldi og nauðganir, varpar skugga á allar komandi Þjóðhátíðir. Það er sú tenging sem þjóðhátíðarnefnd er að reyna að rjúfa með dyggum stuðningi kjörinna og ráðinna embættismanna í Eyjum.

Það eru enda miklir peningar í húfi. Páll Scheving Ingvarsson [þáverandi formaður þjóðhátíðarnefndar Vestmannaeyja, sem margsinnis hefur verið skrifað um hér á blogginu] sagði í apríl 2011:
„Það myndu allir vilja eiga Þjóðhátíð. Einhverja hátíð sem er, eins og í fyrra, 750-800 milljóna innspýting í samfélagið, einhverja fimm daga. Gengur undir stórum hluta kostnaðar við íþróttahreyfinguna og það eru allir að reyna að búa þetta til. Bæjarhátíðir hér og þar, það getur enginn einu sinni rukkað. Það er frítt inn á allar bæjarhátíðir og ég veit ekki hvað og hvað. Vestmannaeyjar eru fyrsta frétt á ljósvakamiðlunum í þrjá til fjóra daga. Í öllum miðlum göngum við þessa daga, gríðarleg umfjöllun um samfélagið og vekur gríðarlega athygli á því. Ómetanlegt, algjörlega ómetanlegt.“
150-800 milljóna innspýting í litla samfélagið í Eyjum. Það munar um minna. Og allt gert til að tryggja að gróðalindin haldi áfram að gefa af sér.

Hitt sem er jákvætt (þið munið að ég sagði í upphafi að tvennt væri jákvætt við þöggunartilburði Páleyjar, hið fyrra var að eingöngu Eyjamenn eru sammála henni), er að í dag ákváðu tónlistarmenn sem spila áttu í Eyjum um verslunarmannahelgina að hætta við það, „nema skýr stefnubreyting komi frá bæjaryfirvöldum og lögreglustjóra og það strax“. Þjóðhátíðarnefnd hrekkur eðlilega við, þetta eru hljómsveitir sem trekkja og allteins víst að færri sæki Þjóðhátíð verði ekki dagskráin eins og til stóð, hvað þá ef nánast engin tónlist er spiluð (nema kannski þegar sérlega boðnir og velkomnir skífuþeytar spila). Hörður Orri Grettisson, sem situr í þjóðhátíðarnefnd ÍBV, segir að nefndinni hafi verið stillt upp við vegg með þessum hótunum. Nefndin er strax búin að hafa samband við Stígamót og Neyðarmóttöku Landspítalans og boðið þeim að taka út „forvarnarstarf, gæslu og viðbragðsteymi hátíðarinnar“. Sem þýðir þá að aðferð tónlistarmannanna er að virka, því ein af kröfum þeirra var þessi:
„Okkar krafa er sú að lögregluyfirvöld í Vestmanneyjum temji sér þau vinnubrögð sem Landsspítalinn og Stígamót telji vera æskilegust.“
(Tónlistarmennirnir áttu reyndar eflaust við upplýsingagjöf en ekki það sem Þjóðhátíðarnefnd taldi upp í boði sínu til þessara aðila.)

Það skyldi þó aldrei vera að gamla góða sniðgönguaðferðin — að þessu sinni framkvæmd af sérlegum óvinum Elliða; listamannaliði úr Reykjavík — verði til þess að verndum-orðspor-Þjóðhátíðar-gengið verði að láta í minni pokann og fara að veita upplýsingar um það sem raunverulega gerist í Eyjum um verslunarmannahelgina.

Tveimur spurningum er þó ósvarað.

Önnur varðar tónlistarmennina sem var boðið að spila (og hverjir þeir eru). Plötusnúðurinn DJ Muscleboy, sem ýmist er kallaður Egill Einarsson eða Gillz (nema hvortveggja sé), hefur ekkert látið frá sér heyra um hvort hann ætli eða ætli ekki að mæta til að spila á laugardagskvöldinu. Hefur hann kannski engan áhuga á að ljóstrað sé upp um nauðganir?

Hin snýr að Elliða Vignissyni bæjarstjóra. Páley lögreglustjóri er Sjálfstæðismanneskja eins og Elliði. Hún hefur setið í bæjarstjórn fyrir flokkinn með Elliða og fer fyrir stuðningsmönnum Elliða sem sækist eftir fyrsta sæti á lista Suðurkjördæmis í næstu þingkosningum. Hann á móti styður allt sem hún segir. Bæði verja þau hagsmuni Þjóðhátíðar. Þetta kallast innmúrað og innvígt.

Vilja kjósendur Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi þennan mann á þing að tala máli kjördæmis síns, og hugnast þeim meðreiðarsveinarnir (Páley) og þau viðhorf sem þetta fólk stendur fyrir? Ef já, þá fá viðhorf þöggunar um kynferðisbrot öflugan málsvara á þingi.



Efnisorð: , , , , ,