mánudagur, júlí 11, 2016

Karlmaður lifir af húsverk

Reynir Traustason sem nú er blaðamaður á Stundinni birtir þar pistil um veru sína sem skálavörður í Norðurfirði á Ströndum. Þar mæta honum nýjar áskoranir:
„Skálavörður þarf að gera allt sem snýr að heimilishaldi. Hann þarf að þrífa salerni að innan sem utan. Hann þarf að skúra og ryksuga. Síðast en ekki síst þarf hann að geta þvegið þvott.“
Og þetta er nýtt fyrir Reyni. Fram að þessu hefur hann, sem kallar sig „milda útgáfu af karlrembu“, ætlast til þess að eiginkonan (les: húsþrællinn) sæi um þessa hluti. En nú var hún skilin eftir heima svo skálavörðurinn (sem er um sextugt að ég held) þarf að gera þessa hluti í fyrsta skipti á ævinni. Hann er mjög uppnuminn af þessari nýju lífsreynslu og vill ræða hana við gesti og gangandi sem taka umræðuefninu fálega. Líklega er það þessvegna sem pistillinn er skrifaður, til að leyfa lesendum tækifæri til að samgleðjast og dást að þessari stórkostlegu framtakssemi. Og viti menn, athugasemdakerfið ljómar af ánægju. Mig aftur á móti langaði til að garga og aldrei lesa Stundina aftur.

Finnst karlmönnum í alvöru ennþá alltílagi að ganga um heimili sitt áratugum saman án þess að þrífa eftir sig? Hefur ekkert gerst í þjóðfélaginu - þessu þjóðfélagi sem þeir þykjast jafnvel skoða og greina og vita allt um — sem hefur fengið þá til að líta konur öðrum augum en sem þjónustupíur sérlega ætlaðar til heimilisbrúks? Og finnst þeim í alvöru í frásögur færandi að þeir þrífi — að því gefnu að enginn kvenmaður sé á staðnum til að vinna skítverkin fyrir þá?

Svei helvítis karlrembunum, líka þeim sem finnst karlremba sín mildilegri en hinna sem líka kúga konur.

Djöfull á þetta samfélag langt í land með að jafnrétti sé náð.

Efnisorð: ,