laugardagur, júlí 02, 2016

Úrsögn Breta úr ESB - Brexit

Enda þótt ég ekki sérstaklega hlynnt Evrópusambandinu (hef viljað ‘kíkja í pakkann’ og kjósa um hvaða kostir og gallar felist í því fyrir Ísland að ganga í ESB) þá skelfist ég við þá tilhugsun að það liðist í sundur. Bretar hafa kosið – með naumum meirihluta – að ganga úr ESB, og eru þeir sem kusu öndvert við niðurstöðuna mjög uggandi um framtíðina án frjálsa för vinnuafls, og aðgengi Breta að skólum annarstaðar í álfunni, svo ekki sé nú talað um styrki Evrópusambandsins sem vísinda-, menningar- og menntastofnanir hafa notið góðs af áratugum saman.* Meira segja margir þeirra sem kusu brotthvarf úr ESB sjá nú eftir atkvæði sínu og segja (með réttu) að logið hafi verið að þeim um hvað framtíðin utan ESB bæri í skauti sér. Óljóst er hvort það sé slíkur fjöldi að það skipti máli að kjósa aftur, því stór hluti Breta, sérstaklega þeir sem eldri eru, ómenntaðir, og/eða búa á svæðum sem eiga við efnahagslegan vanda að etja. Það er fólk sem hirðir ekkert um styrki eða tækifæri sem menntastéttir verða af, og hefur þjóðernissinnaða afstöðu til innflytjenda, sem það telur ræna vinnu frá sér og breyta samfélaginu á óæskilegan hátt.

Eftir að ljóst varð að úrsagnarsinnar höfðu betur í þjóðaratkvæðagreiðslunni virðast heiftugustu rasistarnir telja sig vera komna með meirihluta þjóðarinnar að baki sér, og fara nú mikinn. Hatursglæpum hefur fjölgað verulega. Ráðist er á innflytjendur, gerð eru hróp að þeim, og rasísk viðhorf eru viðruð frjálslega á samfélagsmiðlum.

Ekki bætir úr skák að handan Ermarsundsins fögnuðu fulltrúar andstyggilegra fasískra stjórnmálaafla (t.d. Marine Le Pen og Geert Wilders) niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar, og vilja að heimalönd sín gangi líka úr sambandinu. Sundruð álfa þar sem allir loka að sér og hleypa ekki útlendingum inn er draumur þjóðernissinna, en fæstum þeim sem þekkja sögu Evrópu þykir efling þjóðrembu og ótta við útlendinga (eða fólks af öðrum trúarbrögðum) vera góðs viti.

Evrópusambandið varð til á grunni Kola-og stálbandalagsins** sem var viðskiptabandalag milli þjóðanna sem hafði það helst að markmiði sínu að treysta svo viðskiptaböndin milli þeirra, að þau færu aldrei aftur í stríð sín á milli. Og það er hugsjónin bakvið Evrópusambandið. Friður hefur ríkt í Evrópu í 30 ár (fyrir utan Balkanskagastríðið en í því börðust ekki Frakkar, Bretar og Þjóðverjar sín á milli eins og í flestum stríðum álfunnar hingaðtil). Gangi Bretar í rauninni úr ESB og önnur lönd í kjölfarið (hvað þá Frakkland og Þýskaland), má fara að kvíða því verulega að vitleysingar og vont fólk setjist á valdastóla í einhverju landanna sem finni sér ástæðu til að fara í stríð. Eins og Pútín hefur verið að gera sig breiðan gagnvart alþjóðasamfélaginu þarf ekki annað en eitt af þessum löndum ákveði að standa með honum, og svo fer hann að leggja undir sig (fleiri) nágrannalönd – og þá verður allt vitlaust.

Mér finnst ekkert góð hugmynd fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið, sérstaklega ekki eins og sakir standa. Þrátt fyrir það finnst mér hræðileg tilhugsun að ESB leysist upp.

Ég er ekki ein um að hafa áhyggjur af Brexit, þótt það séu kannski helst Evrópusambandssinnar sem viðra þær. Bergur Ebbi skrifaði t.a.m. góðan pistil áður en úrslitin voru ljós, Þorvaldur Gylfason sömuleiðis, Egill Helgason eftir að úrsagnarniðurstaðan var kunngjörð, sama gerði Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, og Þorsteinn Pálsson tjáði sig í Ríkisútvarpinu um Brexit. Ég er sammála öllum svörtustu spám þeirra, og kvíði því mjög hvað tekur við í Evrópu næstu ár og áratugi.

___
* Íslendingar hafa aðgang að mörgum þessara gæða vegna veru sinnar í EFTA og gegnum EES samkomulagið. Bretar eru ekki í EFTA og því ekki aðilar að þeim samningum og yrðu þ.a.l. verr settir en við.
** Á Múrnum var reyndar bent á að „Evrópusambandið varð til úr Kola- og stálbandalagi Evrópu og snýst enn fyrst og fremst um hagsmuni mengandi stórfyrirtækja en ekki umhverfis og náttúru“. Sem er jú ein af góðu ástæðunum fyrir að ganga ekki í ESB.

Efnisorð: