þriðjudagur, júní 21, 2016

Dáleiðandi akstur um landið

Þjóðvegur eitt í beinni hægvarps-útsendingu Ríkissjónvarpsins við tónlist Sigur Rósar var indæl upplifun. Ég ætlaði rétt að kíkja á fyrstu mínúturnar í gærkvöld þegar hringferðin var að hefjast en sat sem dáleidd í klukkustund áður en mér tókst að rífa mig frá sjónvarpinu. Kíkti ekkert fyrr en um hádegi í dag þegar mér lánaðist að sjá Mývatn birtast - og hið skemmtilega atkvik þegar bílstjórinn þurfti að snúa við því hann hafði valið rangan veg og var á leið til Húsavíkur en ekki Akureyrar. Síðdegis sá ég Vatnsdalshóla og vissi að þá hlyti RÚV-trukkurinn að vera á ferð um Húnavatnssýslur. Fékk staðfest sem mér finnst alltaf þegar ég keyri þar í gegn; að þær eru endalausar.

Mér fannst í fyrstu sem óþarflega mikið væri rúntað í Reykjavík á lokasprettinum, því mér fannst að útsendingingunni hefði átt að ljúka þegar þjóðveginum sleppti. En svo var endað út við Gróttu í guðdómlegri kvöldsól, það var frábær endir.

Enda þótt fyrirmyndin komi frá Noregi þá finnst mér sem Ríkissjónvarpið hafi, bæði með Beint frá burði og núna með hringferðinni, algjörlega náð að gera þetta rólyndissjónvarp að sínu.

Efnisorð: