föstudagur, júní 10, 2016

Fjölnota safnaðarheimili frjálslyndrar kirkju

Ætli það sé ekki vika síðan ég rakst á túrista sem vildi vita muninn á Fríkirkjunni og öðrum kirkjum landsins. Ég rifjaði upp klofninginn í þjóðkirkjunni útaf einhverju smáræði fyrir hundrað árum en sagði að þetta væri þrátt fyrir það sama trúin og þarna í stóru kirkjunni uppi á holtinu. Bætti svo við að Fríkirkjan væri reyndar framsækin og frjálslynd, og hefði til að mynda blessað samkynja pör meðan enn var ekki leyfilegt að gefa þau saman í lögformlegt hjónaband (og sleppti alveg þætti Þjóðkirkjunnar sem árum saman kom í veg fyrir slík hjónabönd).

Næst get ég svo hnýtt því aftan við, að frjálslyndi og náungakærleikur væri reyndar á því stigi í Fríkirkjunni að þegar trúfélag múslima var á hrakhólum hafi honum verið boðið að nota safnaðarheimili kirkjunnar til bænahalds.

Það er fín viðbót við sögu Fríkirkjusafnaðarins.

Efnisorð: , ,