sunnudagur, maí 22, 2016

Óbreyttur eftir sjö vikna fjarveru (þetta er ekki hrós)

Eftir sjö vikna frí frá þingstörfum og viðtölum fór óbreytti þingmaðurinn Sigmundur Davíð í tvö viðtöl í dag. Fyrra viðtalið var í Sprengisandi hjá Páli Magnússyni á Bylgjunni, hið síðara við Björn Inga Hrafnsson á Eyjunni sem er dagskrárliður á Stöð 2.

Ég sá síðari hluta viðtalsins á Eyjunni/Stöð 2 sem Björn Ingi tók. Þar var ljóst að Sigmundur var mjög fúll útí Ólaf Ragnar fyrir að blaðra því sem gerst hafði þeim á milli á Bessastöðum (og sannarlega braut Ólafur Ragnar þar gamla hefð um að trúnaður ríki um samtöl forseta og forsætisráðherra) og vandaði honum ekki kveðjurnar. Það var viðeigandi að Björn Ingi tók viðtalið, maður með reynslu af hnífasetti í bakinu. Sigmundur mærði aftur á móti mjög Davíð Oddsson, hinn guðföður ríkisstjórnarinnar, og sagðist skilja það betur nú hvað sá maður hefði „mátt þola“ af illmælgi.*

Það var ekki á Sigmundi að skilja að hann hefði stundað neina naflaskoðun í fríinu. Hann var staffírugur að vanda og vill vera formaður áfram og aftur verða forsætisráðherra. Viðtalið við Sven og Jóhannes var fyrirsát, og aflandsfélagið er bara eign eiginkonu hans og hann hefur gefið upp allar upplýsingar um það. Sigmundur heldur sig semsagt við sömu rullu og fyrir sjövikna fríið: ég er ofsóttur, en vegna þess að ég er svo góður ætla ég að fórna mér fyrir þessa þjóð. Fyrrverandi forsætisráðherrann er semsagt aldeilis sannfærður um erindi sitt við þjóðina og stjórnmálin, og fann það eitt að ferli sínum að hann hefði lent í fyrirsát.

Svo staðfesti hann það sem allir vissu að það verða engar kosningar í haust. Starfandi forsætisráðherra hefur reyndar sagt annað og spurning hvort það er til að róa lýðinn, eða hvort Sigmundur er að spila sólóleik með því að ljóstra þessu upp. Ástæðan fyrir því að ekki er hægt að kjósa, sagði Sigmundur er sú að Framsókn á eftir að koma í gegn öllum „góðu málunum“. SDG útlistaði einnig hvernig fjögurra ára plan ríkisstjórnarinnar hefði litið út, og hann vill greinilega allsekki sleppa fjórða og síðasta partinum; þessum sem á að tryggja Framsókn aftur það atkvæðamagn sem dugi til ríkisstjórnarsamstarfs. Við hin vonum auðvitað að enginn kjósi Framsókn sama hvað í boði er — en sagan sýnir að kjósendur eru auðginntir og fjölgleymnir.

Munnræpa Sigmundar Davíðs í dag sýnir að það er enn brýnna en áður að bola þessari ríkisstjórn frá, og var þó full ástæða fyrir. Það er hneyksli að fjármálaráðherra sé uppað öxlum í spillingu og fjárglæfrastarfssemi. Það er hneyksli að forsætisráðherra sem hrökklast frá völdum birtist aftur í þingsal eins og ekkert sé og láti lepp sinn stjórna ríkisstjórinni. Ekki nóg með að við verðum að viðundrum í augum umheimsins, heldur er óþolandi fyrir okkur sjálf ef við látum þetta yfir okkur ganga.

____
* Lesendur eru beðnir um að taka gæsalappirnar hæfilega alvarlega, svo og endursögnina alla, því ég nenni ekki fyrir mitt litla líf að hlusta aftur á viðtalið til að rifja upp hvað þetta leiða gerpi sagði nákvæmlega.

Efnisorð: , ,