mánudagur, maí 09, 2016

Forsetafíflið spilaði endanlega rassinn úr buxunum

Ólafur Ragnar Grímsson er hættur við að bjóða sig fram (í bili allavega). Enda þótt þetta hafi verið fyrirséð er þetta þvílík óvirðing við þau sem höfðu íhugað að bjóða sig fram eða drógu framboð sitt til baka vegna þess að hann ætlaði fram aftur. Svo ekki sé talað um kjósendur sem hugsanlega greiddu honum atkvæði sitt í síðustu viku utan kjörfundar.

Svo lýgur hann blákalt um ástæðuna, segir það ekki vegna skattaskjólseigna Dorritar og fjölskyldu, fylgishruns eða framboðs Davíðs Oddssonar (fyrir þremur vikum sagðist hann „taka ósigri í kosningunum vel ef þjóðin kysi einhvern annan“ sem hljómaði eins og hann ætlaði í kosningar en ekki hætta áður en til þeirra kæmi), heldur vegna þess að fram séu komnir menn sem hann treysti í embættið. Sem er auðvitað enn meiri óvirðing við það fólk sem boðið hefur sig fram til þessa. Fyrir utan að vera haugalygi.

Sá forseti sem hefur setið lengst allra á Bessastöðum hættir með skömm.