föstudagur, maí 06, 2016

No, no, no, no, no Dorrit býr ekki hér

Árni Páll Árnason sá sitt óvænna viku eftir að hann sagðist áfram vilja vera formaður Samfylkingarinnar og dró til baka framboð sitt í formannskjörið.

Eitthvað segir mér að Ólafur Ragnar Grímsson eigi erfitt með að stíga það skref, þótt ærið tilefni sé til. Hann gæti auðvitað fundið upp eitthvað sem hljómar eins og sennileg skýring fyrir aðdáendur sína, tildæmis borið við heilsubresti; þeir gætu þá reiðst yfir því hvað allir væru búnir að vera vondir við fárveikan manninn sem hafi ætlað að fórna heilsu sinni til að bjarga þjóðinni á óvissutímum.

Ólafur verður allavega eitthvað að gera annað en þegja. Kosningar eru í næsta mánuði og hann hlýtur að vita að hann verður spurður út í no, no, no, no, no svör sín við ekki bara fyrsta tækifæri heldur við öll tækifæri fram til kosninga.

En þrátt fyrir að forsetahjónunum mætti alveg vera ljóst að það þýðir ekki að svara bara sumu af því sem spurt er um (það ætti sagan af forsætisráðherranum sem neyddist til að segja af sér vegna lyga og undanbragða að hafa kennt þeim) sendi Dorrit bréf sem svaraði næstum engum spurningum. Gat Ólafur ekki druslast til að skrifa sjálfur ítarlegar útskýringar eða halda blaðamannafund eins og maður? Hann er kannski svona brenndur eftir CNN viðtalið. Þar eins og nú hefur hann ekkert lært af vondu fordæmi Sigmundar Davíðs, heldur reyndi hann að ljúga þegar hann var spurður um aflandfélagaeign, enda þótt honum hefði mátt vera ljóst að bakvið spurninguna lá fullvissa spyrilsins.

En semsagt. Ástæðan fyrir því að Dorrit og getur verið með annað lögheimili en Ólafur er sú að þau hafa slitið samvistum, á pappírunum hið minnsta. Kallast það ekki skilnaður? Hversu mikil forsetafrú er þá forsetafrúin? Þar sem hún dvelst stærstan hluta ársins, í Bretlandi, hefur hún stöðu sem hér á landi kallast ‘óstaðsettur í hús’, en þannig eru utangarðsmenn merktir í kerfinu hér. Er þó Dorrit varla í kot vísað.

Dorrit notar auðvitað sömu vörn í bréfinu og allir aðrir (þar með talinn pabbi Bjarna Ben): að hún hafi ekki grætt á neinu, hafi gefið upp allt upp til skatts. Eða allavega sagt íslenskum yfirvöldum hvað hún gaf upp til skatts á Bretlandi — þar sem hún þarf litla skatta að borga. Hvað hún svo borgar í skatt í Ísrael, ef þá eitthvað, veit enginn.

Með öllum þessum snúningum á lögheimili má segja að Dorrit endurskilgreini skattaundanskot. Hún skýtur ekki bara undan skatti heldur skýst hún undan skatti.