laugardagur, apríl 30, 2016

Apríl 2016 kemur á öllum söguprófum hér eftir

Er ekki apríl örugglega að verða búinn?

Allt gerðist í apríl. Panamalekinn og afsögn forsætisráðherra, nýr forsætisráðherra í gamalli og úr sér genginni ríkisstjórn, og framboð forsetans til sólkonungs.

Og ýmislegt annað gerðist, meðal annars þetta.

Vafasamir verktakar
Hjónin Hilmar Þór Kristinsson (fv. sjóðsstjóri hjá Kaupþingi) og Rannveig Eir Einarsdóttir eru stórtæk í hótelbyggingabransanum. Þau eru meðal eigenda að hótelinu sem rísa á við Skógafoss (og skyggja á fossinn) og hótelbyggingum sem er verið að reisa milli Laugavegar og Grettisgötu. Það er vegna þeirra byggingaframkvæmda sem silfurreynir lenti í lífshættu (og ekki er enn útséð með hann: „Tréð er allt laskað og þeir eru búnir að mölbrjóta það“), og byggingaverktakarnir hafa staðið í erjum við nágranna. Nú hefur lögregla og skattrannsóknarstjóri gert rassíu hjá Brotafli sem hefur unnið fyrir hjónin á Grettisgötunni, og einnig var gerð rassía hjá öðrum byggingaverktökum, en fyrirtækin Brotafl og Kraftbindingar eru í miðju rannsóknarinnar. Grunur leikur á peningaþvætti, mansali og þrælahaldi. „Lögreglumenn voru slegnir þegar þeir sáu hvar sumir verkamennirnir frá Austur-Evrópu bjuggu en sumstaðar voru aðstæðurnar nöturlegar, raflagnir í ólagi sem og hiti og salernisaðstaða.“* Eigandi Brotafls „hefur verið dæmdur fyrir skattalagabrot og komið við sögu í lögreglumálum, þar á meðal mansalsmáli á Suðurnesjum þar sem starfsmenn hans fengu dóm“. Það er þó gott að vita að hjónin sem réðu Brotafl til verka eru vel meinandi, en í silkihanska-viðtali** sagði Rannveig Eir frá því hvað þau hjónin bæru mikla virðingu fyrir sögunni og vilja þeirra til að hafa borgina aðlaðandi. Hún hefði kannski átt að gúggla betur?

Fleiri verktakar komust í fréttirnar
Meðan öll augu beindust annað í byrjun mánaðarins var friðað hús við Tryggvagötu jafnað við jörðu. Nú hefur Minjastofnun kært verktakann til lögreglu.

Siggi var úti að vaga um móa
Bankabófarnir fengu að yfirgefa Kvíabryggju eftir stutta dvöl til að fara á Vernd. Einn þeirra virðist varla hafa verið kominn suður (að því gefnu að myndband og frétt um þennan atburð hafi gerst eftir að Sigurður Einarsson var kominn á Vernd) þegar hann ákvað að brenna uppí Borgarfjörð til að vitja sumarhúss af sverustu gerð sem hann átti einu sinni en er ekki lengur skráður fyrir. Hegðaði sér þó eins og hann ætti pleisið og rak aðkomumenn á brott og hótaði að beita hnefunum. Fangelsismálastjóri sem hleypti hvorki bankabófunum fyrr í afplánum en öðrum, né sá í gegnum fingur sér við þá þegar þeir voru á Kvíabryggju, mun örugglega ekki líta á þetta sem agabrot eða brot á reglum um fanga á Vernd. Og Siggi fær að vera úti að vild.

Mér skilst að þegar dvölinni á Vernd lýkur fái bankabófarnir að afplána síðasta hluta fangelsisdómanna heima hjá sér með rafræn ökklabönd. Mætti ekki bjóða fólki að gefa þeim rafstuð gegnum ökklaböndin?

___
* Gunnar Smári Egilsson skrifar af þessu tilefni um sögulegan bakgrunn illrar meðferðar á verkafólki á Íslandi í Fréttatímanum (sem ég er að spá í að fara að lesa aftur eftir einbeitta sniðgöngu síðustu ára, enda held ég að nú sé blaðið ekki hið sama og áður). Aðrar fréttir af Brotafli og tengdasonarfyrirtækinu Kraftbindingum sem vitnað er í hér að ofan skrifuðu Þóra Kristín Ásgeirsdóttir og Þóra Tómasdóttir fyrir sama miðil. [Viðtbót:] Talandi um fjölmiðla. Mér er sagt að í Morgunblaðinu í gær hafi birst löng og ítarleg lofgjörð til ritstj. blaðsins, skreytt myndum af honum með ýmsum þjóðarleiðtogum. Fyrir handvömm vantar mynd af honum með Berlusconi, sem lengi var honum dyggur vinur og félagi.
** Þetta hefur samt pottþétt ekki verið keypt umfjöllun að þessu sinni hjá 365 miðlum.

Efnisorð: , , ,