miðvikudagur, apríl 27, 2016

Fjlmðlr

Mánudagsleiðari Magnúsar Guðmundssonar í Fréttablaðinu var alveg hreint ágætur. Ekki sakaði að pistill Guðmundar Andra Thorssonar um sama mál — aflandseignir fyrirmenna — var prýðilegur að vanda. Hafði ég þó hálft í hvoru búist við að í stað pistils Guðmundar Andra yrði yfirklórsgrein eftir Jón Ásgeir.

En mánudagurinn var greinilega undantekningin sem sannar regluna sem höfð er í heiðri á Fréttablaðinu: tala um eitthvað annað, allt annað en fjármál eigendanna.

Í gær skrifaði leiðarann Þorbjörn Þórðarson (sá hinn sami og tók geðþekkt viðtal við bankabófana á Kvíabryggju, rétt áður en þeim var sleppt út) og fókusar hann algjörlega á tengsl sitjandi forseta við aflandseyjafélög með mægðum sínum við Moussaieff fjölskylduna. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum væri þetta góður pistill, enda fullkomlega réttmætt að pönkast á ÓRG, ekki síst fyrir þá staðreynd að hann og Dorrit eru í því eina hjónabandi sem ég a.m.k. veit um þar sem annar aðilinn má vera með lögheimili í útlöndum — sem er auðvitað gert til að skattar séu hagstæðari fyrir forsetafrúna og þar með þau bæði.

En hafi Þorbjörn ætlað að tala svo lengi að enginn tæki eftir að hann minntist hvergi á Jón Ásgeir og Ingibjörgu þá mistókst það hrapallega. Undir lokin bendir hann á að um forsetann eigi að gilda það sama og um ráðherra Sjálfstæðisflokksins ef á annaðborð er verið að krefjast afsagnar einhverra. Leiðarinn endar svo á þessum orðum:
„Sú staða er komin upp í íslensku samfélagi að þú mátt helst ekki tengjast neinum sem átti einhvern tímann aflandsfélag ef þú ætlar að vera þátttakandi í stjórnmálum. Er það réttmæt og eðlileg krafa?“
Það liggur við að mann verki að sjá málsvörnina sem felst í þessum lokaorðum og spurningu Þorbjarnar.

Úr því ég er farin að tala um tangarhald eigenda á fjölmiðlum sínum og ærandi þögn fjölmiðlanna um fjármálaplott eigendanna sem þó öllum eru ljós er rétt að færa til bókar hvernig ástsæll fyrrverandi forsætisráðherra reyndi (og tókst?) að kúga fjölmiðla til að fjalla með mildilegri hætti um flokk sinn og ríkisstjórnina. Eða með orðum Illuga Jökulssonar:

„Og komið er endanlega í ljós að stjórnarherrarnir, undir forystu sjálfs forsætisráðherrans, stunduðu fjölmiðlakúgun. Núverandi forsætisráðherra tók líka fullan þátt í að gagnrýna fjölmiðla fyrir að vera ekki nógu hliðhollir sínum flokki og ríkisstjórninni. Tveir þingmenn lögðu nafn sitt við sama dreifbréfið með idjótískri gagnrýni á Ríkisútvarpið og hafi þeir ævarandi skömm fyrir.“

Sagt var frá þessum fjölmiðlamessum fyrrverandi forsætisráðherra í kjölfarið á fréttum um að Erdogan forseti Tyrklands hafi kúgað Angelu Merkel til að draga þýskan grínista fyrir dómstóla fyrir að móðga hans Erdógísku hátign. Erdogan hefur nefnilega megnustu ímugust á þeim sem skaða ímynd hans (hann ber greinilega ekki skynbragð á íróníu) og kærir hvern þann sem hallar á hann orði, auk þess sem hann hefur kúgað stærsta blað Tyrklands til að fylgja línu stjórnvalda.

Það er ekki eðlismunur á framferði framsóknarráðherra og tyrkjasoldáns því báðir misbeita valdi sínu til að kúga fjölmiðlafólk til hlýðni. Það er skammarlegt hvernig framsóknarmenn hafa opinberlega talað gegn Ríkisútvarpinu, hitt er ekki skárra að kalla á yfirmenn fjölmiðla og skamma þá fyrir að umfjöllun um flokkinn sé ekki nægilega jákvæð. Ýmislegt bendir reyndar til að Sigmundur Davíð hafi fengið góðar undirtektir þegar hann talaði við Kristínu Þorsteinsdóttur útgefanda og aðalritstjóra Fréttablaðsins, þótt hún þræti fyrir það. Ekki hefur það reynst henni erfitt að styðja ríkisstjórn ríka fólksins þar sem réttlæting auðmanna virðist beinlínis skrifuð í ritstjórnarstefnu blaðsins.

Enginn þeirra, Jón Ásgeir, Erdogan eða Sigmundur Davíð, eða nafni hans í Hádegismóum, má komast upp með að stýra fjölmiðlum í þá átt að fegra sinn hlut eða endurskrifa söguna. Allir hafa þeir þó reynt, Hádegismóra hefur líklega gengið best, og kemur því ekki á óvart að hann hefur réttlætt afskipti pólsku ríkisstjórnarinnar af ríkisfjölmiðlum þar í landi. En afskipti ráðandi afla af fjölmiðlun er sögulega séð einn helsti fylgifiskur fasismans. Illugi Jökulsson segir fasisma á uppleið í heiminum, því miður bendir margt til að það sé rétt. Það er ekki nóg með að fjármálaheimurinn hafi hunsað reynslu sögunnar af heimskreppum á borð við þá sem varð 1929, heldur virðumst við ekki horfast í augu við hættuna á að fasisminn sem þá fylgdi í kjölfarið geti einnig haldið innreið sína í lýðræðisríkjum.

En hvort sem við sjáum árásir framsóknarmanna sem fasíska tilburði eða bara rugl í einhverjum klikkhausum sem vonandi skolast út af þingi hið fyrsta, þá er aldrei eðlilegt að fjölmiðlar búi við hótanir og skoðanakúgun af hendi ráðamanna. Og heldur ekki að eigendur fjölmiðla noti þá til að ganga erinda sinna, þegja yfir sumu og verja annað.

Efnisorð: , , ,