sunnudagur, apríl 10, 2016

Lesefni á sunnudegi í apríl, viku eftir afhjúpun siðferðishruns

Ég mæli sterklega með lestri pistla sem birtir voru í Stundinni í gær.

Annar þeirra er í raun ræða Illuga Jökulssonar sem hann flutti á Austurvelli í gær. Hann hvetur auðvitað til kosninga og ræðir feril ríkisstjórnarinnar og hvernig hún mun reyna að koma sér undan kosningum, og síðast en ekki síst hvernig Bjarni Benediktsson mun aftur reyna að koma sér í mjúkinn hjá þjóðinni.
„Við munum til dæmis ekki kaupa það ef Bjarni Benediktsson birtist nú allt í einu, nýpússaður af einhverjum spinndokturum, eins og gerðist fyrir síðustu kosningar, þið munið, og byrjar að tala um nauðsyn sátta og samlyndis, og viðurkennir meira að segja að ef til vill hugsanlega kannski hafi mögulega ef til vill verið gerð ein eða tvö mistök. Við kaupum það heldur ekki, ef Bjarni glennir upp augun til að virka einlægur og sáttfús og auðmjúkur, svo við fáumst til að gefa honum frið til að stinga í vasa frænda sinna eigum okkar.

Því við munum vel hvenær við sáum hann síðast glenna svona upp augun, einlægan í framan. Það var í Kastljósi fyrir ári síðan þegar hann þóttist aldrei hafa komið neitt nálægt aflandseyjum: sjálfur Mister Falson frá Seychelles-eyjum. Við skulum ekki kaupa þann Bjarna sem nú verður vafalaust dubbaður upp, gerður svona út af örkinni, vandlega leikstýrt, því við höfum séð hinn sanna Bjarna Benediktsson – þegar hann brunaði niður stigann í Alþingishúsinu til að kynna nýju ríkisstjórnina, með Sigurð Inga talhlýðinn á eftir sér – þar sáum við hinn sanna Bjarna Benediktsson – nánast frávita af hroka.“
Hinn pistilinn, eða öllu heldur leiðara, skrifar Jón Trausti Reynisson. Sá fjallar um komandi kosningar (hvenær sem þær verða) og fer enn dýpra en Illugi í hvernig reynt verður að blekkja kjósendur.
„Á næstu mánuðum verðum við sannfærð um það að krosstengdir meðlimir ríkasta eina prósentsins séu best til þess fallnir að gæta hagsmuna 99 prósentanna.“

Svo ég skipti algjörlega um umræðuefni og fjölmiðil þá vil ég líka mæla með að fólk hlusti á viðtal sem Leifur Hauksson í Samfélaginu tók við Kristinn Hauk Skarphéðinsson dýravistfræðing á fimmtudag um varp hrafna í borgarlandinu og þá staðreynd að þeir eru ekki friðaðir. Fyrir nú utan að þetta er allt mjög fróðlegt og að mestu leyti gremjulegt (s.s. að steypt sé undan hrafninum*), ekki síst það að framsóknarþingmenn skuli hafa gefið sér tíma í miðjum hamaganginum til að berja saman frumvarp til víkka út heimild til að skjóta álftir sem annars eru alfriðaðar. Og það er í framhaldi af því sem Kristinn Haukur segir stutta en mjög fyndna sögu, sem kætir vonandi fleiri en mig.



___
* Eitt var þó rangt sem fram kom í þættinum: Hrafnshreiðrið á Kvennaskólanum hefur ekki fengið að vera í friði; það var fjarlægt í vetur.

Efnisorð: , , , ,