fimmtudagur, mars 24, 2016

Af óskeikulum siðferðisáttavita og veðmáli sem ekki er hægt að tapa

Í tilefni dagsins fékk Jóhannes útskýrari frí, og Sigmundur Davíð forsætisráðherra kom í drottningarviðtal í Fréttablaðinu. (Auðvitað allsekki vegna þess hve silkimjúk áferðin er á leiðurum aðalritstjórans.) Einnig lét SDG móðinn mása á Útvarpi Sögu og hefur sjálfsagt sprengt ánægjuvogina þar.

Ekki er ástæða til að rekja allt viðtalið (sem er tekið af blaðamanni sem getur varla leynt aðdáun sinni), en í stuttu máli sagt finnst SDG hann ekki hafa gert neitt rangt og sér ekkert siðferðilega ámælisvert við að fela auðinn í aflandseyjafélaginu Wintris fyrir kjósendum sínum.

En, eins og Illugi Jökulsson segir,
„Þegar Sigmundur Davíð hóf þátttöku í pólitík 2009 og svo alveg sérstaklega fyrir kosningarnar 2013, þá bar honum skylda til að upplýsa þjóðina um eignir sínar og konu sinnar á Tortóla og kröfur þeirra á hendur íslensku bönkunum. Þetta skipti verulegu máli því stjórnmálabaráttan þessi misserin snerist að ótrúlega stórum hluta um samskipti við kröfuhafa. Ef Sigmundur Davíð hefði lagt spilin á borðið má vel vera að kjósendur hefðu samt treyst honum, en hann kaus að vera það ekki. Hann fór á bak við þjóðina í mjög mikilsverðu hagsmunamáli hennar – og sem snerti, eða gat snert, peningalega hagsmuni hans sjálfs.“
Framsókn fékk (fáránlegan) fjölda atkvæða í þingkosningunum 2013 út á loforð Sigmundar Davíðs um hörku gagnvart kröfuhöfum og skuldaleiðréttinguna, en þetta tvennt var samofið. Kjósendur gátu auðvitað ekki vitað að skuldaleiðréttingin endaði á að koma úr ríkissjóði, og það hefði kannski ekki skipt þá alla máli, en sannarlega suma. En hefðu allir þessir kjósendur merkt við Framsókn í kjörklefanum hefðu þeir vitað að SDG og eiginkona hans hefðu átt auðæfi í skattaskjóli? Og að eiginkona Sigmundar, sem þá var orðin einkaeigandi að aflandseyjafélaginu (það var ekki fært á hennar nafn fyrr en fyrr en Sigmundur hellti sér útí pólitík 2009) væri meðal kröfuhafa í slitabú föllnu bankana? Ef nú hún hefði fengið allt greitt í topp af sínum kröfum, hefði það ekki haft fjárhagsleg áhrif á hokrið í Hrafnabjörgum? Og hefur það ekki líka fjárhagsleg áhrif á stöðu þeirra hjóna, svo ekki sé minnst á félagslega stöðu þeirra og völd, að Sigmundur Davíð varð forsætisráðherra 2013?

Mér sýnist að Sigmundur Davíð (eða þau hjónin) hafi veðjað á tvo kosti í einu:
A) fara í kosningabaráttu með loforðum sem gengu í augun á kjósendum en leyna jafnframt mikilvægum upplýsingum sem hefðu getað skemmt fyrir framboðinu,
B) láta auðæfin áfram liggja í sólbaði á Bresku jómfrúreyjum og reyna að ná sér í meiri pening með því að gera kröfu á bankana.

Ef A gengi ekki upp þá er alltaf nóg til af peningum (því ef marka má SDG hefðu kröfur verið greiddar til fulls ef hann hefði ekki verið í valdastöðu).

Ef A gengi upp en ekki B, þá er húsbóndinn á heimilinu samt orðinn forsætisráðherra.

Þetta plan gæti kallast win-win-trix.


Efnisorð: , , ,