sunnudagur, febrúar 28, 2016

Þúsund menn og friðargæslumenn

Ríkissjónvarpið sýndi í vikunni dönsku heimildarmyndina Bonnie með þúsund mönnum (myndin er aðgengileg á Sarpi og VOD til 2. mars). Þessi mynd var sýnd í danska sjónvarpinu í september síðastliðnum og vakti mikla athygli. Hún er um Bonnie sem er vændiskona og gengur undir nafninu Patricia þegar hún er í vinnunni og undir því nafni þekkja kúnnarnir hana.

„Þegar maður er tvær persónur er mjög þægilegt að vera ekki alltaf Bonnie. Vera bara Patricia“, segir hún í pásu í vinnunni . (Í klippu úr heimilidamyndinni má heyra kostulega eða ógeðslega lýsingu á því sem hún þarf að gera í starfi sínu, eftir því hvernig á það er litið.) En þótt við sjáum hana að störfum er hún Bonnie gagnvart áhorfendum og gefur þeim innsýn í líðan sína og hugsanir.

Bonnie er þriggja barna móðir (og þegar myndin var sýnd vissi yngsta barnið ekki um starf hennar) og býr með börnum sínum. Vændið stundar hún ekki heiman frá sér en þar sem hún hittir karlana er mikið að gera og tímapantanir streyma inn um símann og röð fyrir utan.

Kúnnarnir trúa því að Patricia fái fullnægingu með þeim, en Bonnie trúir heimildarmyndagerðarfólki fyrir því að það gerist nánast aldrei. Kynlífið er ekki drifkraftur hennar í starfi (hún er semsagt ekki í vændi af stjórnlausri greddu þótt vændisverjendur haldi því fram að konur sæki hreinlega í vændi af þeim sökum) heldur er hún föst í viðjum vanans. Hún hefur verið vændiskona frá átján ára aldri – í tuttugu ár – og eldri systir hennar byrjaði einnig í vændi á unglingsárum en lést á sautjánda ári af of stórum skammti eiturlyfja. Orsökin fyrir því að þær systur leiddust svo snemma út í vændi er ekki gefin upp en ljóst er að þær áttu ekki góða æsku.

Heilsufar Bonníar er slæmt, hún er með búlimíu og anorexíu og hefur líkamlega verki sem ágerast í vinnunni. Hana dreymir um að vera í starfi þar sem hún fær að vera í fötunum og nefndi hún það sérstaklega að sig langaði að reka pylsuvagn. Eftir að þátturinn var sýndur í Danmörku var efnt til söfnunar handa henni til að kaupa pylsuvagn. Mér tókst ekki að finna nýrri fréttir en frá október þar sem sagði frá því að hún væri að leita að pylsuvagni til að kaupa og staðsetningu fyrir hann.

Heimildamyndin er ekki fyrsta skiptið sem Bonnie hefur gefið innsýn í líf sitt sem vændiskona, því árið 2013 fékk mynd af henni að störfum (með karl ofan á sér) verðlaun sem besta blaðaljósmynd ársins í Danmörku og lenti í öðru sæti í World Press Photo samkeppninni.

Myndin um Bonnie fjallar ekki um karlana sem kaupa af henni kynlíf, nema þá til að gera gys að trúgirni þeirra og furðulegum kröfum í kynlífi. Afturámóti mátti sjá annarskonar úttekt á ásókn karla í líkama kvenna í leikinni kvikmynd sem danska sjónvarpið sýndi á föstudaginn, tveimur dögum eftir að íslenskir áhorfendur sáu átakanlegt líf Bonníar.

Leikna myndin heitir Whistleblower og fjallar um bandaríska lögreglukonu að nafni Kathryn Bolkovac sem réði sig til friðargæslustarfa í Bosníu árið 1999. Hún starfaði þar fyrir DynCorp undirverktaka Sameinuðu þjóðanna, en DynCorp (sem gengur undir öðru nafni í myndinni) gerði litlar aðrar kröfur til nýráðinna friðargæsluliða en að þeir hefðu náð 21 árs aldri.

Rachel Weisz leikur Kathryn í kvikmyndinni, en í viðtali segir Katryn sjálf að einn strákanna hafi sagt þeim tíðindi meðan á undirbúningi fyrir ferðina til Bosníu stóð.
„Hann segist vita um mjög góðar 12-15 ára stelpur þegar við komum þangað. Ég hélt að ég hefði misst eitthvað úr. En þegar ég kom til Bosníu varð mér ljóst um hvað hann var að tala. Það er svona fólk sem Bandaríkin ráða og setja til vinnu.“

Í starfi sínu komst hún semsagt að því að karlkyns félagar hennar í friðargæslunni keyptu ekki aðeins kynlíf, heldur voru „vændiskonurnar“ ungar að árum; þeim hafði þaraðauki verið rænt og var haldið föngnum. Með öðrum orðum, þær voru kynlífsþrælar friðargæsluliðanna.

Fyrsta skiptið sem Kathryn sá mansalið með eigin augum var í bænum Zenica.
„Ég var að vinna með konu sem hafði flúið, og hún benti mér á Florida barinn. Þegar ég kom þangað var hann tómur. Bakvið barborðið fann ég vegabréf kvenna frá löndum Austur-Evrópu, jafnramt helling af bandarískum dollurum. Á annarri hæð var læst herbergi. Ég fann sjö konur læstar inni. Notaðir smokkar þöktu tvær dýnur á gólfinu, eins og þarna hefði farið fram hópnauðgun.“
Friðargæsluliðarnir voru sér vel meðvitaðir um aðstæður stelpnanna því sumir þeirra áttu beina aðild að mansalinu. Myndin fjallar um hvernig Kathryn tekst að koma upp um málið en sýnir jafnframt aðstæður kvennanna og hvernig farið var með þær.

Í meistararitgerð Önnu Pálu Sverrisdóttur (sem ég birti hér brot úr, með fyrirvara um ásláttarvillur, án þess að hafa beðið um leyfi, og kippti út öllum vísunum í neðanmálsgreinar) um kynferðisofbeldi af hálfu friðargæsluliða, segir á bls. 37:
„Fram komu ásakanir um að friðargæsluliðar ættu beinan þátt í mansali til kynlífsþrælkunar í Bosníu auk þess að eiga umdeilanlega mikinn en að líkindum að minnsta kosti einhvern þátt í að skapa eftirspurn eftir kynlífsþrælum þar. Mannréttindasamtökin Human Rights Watch gáfu út skýrslu árið 2002 þar sem tíundað var hvernig stríðslok árið 1995 höfðu síst orðið til þess að draga úr kynferðisofbeldi í Bosníu. Vændishús væru þar á hverju strái og fulltrúar alþjóðlega lögregluliðsins með umboð frá Öryggisráðinu til að halda uppi lögum og reglu, væru flæktir í að brjóta þau með þátttöku í mansali til kynlífsþrælkunar. SÞ hefðu brugðist hvað varðar rannsóknir á brotunum. Einnig kom m.a. fram í skýrslunni að starfsmenn bandarísks verktakafyrirtækis, sem starfaði með sameiginlegu, fjölþjóðlegu herliði undir stjórn NATO á svæðinu, hefðu sætt rökstuddum ásökunum og rannsóknum um þátttöku í mansali. Þeir hefðu búið við aðrar reglur en friðargæsluliðar frá herjum aðildarþjóða sem hefði gert þeim auðveldara um vik.“
(Ég man þegar þessar fréttir bárust af hegðun friðargæsluliðanna þarna í upphafi aldarinnar. Fram að því hafði ég haldið að þeir væru allir vinsamlegir friðarsinnar sem vildu öllum vel. Þvílík bláeyg bjartsýni!)

Fyrir þær sem hyggjast sjá myndina þarf að setja margfalda trigger warning viðvörun á þessa mynd; hún er efalaust mjög erfið áhorfs fyrir marga þolendur kynferðisofbeldis. En ég skal ég ljóstra upp um endinn. Þar kemur þar í ljós að enginn var látinn sæta ábyrgð á þessum viðbjóði, og að undirverktakafyrirtækið starfar enn eins og ekkert hafi í skorist í alþjóðlegum verkefnum.


Myndirnar tvær gefa innsýn í ömurlegt líf kvenna sem verða með einum eða öðrum hætti viðföng karla sem svífast einskis til þess að fá yfirráðafýsn sinni og kynlífskröfum fullnægt. Ekki auka þær álitið á karlpeningnum, svo mikið er víst.

Efnisorð: , , , ,