miðvikudagur, febrúar 10, 2016

Greinargerð IV

Nú þykist ég vita að blogglesendur séu búnir að snæða rjómabollur, graðga í sig brimsalt kjöt og hengja öskupoka á vegfarendur og vanti eitthvað annað að gera. Þá er gott að dunda sér við að lesa þessar ágætu greinar sem eftilvill hafa ekki borið fyrir augu lesenda áður.

Sema Erla Serdar skrifaði í síðasta mánuði grein sem kallast „Tröllunum svarað“, og hefst hún svona.
„„Að taka umræðuna“ er frasi sem andstæðingar fjölmenningar og þeir sem ala á andúð á innflytjendum, múslimum og öðrum útlendingum nota til þess að afsaka óhuggulegan málflutning sinn sem byggist á fáu öðru en upphrópunum, ofstopa og rangfærslum.
Þeir sem leggja í „að taka umræðuna“ gefast oftast fljótt upp enda kemst umræðan sjálf ekki langt upp úr skotgröfunum og það er alltaf stutt í heiftina, persónuárásirnar og níðið sem tekur yfir þá sem reyna að réttlæta ömurlegan málstað.

Annað einkenni þess „að taka umræðuna“ er að hún byggist ávallt á sömu innihaldslausu frösunum sem standast ekki skoðun. Frösum sem flestir eru orðnir þreyttir á að heyra, frösum sem oft á tíðum eru ógeðfelldir.

Hér er gerð tilraun til þess að svara þessum frösum í eitt skipti fyrir öll. Það er vonandi að við náum með því að stíga eitt skref áfram í „að taka umræðuna“ (ég veit ég er bjartsýn).“

Nokkru síðar skrifaði Silja Aðalsteinsdóttir stutta játningu sem innlegg í umræðuna um listamannalaunin. Enda þótt sé ami að uppnáminu kringum listamannalaun ár hvert er grein Silju vel þess virði að lesa.

Knúzinu hæli ég oft (við erum samt ekki í skjallbandalagi því aldrei hælir Knúzið mér, sagði hún beisklega) og í fyrradag birtist þar þýdd grein eftir Alexöndru Antevska og Nicolas Gavey um klámnotkun ungra karla. Það borgar sig fyrir blogglesendur að lesa greinina strax, því ég á eflaust (oft) eftir að vísa til hennar síðar.

Efnisorð: , , ,