mánudagur, janúar 11, 2016

* [viðbót, síðar]

Rétt í þessu var ég að bæta neðanmálsgreinum við tvær bloggfærslur. Önnur þeirra er síðasta bloggfærsla, en þar hafði mér láðst að nefna grein eftir Jón Trausta Reynisson enda þótt ég hefði sett tengingu á hana, en ég þykist vita að ekki ýti allir lesendur á hlekkinn, og í þessu tilviki vil ég a.m.k. upplýsa um efni greinar Jóns Trausta svo að fleiri lesi hana.

Hin bloggfærslan er skrifuð síðastliðið vor og heitir „Hitnar undir körlum“. Þar ræddi ég þá undarlegu áráttu karla, sem tjá sig við fréttir eða greinar um ofbeldi sem karlar beita konur, að ræða allt annað en það. Helst snúa þeir umræðunni á hvolf og tala um ofbeldi kvenna gegn körlum (en þegar karl stígur fram og segir konu hafa beitt sig ofbeldi fara karlarnir að ræða um forræðismál!). Augljóst dæmi um slíkt má sjá í nýlegri grein eftir Hrannar Björn Arnarsson sem fjallar um karlveldi og kvenmorð, en þar vilja karlarnir í athugasemdakerfinu enganveginn ræða þá staðreynd að karlar beita konur ofbeldi og að líklegra er að „konur verði myrtar af núverandi eða fyrrverandi lífsförunauti sínum, en nokkrum öðrum einstaklingum eða öfgahópum“. Nei, karlarnir í athugasemdakerfinu vilja ræða ofbeldi sem konur beita börn og karlmenn, þ.m.t. andlegt ofbeldi, en leggja þó áherslu á að „hætt[a] að kyngera alla skapaða hluti, það er nákvæmlega ekkert kynbundið við ofbeldi“. Mér þykir einboðið að setja tengingu á grein Hrannars við gamla pistilinn minn, máli mínu til sönnunar. Þar sem mig minnir að ég hafi áður skrifað um þessa undanbragða taktík karlmanna í athugasemdakerfum, mun ég einnig bæta við hlekk á grein Hrannars rekist ég á fleiri gömul skrif mín af því tagi.

Úr því að ég er í uppfærsluham get ég upplýst lesendur að ég hef lengi haft í huga að fara yfir allar bloggfærslur mínar frá upphafi og hengja við þær rétta merkimiða (það eru þeir sem birtast allajafna neðst við hverja færslu). Ég mun fjölga þeim, bæta við sérstökum merkimiðum fyrir Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, svo auðveldara sé að fletta uppá öllu því sem ég hef hrakyrt þá fyrir; gera líka merkimiða fyrir skipulagsmál, utanríkismál og ýmislegt fleira. Henda jafnframt út merkimiðum sem hefjast á stórum staf og nota litla stafi í nýjum og gömlum merkimiðum. Já og laga augljósar ásláttarvillur (en stilla mig um að laga allar ambögur og málfræðifúsk, enda þótt freistandi sé að kaupa prófarkalestur á allt heila klabbið, ekki veitti af). Sennilega verður viðvörun bætt framan við pistla þar sem það á við. Að auki ætla ég að bæta við fleiri pistla nýjum upplýsingum eða tenglum á fréttir og greinar (ef og þegar ég nenni), aðallega þó vísunum í eigin skrif, og hef það þá yfirleitt neðanmáls og sérmerkt. Ég breyti ekki pistlum að öðru leyti eftirá,* ég lofa.

Það stendur semsagt til að laga, taka til og gera auðfundnara. Ekki verður lokað vegna breytinga á meðan.

Lesendur sem nota rss til að fylgjast með nýjum pistlum fá líklega endalausar tilkynningar við hverja breytingu (ég biðst fyrirfram afsökunar) en aðrir ættu ekki að verða varir við neitt rask. Hugsanlega vek ég þó athygli á einhverjum breytinganna eftir því sem verkinu vindur fram.

Hvenær tiltekt lýkur er óljóst en það ætti að hafast á þessari öld.



___
* [viðbót] Ég áskil mér áfram rétt til að umorða eða bæta við texta innan sólarhrings frá því hann er skrifaður.

Efnisorð: , , ,