sunnudagur, desember 20, 2015

Skrúfað fyrir gagnrýni á Framsókn

Lengi hefur verið vitað að ríkisstjórnarflokkarnir hafa horn í síðu Ríkisútvarpsins. Sjálfstæðisflokkurinn fyrst og fremst vegna þess að hann vill einkavæða allt og reynir að telja sjálfum sér og öðrum trú um að einkareknar útvarps- og sjónvarpsstöðvar muni sinna menningar-, fræðslu- og almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins rétt eins vel. Framsóknarflokkurinn hefur hinsvegar sýnt það á formannsárum Sigmundar Davíðs — en þó sérstaklega eftir að Vigdís Hauksdóttir var hafin þar til vegs og virðingar — að hann þolir þolir ekki upplýsta samræðu, þolir ekki gagnrýni, og þolir ekki fjölmenningu eða þá sem tala fyrir fjölmenningu.

Markmið Framsóknar (sem mun auðvitað gagnast Sjálfstæðislflokknum líka) er að skerða svo fjárframlög til Ríkisútvarpsins og skilyrða þau* þannig að mannskapurinn sem þar hefur staðið fyrir allri þessari óvægnu gagnrýni verði helst atvinnulaus. Líklega verður Framsókn aldrei sátt fyrr en úr útvarpinu hljómi eingöngu hæfilega þjóðleg tónlist, helst skagfirsk sveifla.

Guðlaugur G. Sverrisson stjórnarformaður Ríkisútvarpsins er pólitískt kjörinn og gegnheill Framsóknarmaður og hann er því hæstánægður með að tekjur Ríkisútvarpsins skerðist um 500 milljónir eða svo. Áður en hann settist í stjórn stofnunarinnar hafði hann gagnrýnt hana mjög framsóknarlega, þ.e. fyrir að hafa bæði forsætisráðherra og forsetann „í sigtinu“. Þá sagði hann einnig í blaðagrein í september 2013, og var þá að kvarta yfir umræðunni um skuldaleiðréttinguna:
„Í ljósi mikillar umræðu um stöðu Ríkisútvarpsins á markaði undanfarið og meint áhrif þess á skoðanamyndun notenda hef ég verið hugsi yfir þeim áherslum sem Ríkisútvarpið hefur lagt á umfjöllun um málefni skuldugra fjölskyldna. Mér hefur fundist aðal áherslan hjá Ríkisútvarpinu vera sú að espa til leiksins, með stanslausum fréttum og umfjöllunum um að ekkert komi frá ríkisstjórninni um það hvernig útfæra eigi leiðréttingu vegna forsendubrests á verðtryggðum skuldum heimila.“
Óvinurinn er sannarlega ekki bara innan Ríkistútvarpsins því Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar og sérlegur bardagahani Framsóknarflokksins hefur lagt allt kapp á að lama starfsemi stofnunarinnar. Nú hrósar hún sigri og líklega er það ekki orðum aukið hjá Merði Árnasyni að Vigdís Hauksdóttir sé orðin valdamesti þingmaðurinn á Alþingi.

Þótt að á annan hátt sé, þá er það alveg jafn sorglegt og meðferðin á Ríkisútvarpinu.

__
* Peningurinn sem veifað er framan í Ríkisútvarpið er 175 milljóna króna sérstakt framlag sem ætlað fyrir innlenda kvikmyndaframleiðslu. Ekkert hefði ég á móti því ef það væri viðbót en ekki yfirklór (og tekjurnar sem það á að skapa eru mjög takmarkaðar). Því fyrst og fremst er greinilega verið að hamast gegn umræðu-, menningar-, og fréttaskýringaþáttum auk fréttastofunni sjálfri með því að takmarka svo mjög féð sem stofnunin hefur til að spila úr að vild.

Efnisorð: , ,