fimmtudagur, nóvember 26, 2015

Lengri útgáfa af bloggfærslunni í gær

Fyrir nokkrum dögum var Biggi lögga í sjónvarpsviðtali (sem ég nenni ekki að ræða frekar). Þar talaði hann m.a. um að þekkt sé að „stelpur þurfi að borga sig inn í partý með einhverskonar kynlífsathöfnum“. Ég hugsaði með mér að eitthvað þyrfti Biggi lögga að uppfæra hjá sér sögurnar, þetta væri pottþétt liðin tíð þótt frést hafi af svona ‘munnmaka-aðgangseyri’ í partý einhverntímann fyrir löngu.

En les ég þá ekki í sýknudómnum yfir stráknum sem þóttist ekki vita að grunnskólastelpa væri 14 ára, að hann hafi krafið hana um munnmök gegn því að fá að fara með honum á rúntinn! Og þegar hann svo kom á vettvang til að rukka (fyrirfram) um munnmökin, hafi hann ekki látið þar við sitja en haft við barnunga stúlkuna samfarir (sem við hin köllum nauðgun). Vinur hans sem beið úti í bíl sagði að hann hefði komið út aftur eftir 15-20 mínútur. Athugið: frá því að hann steig inn á heimili stelpunnar, sem hann hafði aldrei talað við fyrr, liðu í mesta lagi 20 mínútur þar til hann var búinn að klára sig af og kominn út í bíl aftur. Hversu mikinn tíma hafði stelpan eða hann sjálfur til að kynnast, stunda forleik, komast að því hvað hver vildi? En nei, það skipti auðvitað engu máli. Hann var búinn að fá stelpu til að játa því að hafa við hann munnmök (gegn því að fá að fara á rúntinn, sem hana langaði greinilega mikið til) og hann ætlaði að innheimta það aðgangsgjald nákvæmlega með þeim hætti sem hann sýndist.

Hvar var þessi drengur þegar kynfræðsla fór fram í skólanum hans, eða lífsleikni? Hvar var hann þegar bekkurinn hans eða einfaldlega allir með netaðgang horfðu á myndbandið Fáðu já? Eða strákarnir fimm sem fengu einnig sýknuklapp á kollinn eftir að þeir höfðu hver á fætur öðrum, og stundum margir í einu, framið það sem þeim fannst vera „algjörlega venjulegt kynlíf“ enda þótt stelpan hafi aldrei verið spurð álits. Fór líka framhjá þeim öll umræða undanfarinna ára um kynfrelsi stelpna, að þótt þær megi stunda allt það kynlíf sem þær vilji þá megi enginn krefja þær eða neyða til kynlífs sem þær vilja ekki?

Meðtaka þessir strákar ekki þessar upplýsingar eða komast þær ekki fyrir í klámfylltum hugum þeirra? Eða bægja þeir öllu frá sér sem stangast á við upplýsingarnar úr klámmyndum sem gefa sífellt skilaboðin ‘ávallt skal ríða öllum stelpum í öll göt við öll tækifæri og hóa í vinina því [klámmyndir segja að] engin takmörk eru fyrir hvað kvenfólk vill og þolir miklar ríðingar’.

Maður spyr sig.

Reyndar spyrja margir spurninga í ljósi nýjustu dóma. Hvernig stendur á því að stelpa sem kærir nauðgun eftir einn og hálfan sólarhring er talin ótrúverðug vegna þess að hún hafi ekki sagt frá fyrr og þessvegna er nauðgari hennar sýknaður, en í öðru máli þar sem karlmaður nauðgar öðrum karlmanni sem kærir ekki fyrr en eftir ár, þá er sakfellt. Er það þá ekki tíminn sem skiptir máli? Eða er bara svona mikið alvarlegra að karlmanni sé nauðgað af karlmanni? Það mætti ætla það, ekki síst vegna þess að verið var að dæma karlmann í skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa strokið öðrum karlmanni um lærið.

Ef hver einasta kona sem hefur orðið fyrir því að karlmaður strjúki henni um lærið myndi kæra, og það gengi svona ljómandi vel að dæma karlmenn seka fyrir slíkt óvelkomið káf — þá væri ekki bara ein fangelsisbygging í byggingu á Hólmsheiði heldur væri öll heiðin þakin fangelsum og flestar heiðar landsins.

Mér finnst ekki, svo það komi nú fram, að það megi nauðga karlmönnum eða káfa á þeim (og mér finnst í rauninni gott að menn séu dregnir fyrir dómstóla fyrir að káfa á fólki), en mér finnst að það ætti að taka mark á öllum sem kæra káf og kynferðisbrot, en ekki bara rjúka upp til handa og fóta í einhverju hómófóbísku krampakasti og taka þá karla út fyrir sviga sem leita á eða beita aðra karla kynferðisofbeldi og dæma þá seka fyrir það sem karlmenn komast upp með að gera konum í stórum stíl.


Efnisorð: , , , ,