föstudagur, nóvember 06, 2015

Föstudagsjákvæðni

Samfélagið er einn af mínum uppáhaldsþáttum í Ríkisútvarpinu (Hönnu G. Sigurðardóttur er þó enn sárt saknað) og á föstudögum ræða þáttarstjórnendur (sem eru nú Leifur Hauksson, Þórhildur Ólafsdóttir og Björn Þór Sigbjörnsson) við fólk um hvernig við getum bætt samfélagið. Það er verðugt umræðuefni og svörin margvísleg. Annar fastur liður á föstudögum er Jón Björnsson sem flytur pistil í lok þáttar og er ávallt skemmtilegur. Svo er breytilegt hvað gerist þar á milli en yfirleitt má ganga að fróðlegum viðtölum um lífsins gagn og nauðsynjar vísum.

Í þættinum sem var á dagskrá 30. október síðastliðinn var fyrst rætt við Guðrúnu Ögmundsdóttur, fyrrverandi allskonar og núverandi tengilið vistheimila, um hvernig við bætum samfélagið, og var ekki komið að tómum kofanum hjá henni frekar en fyrri daginn.

Einnig var rætt við Stefán Þór Björnsson, formann flóttamannanefndar um undirbúning komu flóttamanna til Íslands. En fyrir liggur að 55 flóttamönnum stendur til boða að koma hingað í næsta mánuði, fleiri bætast við eftir áramót. Vissulega er þessi tala mjög lág og enn hafa stjórnvöld ekki gefið upp endanlega tölu flóttamanna sem hingað koma. Þó sá hluti viðtalsins sem sneri að fjölda þeirra hafi verið svekkjandi og pirrandi þá reyndist þetta mjög fróðlegt og gott viðtal (sumt af því sem þar kom fram má lesa í frétt sem birt var sama dag). Greinilegt er að hvert skref í þessu ferli er úthugsað og allt lagt upp úr því að flóttamönnum farnist vel hér á landi. Mér létti talsvert við að heyra þetta, því eins og Útlendingastofnun lætur hefði mátt búast við harðsvíruðum móttökum sem miðuðu að því að brjóta fólkið endanlega niður, og að því loknu yrði því grýtt í gáma upp á heiðar.

Þetta var því góður þáttur á alla enda og kanta.

Efnisorð: ,